Fyrst er þar að taka að falleg ljósmynd er af því þegar
alþingismenn rölta til kirkju með forsetann og biskupinn í fararbroddi og ekki
nóg með það, því ekki verður betur séð, en forsætisráðherrann og matvælaráðherrann
gangi í takt!
Fjármálaráðherrann hefur lagt fram fjárlagafrumvarp og boðar hallarekstur og ekki verður betur séð en ráðherrann halli dálítið sjálfur, sem vonlegt er, því gert er ráð fyrir 46 milljarða halla.
Skýringarmynd er í blaðinu með myndum, ritum, teikningum, krumsprangi og
stimpli, þannig að allt er þetta sæmilega skothelt og ,,áferðarfallegt“ eins og
við sjáum á öðrum stað.
Það ,,reynir á sáttfýsi stjórnarliða á nýhöfnu þingi“ segir
á einum stað í blaðinu og líklega er það vegna þess að ,,boðað er aukið aðhald
í rekstri ríkisins“, en aðhaldið er ekki nóg og því er spáð í framtíðina með
því að rýna í nýfundna hauskúpu, sem við reiknum með að sé fundin í
ráðherrabústaðnum.
Sáttfýsi eiga stjórnarliðar næga, svo sem sést hefur og t.d. hefur ráðherra matvælanna mátt ganga fram sem hann, þ.e.a.s. hún, hefur viljað og samið reglugerðir í erg og gríð og sér ekki fyrir endann á.
Vonandi tekst
þeim að finna sannleika og sáttfýsi í hinum nýfundnu beinum.
Venjulegir Jónar og Gunnur vita það eitt að betra er að eiga
fyrir salti í grautinn en að eiga það ekki og vegna þeirra ísköldu sanninda á
það ágæta fólk stundum ekki gott með að átta sig á hvert forustulið þjóðarinnar
er að fara í allri sinni samanþjöppuðu og fjölflokkuðu góðmennsku.
Góðmennskan birtist þessa dagana t.d. í samþjöppun skóla en útþenslu
ýmissa annara hluta sem minni þörf er fyrir.
En allt er þetta bara ágætt og við bíðum spennt eftir framhaldinu í von um að sáttfýsin fari ekki út í öfgar og þó:
Kannski er
bara best að flokkarnir þrír sameinist og rífist þar með á bakvið lokaðar dyr
okkur hinum til bóta, því það er alltaf sárt að sjá góða vini rífast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli