Það verður víst seint sagt að tíðindalaust sé í íslenskri pólitík.
Við vorum rétt búin að ná andanum, eftir upphlaup matvælaráðherra á miðju sumri, þegar annað ámóta blautt gaus upp eftir að gat hafði komið á laxeldiskví.
Og um það bil þegar þjóðin var við það að jafna sig almennilega á því að lax sé bara lax, hvort sem hann er í kví eða í á, þá tók sig til ráðherra og stökk upp á nef sér vegna hvalveiða.
Hvali má nefnilega ekki veiða né éta og því er það liðin tíð, að fátækt fólk geti keypt sér hvalkjöt, láti það liggja í mjólk og gert úr því góða steik.
Þegar hvalveiðarnar voru komnar ,,í steik" og laxeldismálin líka, var flett ofan af því sem allir vissu, sem vita vildu, að laxar ýmissa stofna finnast í laxveiðiám vítt um veröld og þar á meðal í Kanada.
Og þar er kynþáttarígurinn í laxheimum slíkur, að þeim dettur ekki í kvarnir, að blanda svilum sínum sama við önnur hrogn en þau sem tilheyra réttum stofni.
Það næsta sem við komum til með að frétta af málinu verður eflaust, að til standi að kæra kanadíska laxa fyrir kynþáttamismunun í laxísku kynlífi og þegar svo er komið, fer að verða athugandi fyrir laxmenn af vinstrigrænum stofni hvort ekki þurfi að fara að laxera.
Þessi mál eru ekki til lykta leidd en nú er komið upp annað mál og mun alvarlegra.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, sem í raun hefur leitt ríkisstjórnina í gegnum þær hremmingar sem hér voru fyrr nefndar, komst í þá stöðu, vegna kaupa föður hans á hlutabréfum í Íslandsbanka, að sonurinn sá sér ekki annað fært en að segja af sér ráðherrastöðunni.
Þjóðin fjárglaða, er sem sagt án fjármálaráðherra og þannig getur ,,stjórn" fjármála ekki verið, hvað sem mönnum kann annars að finnast um, hvernig haldið hafi verið á þeim málum.
Hver kemur til með að stjórna (ó?)stjórninni þegar Bjarna nýtur ekki lengur við, er ekki vitað en hitt er ljóst, að það verður ekki öfundsvert hlutverk í að komast og enginn innan stjórnarinnar sýnist vera vænlegur né vænleg, til að valda verkefninu.
Umboðamaður segir Bjarna hafa brostið hæfi, hvað varðar margnefnda bankasölu og lítil ástæða er til að efast um að það sé rétt, svo tengdir sem Bjarni og faðir hans eru.
Umboðsmaður gaf út Álit umboðsmanns og þeir sem gaman hafa af lestri slíkra gagna geta liðkað sig í lestri með lestri þess.
Við hin látum okkur nægja að fylgjast með dramatíkinni í pólitíkinni og vitum það eitt, að ekki batnar ríkisstjórnin við það, að Bjarni Benediktsson hverfi úr henni.
Bjarni segir af sér, segir í fréttum og þjóðin heldur niðri í sér andanum og veltir fyrir sér hver komi til með að stjórna landinu, vitandi að enginn af núverandi ráðherrum er líklegur til að ráða við hlutverkið.
Flogið hefur fyrir að núverandi forsætisráðherra fái nýtt hlutverk og fundinn verði annar í hennar stað.
Gott er að hafa eitthvað í innlendum fréttum, en okkur er ekki alveg sama um hvað það er, hvernig það ber að, né hvernig niðurstaðan verður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli