Við sjáum að teiknari Morgunblaðsins sér foringja ríkisstjórnarinnar spá í spil, í leit að framtíðar- plani fyrir ríkisstjórnina. Hvort það tekst, mun koma í ljós.
Ríkisstjórnin brá sér á Þingvöll á dögunum, líklega til að byggja upp andann fyrir stólaskiptin, sem þurfti að framkvæma vegna sölunnar á hlutabréfum í Íslandsbanka.
Telja má víst að það hafi gustað um stjórnarliða, bæði að utan sem innan í haustnæðingnum, en ekki síður vegna hins pólitíska álags sem á herðum hvíldi.
Formaður stærsta flokksins í stjórninni hafði verið metinn óhæfur, eða eitthvað í þá áttina af umboðsmanni nokkrum og því þurfti að gera eitthvað, bara eitthvað og niðurstaðan varð: að það þyrfti að gera eitthvað, og það var gert.
Annar ráðherra úr sama flokki, sem frekar er of, en vanvirkur í störfum sínum, var færður sem spil á hendi og var fundinn staður fyrir ofan Ásinn og þar með gerður að hæsta spili sem þá er tvisturinn(!) en Ásinn er áfram Ás og getur verið á sínum stað.
Ekki var tvista (því tvisturinn er kvenkyns) búin að vera lengi þar sem henni hafði verið komið fyrir, þegar hún lýsti því yfir að Ás vildi hún vera, eða öllu heldur Ása og nú býr fjármálaráðherrann sem var, sig undir að takast á við, fjármálaráðherrann sem er, á þeirra prívat stjórnmálaheimili.
Hvernig sá slagur fer er ekki gott að segja og vel getur verið að hinn ljúfi og rökfasti fyrrum fjármálaráðherra, nenni ekki meiru og ákveði að gefa formennskuna upp á bátinn til að taka lífinu rólega, en þar sem Bjarni er á besta aldri vonumst við eftir meiru.
Þegar svona var komið létti Samfylkingin akkerum og sigldi til Akureyrar til að halda flokksstjórnarfund í norðlenskri ró og yfirvegun.
Hvað þar gerðist vita fáir enn sem komið er, en lesa má um það og eins og margir vita þá er allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni og fylgið vex og vex líkt og sunnlenskt gras í góðri tíð.
Því hefði verið eins hægt að halda flokksstjórnarfundinn á Suðurlandi og hefði eflaust ekki verið verra, þó þjóðin hafi ekki enn gefið Sunnlendingum Menningarhús og það ekki, þó skelin að slíku húsi sé búin að vera tilbúin árum saman á Selfossi.
Ræðu Kristrúnar má lesa á tenglinum: Ræða Kristrúnar: „Allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni“ | Samfylkingin (xs.is).
Annars er það helst af Samfylkingunni að frétta að með sama áframhaldi, gæti svo farið að flokkurinn þyrfti ekki að leita úr fyrir eigin raðir til að mynda ríkisstjórn og það þó, að boðið yrði upp á Borgarnes- kosningar af hálfu núverandi stjórnarflokka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli