Pilturinn sem hafði ekki hagað sér nógu illa, til að fá að dvelja á Íslandi

 Árið er 1921 og yfirvöld íslensks samfélags eru ráðin í því að verða sér til skammar; láta til skarar skríða og tekst ætlunarverkið.

Skjámynd 2023-10-16 170837Á árinu hafði kóngurinn yfir Íslandi og drottning hans komið í heimsókn siglandi á skipinu Valkyrjan, eftir því sem lesa má í ,,Öldinni okkar" 1901 til 1930.

Við sjáum líka að ,,Rafstöðin við Elliðaár“ er vígð þann 28 júní þetta ár, svo að ekki fer á milli mála að þjóðin er á framfarabraut.

Að vísu komst upp um smygl úr þýsku skipi á víni á Siglufirði, ,,30 lestir áfengi“, eins og þar segir og við vitum ekki alveg hvort uppgötvunin var til framfara eða ekki.

Illa fór alla vega um sjóferð þá, því erindið var ekki annað en flytja vín til Íslands, að því er sannað þótti.

Á bls. 197 í bókinni er sagt frá því að hernaðarástand hafi verið í Reykjavík vegna rússnesks drengs og að ,,Ólafur Friðriksson og fylgismenn hans hafi sigrað lögregluna eftir snarpan bardaga“.

Piltinum hafði verið vísað úr landi vegna augnsjúkdóms.

Svona voru menn nú hjartahlýir á þessum tíma, að ekki mátti veita ungum pilti landvist ef hann var með kvilla í auga og yfirvöldum fannst ekki til greina koma að veita 14 ára ungmenni landvist ef viðkomandi væri með ,,trachoma“, en svo sögðu læknar að kvillinn héti.

Ólafur vildi sem minnst hlusta á þessa fordóma og þann 19. október sló í bardaga milli þeirra sem vildu drenginn á brott og hinna sem vildu veita honum landvist.

Endalok málsins urðu að drengurinn var fluttur út með Gullfossi, velgjörðarmaður hans og fylgismenn hans, vistaðir í fangelsi, en Ólafur svelti sig í mótmælaskyni og neitaði að éta það sem í boði var í fangavistinni og var látinn laus eftir vikusvelti.

Skjámynd 2023-10-16 170954Og enn erum við að og nú er það ungur piltur frá Gana sem er voðamennið sem yfirvöld þjóðarinnar telja að losa þurfi þjóðina við, eftir sex ára dvöl í landinu.

Á vef Ríkisútvarpsins segir:

,,Þróttarar komu saman í Laugardal í gær til að styðja við bakið á Isaac sem var sendur til Gana í morgun. Hann hefur verið hér á landi í nærri sex ár og starfað sem vallarstjóri hjá Þrótti, leikið með liðinu og þjálfað. Honum var á sínum tíma synjað um alþjóðlega vernd og getur hann því ekki sótt um atvinnu- og dvalarleyfi til frambúðar.“

Pilturinn frá Gana hefur ekkert gert af sér annað en að vera til og hafa komið til Íslands; unnið þar og getið sér gott orð sem starfsmaður íþróttafélagsins Þróttur og þar vilja menn fá að hafa hann hjá sér áfram.

Við fylgjum frásögn ríkisútvarpsins dálítið lengra: 

 

,,Jón Hafsteinn Jóhannsson þjálfari hjá Þrótti var hjá Isaac í nótt. „Við komum saman í morgun við sem stöndum honum næst og vorum með honum þegar lögreglan kom að sækja hann. Þetta fór allt friðsamlega fram en við fengum samt aðrar upplýsingar en lágu fyrir áður.“

Isaac hafði fengið þær upplýsingar að hann yrði fluttur til Gana í gegnum Frakkland en lögregla tjáði honum í nótt að hann yrði fluttur í gegnum Holland.

„Það kom ekkert á óvart að allt í einu stæðust ekki allar upplýsingar sem okkur hafði verið gefið áður.“

Vitanlega kom framkoma íslenskra yfirvalda ekki á óvart. Pilturinn hafði ekki hagað sér rétt.

Hann einfaldlega kom til Íslands og vissi ekki að það þyrfti að haga sér illa í heimalandinu, til að hljóta fljótafgreiddan ríkisborgararétt á Íslandi. 

Fyrir því höfum við nýlegt dæmi, þegar ríkisborgararéttur var veittur með hraði, eftir að viðkomandi höfðu sýnt af sé fádæma dónaskap í heimalandinu.

Trúlega eru yfirvöld þar í landi fegin að vera laus við viðkomandi, en ólíklegt er að íslensk yfirvöld hafi leitt hugann að því.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...