Sakleysið, traustið og spurnin

 Þegar þessi pistill var í smíðum heyrðist viðtal við formann Framsóknarflokksins, í 11 fréttum Rúv, og hann var harla kátur með ,,breytinguna“.

Það hafa verið uppi spurningar um sakleysi í mannheimum, nú sem svo oft áður og síðustu dagana er sem ekki sé allt sem sýnist varðandi lagabreytingu um afurðastöðvar sem gerð var í flaustri á Alþingi fyrir skömmu síðan.

Á myndunum hér að ofan sjáum við dæmigert sakleysi og ljóst er, að kindin stolta með lambið fallega, er sem betur fer ekki að hugsa mikið til haustsins; hún er ánægð með sitt og glöð ef henni tekst að halda því þann tíma sem það þarfnast hennar.

Þegar haustar verður hún ekki spurð eins né neins og líklegt er, að lambið verði tekið frá henni og komið á disk einhverra í framhaldinu, því ,það er köttur í bóli bjarnar’ og þó sakleysislegur sé, þá þarf hann mat á sina skál og gott er, að hún sé undirstöðugóð og gefi fyllingu svo hægt sé að leggjast á meltuna til að mala og það sama gildir um eigendur kisu litlu.

Það er það sem gert hefur verið að mala í merkingunni að mæla og rita um dæmalaus lög sem samþykkt voru á þingi eins og hér var nefnt í upphafi.

Í ljós hefur komið að þrýstingurinn fyrir að lögin væru sett, kom að utan en ekki að innan, þ.e. þau sem fyrir þeim börðust voru að líkindum handbendi manna út í bæ.

Það er ekki að undra þó spurn sé í svip kisu, því nú áttar hann sig á að þetta er ekki fyrir hana gert, var ekki gert til að það sem í skálina kemur yrði örlítið meira og pínulítið betra.

Nei, þetta var gert til að matur húsbænda hans yrði dálítið þyngri fyrir buddu eigendanna, sem gæti leitt til þess að hann fengi lítið eitt minna af góðgætinu og yrði þess í stað, að sætta sig við meira af einhverskonar kögglum til að húsbændurnir fengju síður sting í budduna.

Einn þeirra sem barðist fyrir samþykkt málsins á þingi reynist vera eigandi að hlut í fyrirtækinu sem nýtur góðs(?) af gjörningnum.

Þingmenn eru kjörnir til að gæta hagsmuna lands og þjóðar og litið er svo á að þeirra hagsmunir fari saman við þá hagsmuni.

Því er það leitt svo ekki sé meira sagt, þegar þingmenn fara út fyrir þau mörk.

Þingmaðurinn afsakar sig með því að hann eigi aðeins oggolítilla hagsmuna að gæta og því sé þetta nú allt í besta lagi.

Og þannig er það og þannig verður það, að spillingarþefur fjarar út með tímanum og gleymist, því við taka ný mál sem hugur landans kemur síðan til með að snúast um.

Það er líka dálítil bið eftir kosningum og ekki vonlaust, að málið verði gleymt þegar að þeim kemur.

Hvort úrslit þeirra verða ráðin í Borgarnesi, vitum við ekki en við bíðum og sjáum hvað setur.

Hvort við fáum annað skip og annað föruneyti er hreint ekki líklegt, því við erum svo fljót að gleyma og flokksböndin, maður minn!

Þau eru traust!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...