Fuglarnir gefa í gogg, hvort heldur sem þeir eru vængjaðir eður ei!
Við getum séð ýmislegt í náttúrunni sem sjá má líka í mannheimum, sem ekki er undarlegt, því hvað erum við annað en hluti af náttúrunni þegar að er gáð?
Síðan eru þeir líka sem betur fer til, sem vilja vera til fyrirmyndar og það svo, að af þeim geti stafað ljós sem lýst geti öðrum og ekki er það ónýtt og óskandi er að geislunum stafi sem víðast!
Aðrir líta út um gluggann og reyna að fylgjast með því sem um er að vera, því það getur verið vissara að fylgjast með þessum mannverum sem telja sig allt geta og vera öllum öðrum fremri!
En við snúum okkur að hefðbundnum leiðindum og finnum þessa frétt frá liðnum mánuði.
Það er von að það þurfi að fresta einhverju, þegar peningarnir streyma til allskyns gæluverkefna og þar á meðal erlendra!
,,Það kostar klof að ríða röftum", sagði karlinn og víst er það satt, að það tekur í blessaðan ríkiskassann þegar mokað er úr honum peningum í allt frá stríðsrekstri og til björgunar heimsbyggðarinnar ásamt ráðstefnuhöldum og herlegheitum.
Enginn veit hvernig ríkisstjórnin okkar verður á morgun og það reynir á minnið að rifja upp hvernig hún var í gær!
Við veiðum ekki hvali, því það fylgir því hvalræði að afla þjóðinni tekna!
Það er miklu einfaldara að eyða, spenna og sóa og við erum svo vel sett, að búa við ríkisstjórn sem kann þá meðferð verðmæta.
Ekki byggja upp, gera við og bæta, að minnsta kosti ekki það sem innlent er, það er markmiðið mikla og stefnan er sett á það að sjálfsögðu, því þangað stendur viljinn til að komast.
Hvernig ríkisstjórnin verður á morgun vitum við ekki með vissu, en kynlegri getur hún tæpast orðið.
Við okkur blasir fátt eitt, ef nokkuð og við vitum alls ekki hverju landsfeðurnir og mæðurnar taka upp á næst!
Og til þess að kóróna þetta allt saman, er sem veðurguðirnir séu komnir í fýlu, því það rignir og rignir og rignir, svo stuðst sé við gamalt grín þeirra Spaugstofumanna!
Eigið góðan dag og komið heil heim úr ferðum ykkar, hvort sem er innanlands eða utan.
Góðar stundir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli