Vinir og óvinir?

 Í Morgunblaðinu – 6/8/2024 – rekumst við á aðsenda grein eftir Ögmund Jónasson. Í henni drepur Ögmundur á margt sem er til umræðu manna á meðal en sem fer ef til vill ekki eins hátt og það ætti að gera.

Ekki vitum við hvort Ögmundur er enn félagi í Vinstri grænum og í raun er ekki gott að átta sig á því hvert eyðimerkurgöngu þess stjórnmálaflokks er stefnt.

Flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn um árabil og svo er komið að skoðanakannanir sýna mikið fylgistap og hverfandi traust til flokksins og það þótt að hann hafi farið með forsætisráðuneytið þar til nýlega.

Stundum er talað um að menn gangi í björg en að heilu stjórnmálaflokkarnir geri það hefur ekki spurst, síðan Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sátu saman í svokallaðri viðreisnarstjórn fyrir margt löngu síðan.

Á þeim árum snerist utanríkispólitíkin um takmarkalausa fylgisspekt við Bandaríkin og NATO félagsskapinn og svo er að sjá sem Vg hafi tekið við hlutverki Alþýðuflokksins sáluga.

Sjálfstæðisflokkurinn sér sólina rísa og setjast í vestri og ekki er vitað til að það hafi breyst og sumir sáu það sama gerast í austri á árum áður, eins og lesa má t.d. í bókinni Draumar og veruleiki eftir Kjartan Ólafsson.

Einn tekur við af öðrum og Vinstri græn eru tekin við af gamla flokknum sem horfinn er af sviðinu en líklega hafa hinir gömlu Alþýðuflokksmenn haft meira skynbragð á hvernig peningar verða til en háskólaelítan sem ræður ríkjum í Vg.

Ögmundur kemur víða við í grein sinni en hér verður stiklað á stóru, greinina má nálgast í blaðinu sem vísað var til hér í upphafi.

Tónninn er sleginn strax, þar sem segir: ,,Þegar Alþingi samþykkti fjár­stuðning vegna stríðsrekst­urs í Úkraínu til næstu ára þótti ekki ástæða til að senda þing­málið til um­sagn­ar út í þjóðfé­lagið. Sagt var að um þetta ríkti ein­hug­ur á þingi og með þjóðinni. Svo er þó ekki leyfi ég mér að full­yrða.“[…]

[…],,Í árs­lok munu Íslend­ing­ar hafa veitt 10 millj­arða til aðstoðar Úkraínu, meðal ann­ars til vopna­kaupa, og gert er ráð fyr­ir að lág­marki 4 millj­arða ár­legu fram­lagi vegna stríðsins þar næstu ár.“[…]

Úkraína er sem sagt orðinn fastur liður á fjárlögum íslenska ríkisins!

Ögmundur bendir síðan á að einhugur muni ríkja meðal þjóðarinnar um að styðja Grindvíkinga og heilbrigðiskerfið og tekur fram að þjóðin myndi almennt vilja styðja stríðshrjáð fólk en svo sé ,,ekki við þá vígvæðingu“ sem verið sé að styðja.

Hann minnir á, að vígvæðing grafi undan friði og að nú sé ,,krafan“ um kjarnorkuvopn. Rifjar síðan upp fundinn sem haldinn var í Höfða:

,,Friðarbar­átt­an á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar sner­ist um að fjar­lægja slík vopn og færa all­an vopna­búnað fjær en ekki nær landa­mær­um. Vitað var að skammdræg og meðaldræg kjarn­orku­vopn nærri landa­mær­um «óvina­ríkja» væru enn hættu­legri en lang­dræg­ar kjarn­orkuflaug­ar sem skjóta mætti niður með gagn­flauga­kerfi. Beit­ing skammdrægra flauga gæfi ekk­ert slíkt ráðrúm og kallaði því á fyr­ir­vara­laus viðbrögð. Því var fagnað mjög þegar Reag­an og Gor­bat­sjov und­ir­rituðu INF-samn­ing­inn árið 1987 í kjöl­far hins sögu­lega fund­ar í Höfða árið áður. Hann bannaði þess­ar flaug­ar. Banda­ríkja­menn sögðu sig hins veg­ar frá samn­ingn­um 2019 og nú tæp­um fjöru­tíu árum frá und­ir­rit­un hans eru nán­ast and­stöðulaust samþykkt­ar fyr­ir­ætlan­ir um slík­an vopna­búnað á svipuðum slóðum og friðar­sinn­um tókst á sín­um tíma að af­stýra.

Þannig fór sú saga og við erum að súpa seyðið af framgöngu Bandaríkjanna gagnvart því samkomulegi sem þau sögðu sig frá og reyndar er framganga þess ríkjasambands samelldur vitnisburður um, að þeim sé ekki treystandi fyrir friðarkyndlinum og er það miður svo fagurlega sem hann birtist í höfninni í New York.

Við höfum bundið trúss okkar við ríkjasamsteypu með samstarfi í NATO og satt að segja er það ekki hafið yfir gagnrýni að hafa gert það. Hafa verður samt í huga að kostirnir eru ekki margir fyrir litla þjóð og þeim sem báru þjóð sína upp í natófangið 1949 verður ekki ætlað annað en að þeir hafi vilja henni vel.

Tíminn hefur liðið og því miður hefur ýmislegt gerst sem bendir til, að það sé ekki lýðræðisástin ein sem knýr menn áfram, heldur að hagsmunagæsla af ýmsu tagi geti ráðið þar miklu.

Þannig er það og þannig hefur það verið, að menn eiga stundum erfitt með að halda aftur af sér þegar auður og völd eru annars vegar og þó Bandaríkin hefi ekki sýnt Íslandi yfirgang, þá verður því ekki neitað, að það hafa þau gert víða annarstaðar.

Rétt er að hvetja fólk til að lesa greinina sem hér er vitnað til. Í henni koma fram margar góðar áminningar, sem vert er að hafa í huga í fallvöltum heimi nútímans.

Sá sem þetta ritar, telur að gott geti verið að styðjast við sögulegar staðreyndir þegar taka þarf afstöðu til þess sem er ofarlega á baugi í nútímanum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hugarfarsbreytingin

  Fyrir nokkru féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem varð til þess að fyrirhuguð Hvammsvirkjun í Þjórsá komst í uppnám .   Það g...