Morgunblaðið sýnir okkur fuglamyndir, annarsvegar kríur að veiðum og hins vegar fíl sem liggur á hreiðri sínu.
Annars er það einna helst í fréttum þennan dag, að Rúv flytur frétt af því, að Harris nokkur, hafi lýst þungum áhyggjum af ástandinu á Gaza.
Engra heimilda er getið en við lauslega athugun virðist svo að sjá, sem um endursögn á frétt CNN geti verið að ræða.
Hvað sem því líður er ánægjulegt að sjá að kveðið geti við annan tón í Bandaríkjunum en þann, að þjarma þurfi sem mest að íbúunum á Gaza og þá væntanlega Vesturbakkanum líka.
Það var satt að segja frekar sláandi að sjá fögnuð og aðdáun bandarískra þingmanna þegar Netanyahu gekk í sal þeirra.
Hér verður ekki tekið undir fögnuð yfir framgöngu Hamaz, sem hefur mátt fylgjast með á undanförnum árum en ,,sárt bítur soltin…“ eins og þar stendur og sá sem er kúgaður og afkróaður og sífellt verður að víkja fyrir ofbeldi, grípur gjarnan til örþrifaráða.
Sagan af stofnun ríkis Ísraels verður ekki endurtekin hér en hún var gerð í framhaldi af miklum hörmungum sem áttu sér stað í seinni heimsstyrjöldinni sem svo er kölluð.
Þá höfðu verið stundaðar hörmulegar og óhugnanlegar ofsóknir á hendur gyðingum.
Flestir þekkja þá sögu og óþarft er að rifja hana upp frekar að sinni en hún má samt aldrei gleymast.
Það sem gerðist í helförinni átti sinn þátt í að stofnað var ríkið Ísrael, án þess að tekið væri með í reikninginn að á landsvæðinu sem hinu nýja ríki var ætlað, væri fólk sem þar hafði verið um aldir og nú var því ætlað að víkja brott af landi sínu og fara bara ,,eitthvað annað“.
Síðan þetta var hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina og ,,að víkja“ hefur orðið að viðvarandi lífsskilyrðum þjóðarinnar sem fyrir er.
Ísraelskir ,,landnemar“ taka sér sífellt meira land undir ríki sitt og þeir sem fyrir eru, verða að gefa eftir landið sem þeir og forfeður þeirra og formæður hafa setið um aldir.
Hvernig leysa á þessa deilu er ekki auðvelt að sjá en óskandi er, að fram komi einhverjir sem geta fundið varanlega og ásættanlega lausn á málinu.
Lausn sem stuðlað getur að friði milli þjóðanna sem landið byggja og sem innifelur í sér að ekki sé gengið á óásættanlegan hátt á rétt eins eða neins.
Það er reyndar þegar búið að gera, eins og fyrr sagði og því er ekki gott að sjá á þessari stundu hvernig sárin geta gróið, en við lifum í voninni um, að það sjáist fyrr en seinna ljósið fyrir enda ganganna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli