Eins og svo oft að morgni, er skautað yfir fjölmiðla til að kanna hvað þeir hafa að segja okkur og þá er rekist á mynd af ríkisstjórn íslenskrar þjóðar og við gerum ráð fyrir að myndin sé tekin fyrir Menningarhátíð Reykjavíkur.
Þau taka sig bara vel út og við vitum að þarna er margt ágætisfólk, jakkarnir eru lítið eitt farnir að þrengjast á þeim sem fremstir standa, innviðaráðherra speglast í ráðherranum sem er fyrir aftan hann, Bjarni horfir í austur, Sigurður í suðverstur og það gerir kjarnorkukafbátamálaráðherrann líka. Einn er greinilega hugsi og horfir á eitthvað fyrir neðan hann. Út úr svip fjögurra kvenna má ef til vill lesa að þær séu að hugsa sem svo: því er ég hér?!
Við förum ekki lengra með þetta en tökum eftir því að maður, sem stendur innan dyra, stefnir að því að loka hópinn úti!
Er ekki allt í lagi vinur minn, spyr hvutti litli.
Kisu langar að kúra og sú þriðja er með góða gesti í heimsókn, sem hún ætlar ekki að nota sér til matar, enda vel fóðruð.
Það skiptir máli hvernig að er búið og það vita þau sem kisu og ungana eiga og því gengur allt vel í þeim heimi.
Umboðsmaður barna hefur áhyggjur, ráðuneyti svaraði spurningum hans en veitti ekki ,,fullnægjandi upplýsingar". Umboðsmaður telur ekki gott ,,að ekkert samræmt námsmat hafi tekið við af samræmdum könnunarprófum sem síðast voru haldin árið 2021..."
,,Lífið er vesen..." segir stundum maður nokkur sem ritari þekkir og það er sem hér sannist það!
Við endum þennan pistil á jákvæðum fréttum sem bárust úr Rangárþingi um að menn hafi ,,jákvæð viðhorf í Rangárþingi ytra til vindorkuvers...".
Nóg er af vindi í landinu og svo er komið að eftirsókn eftir vindi er orðin umtalsverð og í nútímanum skapandi!
Öðruvísi áður brá, en allt breytist og svo er komið að þetta náttúruafl er virkjað aftur til góðra hluta, eftir margra ára hlé.
Svo er vinstrigræningjum fyrir að þakka!
Þeir eru í skotgröfunum þegar orkuöflun er annarsvegar, halda að vatnið breytist í raforku við að það sé látið renna í gegnum hverfla o.s.frv.
Batnandi mönnum er best að lifa og vonandi skaðast vindurinn ekki, við að snúa spöðum myllanna, svo getur svo sem verið að spöðunum þyki ekki gott að láta vindinn blása svona um sig, en við förum ekki út í þá umræðu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli