Nútíð og fortíð.
Forfeður okkar og mæður fóru fyrrum um landið með hjálp þeirra sem sjást hér á myndinni.
Tímarnir breyttust og þar kom, að í stað þarfasta þjónsins kom annar slíkur og það sést glitta í þann sem við tók á myndinni sé hún er skoðuð vel.
Tækniundrið sem seinna kom til sögunnar, þjónar nú m.a. því hlutverki að flytja hesta í kerrum vítt og breitt um landið og öruggt má telja að forfeður okkar og mæður hafi ekki séð það fyrir, að svo myndi verða.
Til að þjónninn sem við tók, kæmist vandræðalítið um landið, þurfti að leggja vegi og byggja brýr og þjóðin sem ekki réði yfir miklum tækjakosti réðst í það í fátækt sinni, að byggja brýr yfir vatnsföllin og það var m.a. gert við Selfoss.
Efninu í fyrri brúna var skipað upp á Eyrarbakka og hún síðan smíðuð og vígð þann 8. september 1891.
Við sjáum farartæki fyrri tíðar fara yfir brúna og má nærri geta hvílík samgöngubót hún hefur verið fyrir fólkið sem komast þurfti yfir Ölfusá.
Eins og kunnugt er, þá fór svo, að brúin hrundi árið 1944 þegar mjólkurbíll með annan slíkan í togi fóru út á brúna sem ekki þoldi þungann, með þeim afleiðingum að hún gaf sig og báðir bílarnir féllu í ána.
Mynd fengin úr Öldinni okkar 1931 til 1950, bls. 215.
Mennirnir tveir sem í bílunum voru, björguðust og verður það að teljast mikið lán.
Byggð var ný brú yfir ána sem enn stendur en svo er komið, að farið er að huga að byggingu nýrrar brúar.
Það gengur ekki vandræðalaust að koma þeirri framkvæmd af stað en við skulum vona að hún fari að losna úr þrætubókarrugli nútímans og að hún komist í gagnið áður en stórskaði verður.
Það er enginn skortur á úrtölumönnum varðandi þá framkvæmd eins og við vitum og á myndinni sjáum við einn af mörgum sem telja enga þörf fyrir nýja brú.
Hvort hann hefur kynnt sér álagið sem er á hinu átta áratuga gamla mannvirki, vitum við ekki en hafi hann gert það, þá er viðhorfið enn óskiljanlegra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli