Á Vísi er fari yfir umræðuþátt sem var á dagskrá Stöðvar 2 í gær (28/11/2024). Þátturinn var langur og þátttakendur í umræðunum komu víða við en einna mesta athygli vakti, hjá þeim sem þetta ritar, umræða um húsnæðismál.
Kristrún Frostadóttir vakti máls á húsnæðismálunum og svo var að heyra sem Bjarni væri ekki alveg með á nótunum en hann virtist hlusta.
Gera má ráð fyrir að einhverjir muni eftir kerfi sem kallað var ,,Verkamannabústaðakerfið”.
Kerfi þessu var komið á legg til að efnaminna fólk hefði möguleika á að komast í öruggt skjól og ritari þessa pistils, man eftir ágætu húsnæði í Reykjavík og víðar, sem komið var upp í þessum tilgangi.
Fólk er allskonar og það á misjafna möguleika á að koma sér fyrir í lífinu og því var gripið til ýmissa ráða til að grípa þau sem stóðu höllum fæti hvað húsnæði varðaði.
Íslendingar fundu ekki upp kerfi af þessu tagi en þeir sóttu sér fyrirmyndir til annarra landa og þær gáfust að mörgu leiti vel.
Fólk er allskonar, við megum ekki gleyma því og það sem einn getur gert, getur annar verið í vandræðum með og svo má ekki gleyma því, að störf eru misjafnlega launuð og þeir sem eru t.d. að berjast áfram með sjálfstæðan rekstur, getur gengið það misjafnlega eins og flestir vita.
,,Gleymdu ekki þínum minnsta bróður” stendur á góðum stað og við þurfum að muna eftir því.
Ekki gleyma, þó vel gangi og menn komist í vel launaðar stöður og verði svo dæmi sé tekið alþingismenn og/eða ráðherrar, að huga þarf að öllum í samfélaginu og þeim vitanlega mest sem verst standa.
Alþingismenn eiga að gæta hags lands og þjóðar og þjóðin erum við öll!
Það væri betur að haldið við þeim ,,kerfum” sem gefist hafa vel í stað þess að láta þau grotna niður.
Eitt er það fyrirbæri sem braskarar hafa komið sér upp og það er leiga á húsnæði í skammtímaleigu, – ,,Airbnb“ – t.d. til erlendra ferðamanna og það var nefnt til sögunnar í þættinum.
Og það fyrirbæri hafa efnamenn notað til að komast yfir ,,heilu blokkirnar”, ef rétt var tekið eftir, og leigja þær síðan út, sem gististaði m.a. fyrir ferðamenn.
Skammtímaleiga sem er ekki eins og það, svo dæmi sé tekið, þegar menn leigja herbergi í íbúð sinni t.d. kjallaraherbergið, sem fylgir gjarnan íbúðum í fjölbýlishúsum.
Í þrasi þáttarins var sem þetta vildi gleymast, eða var e.t.v. einhver önnur ástæða til, að áhuginn á að ræða málið takmarkaðist við málshefjandann?
Undirritaður tók eftir að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar kom inn á þetta mál en það var sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka hefðu lítinn áhuga á því.
Gamla verkamannabústaðakerfið þyrfti að skoða með það í huga að vekja það til lífsins að nýju og vitanlega þarf þá, að koma í veg fyrir að braskarar geti sölsað það undir sig með fyrrgreindum hætti.
Benda má á, að kerfi af þessu tagi eru t.d. á Norðurlöndunum a.m.k. sumum, ef ekki öllum og sjálfsagt eru þau víðar og hafa m.a. Íslendingar sem þar hafa verið búsettir getað nýtt sér þessa möguleika til húsnæðis.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli