Maskína gerði könnun fyrir Heimildina á því hvaða flokka fólk vildi sjá saman í ríkisstjórn og yfir niðurstöðuna er farið í grein, sem er undir yfirskriftinni ,,Flestir vilja Viðreisn og Samfylkingu í næstu ríkisstjórn”.
Ríkisstjórnin sem ekki veit hvaða árstími er og líklega ekki heldur í hvaða landi hún starfaði, gafst upp á sam-,,starfinu“ eins og kunnugt er og eftir sat minnihlutastjórn.
Svo virðist sem firringin hafi verið slík, að gleymst hafi að líta á almanakið til að kanna hvaða árstími væri og því er það, að tvísýnt er hvernig ganga muni að framkvæma kosningarnar.
Það er í sjálfu sér viðurkenningarvert að menn átti sig á því hvenær þeirra tími sé kominn og að ekki verði gengið lengra; samstarfið sem ekkert samstarf hafði verið í raun náði ekki lengra.
Vinstri grænir fóru úr stjórninni en eftir sátu og sitja enn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og það á að halda kosningar.
Við vitum það flest að það er kominn vetur en ríkisstjórnin ráðlausa hafði ekki tekið eftir því.
Í könnun Heimildarinnar kemur fram að flestir kjósenda vilja sjá Samfylkinguna og Viðreisn saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.
Hvort þeim verður að ósk sinni mun koma í ljós eftir kosningar, því enginn veit hvernig atkvæðin dreifast á flokkana fyrr en búið er að kjósa og telja, en þar getur hnífurinn staðið í vorri kú!
Takist fólki að komast á kjörstað og greiða atkvæði, er sagan ekki nema tæplega hálf, því eftir er að koma atkvæðunum dýrmætu, á talningarstað og eins og við vitum frá síðustu kosningum er ekki á vísan að róa með hvernig tekst til með talninguna, þó það takist að koma þeim þangað.
Þar getur allt mögulegt gerst sem ekki á að gerast og eins ekki gerst það sem á að gerast, því það veldur hver á heldur eins og þar segir.
Ríkisstjórnin ráðlausa, er vonandi ekki á leið til endur- vakningar og því er það að þjóðin kemur saman á kjörstaði, komist hún það fyrir veðri og ef við verðum svo lánsöm að veðrið verði ekki til vandræða, tekst vonandi að koma atkvæðunum á talningarstaði en verði veðrið eins og það getur verst verið að vetri, þá flækist málið.
Við sleppum því að telja vöff- in í síðustu málsgreininni og vonum það besta úr því sem komið er, en ljóst má vera, að ríkisstjórnin ráðlausa verður að víkja!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli