Senn verður kosið til Alþingis og spennan eykst, en áður en við köfum dýpra, þá skulum við virða fyrir okkur þessa fallegu mynd sem birtist óvænt á skjánum hjá ritara og höfum í huga, að þessi fugl kafar aðeins til hálfs og það sama gildir um þann sem þetta ritar!
Skoðanakannanir berast og stundum fleiri en ein á sama degi og í einstaka tilfelli eru þær ekki traustar þ.e.a.s. að grunur liggur á, að um geti verið að ræða örlitla hagræðingu í túlkun niðurstaðna til að henti betur þeim sem birtir niðurstöðuna.
Það er dálítið erfitt að festa hönd á þessum grun og finna eitthvað honum til staðfestingar en þegar fyrir liggur að þeir, sem eru að túlka viðkomandi könnun og niðurstöður hennar, eru starfandi fyrir miðil, sem er tengdur stjórnmálaflokki, þá er dálítið erfitt að treysta því sem fram kemur.
En það eru líka til miðlar sem tengdir eru notendum sínum með öðrum hætti, eru t.d. reknir af hinu opinbera og eru undir stjórn manna sem eru vandir að virðingu sinni og er ekki þar með sagt að hinir séu það ekki en það fer ekki hjá því að maður leiði hugann að tengslunum og hugsi sem svo:
Er andað ofan í hálsmál beint eða óbeint og getur verið að menn séu að túlka miðurstöðurnar eftir því sem best getur fallið þeim í geð sem að baki þeirra stendur?
Það er óþægilegt þegar svona er og maður veit ekki fyrir hvað, nöfn fyrirtækjanna standa.
Eitt þeirra heitir Prósent, sem er ágætt nafn á slíku fyrirtæki en hvað er á bakvið nafnið og annað heitir Maskína og hvað er þar á bakvið?
Spyr sá sem ekki veit.
Hvað er orðið um gamla Gallup, er það starfandi eða er það ef til vill hætt, eða hefur það farið fram hjá ritara, að það sé starfandi?
Síðan má náttúrulega spyrja sig hvort það hafi verið áreiðanlegra en þau nýju sem sprottið hafa upp og hvað er það eiginlega sem hvetur menn til að vera með svona starfsemi?
Er það hugsjón og hver er þá hugsjónin? Er hún sú að vilja vinna vandaða vinnu, eða er hún sú, að vilja vera fyrstur með fréttirnar og að vinna vel fyrir þá sem biðja um könnun á fylgi við stjórnmálaflokka, vöru eða hvaðeina, sem mönnum getur langað til að vita og koma því síðan á framfæri?
Spurningamerkin eru mörg en það er óneitanlega dálítið gaman að fylgjast með þessu og svo vitanlega niðurstöðum kosninganna.
Það á eftir að ganga til þeirra og telja og ekki má gleyma því, að kosningabaráttan er í fullum gangi og færist enn í aukana ef eitthvað er.
Þannig að enn getur margt gerst!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli