Þær funda þétt konurnar þrjár sem eru að vinna í því að koma saman ríkisstjórn. Komið er í ljós að staða ríkissjóðs er ekki sérlega traust, svo ef til vill er kominn tími á, að hinar ,,hagsýnu húsmæður“ taki við taumunum.
Myndin er klippt út úr mynd á mbl.is
Það er fjallað um stjórnarmyndunina á vef Ríkisútvarpsins og mbl.is þaðan höfum við þessar upplýsingar; þær hafa haldið þétt að sér spilunum og því vitum við ekki allt um það sem er að gerast.
Eftir Kristrúnu Frostadóttur er haft eftirfarandi á ruv.is:
„Ég held að það liggi í hlutarins eðli að við erum í þremur flokkum af ástæðu. En við erum allar mjög lausnamiðaðar og meðvitaðar um stóru myndina, að finna sameiginlega fleti og við erum að ná lendingu mjög víða og höfum getað talað okkur í gegnum allflest.“
Það hefur oft tekið talsverðan tíma að koma saman ríkisstjórnum og telja má að ekkert óeðlilegt sé að það taki nokkrar vikur.
Það má skynja það í þjóðfélaginu að vindurinn blæs með þessari tilraun til myndunar ríkisstjórnar og það eykur tiltrú að fólk skynji, að verið sé að vanda til verka.
Þau eru nógu mörg dæmin um að illa hafi verið staðið að ríkisstjórnarmyndunum og er sú sem nú er að fara frá gott dæmið um það.
Þar var soðin saman stjórn með einum flokki innanborðs sem ekki var stjórntækur og það má bæði virða það hinum flokkunum það til kosts og lasts að þeir skyldu hanga svo lengi saman í stjórnarsamstarfi með þeim flokki.
Sá fékk verðuga útreið í kosningunum og féll út af þingi og varð lítið um söknuð.
Við skulum vona að betur takist til núna og að stjórnin sem mynduð verður, verði betur samhangandi en fyrirbærið sem á undan var.
Á mbl.is er rætt við Kristrúnu og þar segir m.a. eftirfarandi:
,,„Ríkisstjórnin fyrrverandi er að skilja eftir sig verra bú, meðal annars vegna þess að efnahagsumsvif eru minni en áður var við búist. Tekjur til ríkisins eru minni og þetta er auðvitað mjög erfitt mál því þarna þarf að forgangsraða. Þarna þarf að ræða bæði tekjuhlið og útgjaldahlið,“ segir Kristrún.
Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.“
Kristrún segir að þetta séu afleiðingar af ákveðnu stjórnarfari og bætir eftirfarandi við í samtalinu við blaðamann:
,,„Þetta hefur auðvitað áhrif á það hvernig við hugsum ákveðnar aðgerðir en þetta er bara staðan eins og hún er og við þurfum bara að vinna með hana. Ég segi að það sé bara gott að það stefni mögulega í að nýtt fólk taki við vegna þess að þetta bú er afleiðing af ákveðnu stjórnarfari sem hér hefur verið til staðar,“
Viðtalinu lýkur með eftirfarandi tilvitnun í orð hennar:
,,„Við erum að minnsta kosti að skanna hagkerfið, ef svo má segja, varðandi þenslu og passa upp á það að við sjáum áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. Ef við förum af stað í útgjöld sem tefla því ferli í tvísýnu þá fáum við það aftur í fangið, við erum fullmeðvitaðar um það. Það eru hins vegar ákveðnar breytingar sem er hægt að gera strax. Sumar kosta ekki neitt, aðrar kosta minna. Sumar er hægt að sækja tekjur fyrir strax, eða hagræða fyrir strax,“ segir Kristrún.“
Viðskilnaðurinn er sem sagt ekki sérlega góður og kemur það ekki á óvart, þegar milljörðum hefur verið slett í ýmsar áttir án mikillar yfirvegunar um árbil og það án þess að byggt hafi verið undir og innviðir styrktir, s.s. sést á raforkukerfinu o.fl. og fl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli