Samningar eða hörmungar - það er valið

 Russya Today birtir frétt um stöðu mála í átökunum milli Rússlands og Úkraínu og verður ekki annað séð en að margt sem þar kemur fram, sé í svipuðum dúr og lesa má í vestrænum miðlum.

Orð eru til alls fyrst, en vilji menn ekki ræða málin, þá er ekki von á góðu.

Við sjáum á Rúvinu okkar, að árásir hafa verið gerðar af Rússum og að ,,Margir leiðtogar Evrópu og helstu bandamenn Úkraínu fordæmdu árás Rússa á borgina Sumy í gærmorgun. 34 voru drepin í árásinni og um 120 særðust. 2 börn eru meðal hinna látnu.“

Og þar kemur fram að ,,Hann [þ.e. Zelensky] óttaðist að rússnesk sjónarmið væru að ná fótfestu í Bandaríkjunum. Trump yrði að vera með Úkraínumönnum í liði, því hann væri sterkur forseti yfir sterku ríki. „Mér þykir það rangt að Bandaríkin vilji vera hlutlaus.““

Við hin segjum sem svo, að ef úkraínsk sjónarmið eru að ná fótfestu í Bandaríkjunum, þá eru fulltrúar þaðan ekki æskilegir málamiðlarar.

Og þar með er málið komið í hina úkraínsku(?) sjálfheldu.

Ekki hefur ritari á reiðum höndum tölur yfir hve marga, t.d. Úkraínar drápu og særðu í ,,innrásinni í Kúrsk“ og hefur satt að segja ekki áhuga á að grafa það upp.

Sannleikurinn er eitt það fyrsta sem ,,fellur“ í stríði og ásakanirnar ganga á víxl og varasamt er að treysta því sem haldið er fram af þeim sem takast á.

Það er bæði gömul saga og ný og ,,upplýsingar“ eru í boði vilji maður eitthvað hafa með þær að gera.

Verið getur að Úkraínar hafi slampast á að gefa upp réttar tölur en full ástæða er til að efast.

Það sem við vitum er, að verið er að drepa og meiða fólk – hermenn eru líka menn, munum það – og þeir eru særðir og drepnir af miklu kappi af beggja hálfu og út á það ganga átökin að stórum hluta.

Samkvæmt því sem segir, í miðlinum sem hér var vitnað til í upphafi, hefur Zelensky lítinn áhuga á að semja við andstæðinginn og segir að honum sé ekki treystandi o.s.frv.

Gera má ráð fyrir að viðhorfið sé svipað hinu megin en ekki hefur samt komið annað fram en að menn vilji a.m.k. reyna.

Það er nöturlegt til þess að vita að við séum ekki komin lengra eftir þúsundir ára og að við höfum ekkert lært og það sem verra er, að það er sem enginn vilji sé til að læra af reynslunni.

Því má svo við bæta að fréttir hafa borist af því að sendiherra Bandaríkjanna hafi verið kallaður heim frá Úkraínu vegna sjálfstæðra skoðana, bæði gagnvart þeim sem með völdin fara í Úkraínu og líka vegna þeirra sem stjórna í Bandaríkjunum.

Af því má draga þá ályktun að ekki sé hægt að notast við fólk með sjálfstæða hugsun í utanríkisþjónustunni í fyrrnefndum ríkjum og ef til vill víðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Trúmál og stríð!

  Lavrov ræddi um trúmál á dögunum samkvæmt því sem sagt er í Russya Today og eins og við vitum, þá er hægt að deila um trúmál eins og fles...