Fundurinn sem fyrirhugað var að halda, verður ekki haldinn vegna þess að Trump hefur ekki tíma til að dandalast þvers og kruss um hnöttinn til að ræða frið milli manna og þjóða, ef lítill sem enginn vilji er fyrir friði.

Það vefst ekki fyrir teiknara Morgunblaðsins að fanga stöðuna eins og hann sér hana og það verður að segjas, að honum tekst langoftast vel upp!
Það er Trump sem segir að tilgangalítið sé að boða til fundar og vel getur verið að hann hafi talsvert fyrir sér, því ef hlustað er á Zelensky er sem vilji til friðarviðræðna sé frekar takmarkaður.
Gera má ráð fyrir að íbúar Úkraínu séu löngu búnir að fá nóg og gera má ráð fyrir að það sama sé í Rússlandi en fáum sögum fer af því hvað almenningur vill, í löndunum sem stríða.
En við vitum þó, að mikill fjöldi Úkraína hefur flúið land og ætti engan að undra eins og ástandið er búið að vera á heimaslóðum þess ágæta fólks.
Styrjaldir taka sinn toll, bæði efnahagslega en líka í sálarlífi þeirra sem við óhugnaðinn búa og það er nöturlegt að hugsa til þess hve lítið hefur breyst, þrátt fyrir tvær heimsstyrjaldir og ótal önnur stríð.
Það er sem mannskepnan geti ekkert lært í þessu efni og þ.a.l. engu breytt, í samskiptum þjóða á milli og alltof oft er eina lausnin sem menn finna til að leysa úr ágreiningi, að herja á andstæðinginn og þá eru manndrápin allt í einu lögleg.
Komið hefur fram að kröfur Rússa eru, að svokallað Donbas svæði verði undir þeirra stjórn og ef rétt er, að kröfurnar séu ekki aðrar og meiri, þá sé búið að fórna miklu fyrir lítið.
Svæðið sem um er að ræða er nánast það sama og áður var undir ,,vernd" Rússlands, vernd sem illa tókst að framfylgja vegna hryðjuverka sem framin voru af Úkraínum úr vestri og vafasömum kafalerum sem inn í þau blönduðust og þ.á.m. einn forsetasonur.
Ekki eru allar ferðir til fjár, eins og þar stendur og breytingin yrði ekki önnur en að svæðið yrði undir beinni vernd Rússlands, enda íbúarnir búnir að greiða atkvæði um það eins og margir muna eflaust.
Veraldlegt tjón er hægt að bæta en glötuð mannslíf koma ekki til baka, en ef friður kemst á, væri vissulega stigið skref í rétta átt og geta þá áhugamenn um stríðsrekstur og manndráp snúið sér að einhverju öðru í bili eða a.m.k. þangað til að hernaðarandinn hleypur í þá að nýju.








