Samkvæmt því sem sagt er frá í Vísi hafa Sjálfstæðismenn komist að því að ekki sé nein ástæða til að endurskoða stefnu(?) Sjálfstæðisflokksins.
,,Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að halla sér frekar til hægri eða vinstri til að bregðast við auknu fylgistapi að sögn formanns flokksins sem kynnti nýja ásýnd á sérstökum fundi í dag. Engar breytingar voru boðaðar á stefnu flokksins sem lítur til fortíðar."
Þegar menn hafa komist að því að engu þarf að breyta, þá er allt gott eins og það er..., eða hvað?
Það getur verið gott að líta til fortíðar, en eftir þá útreið sem fyrrverandi stjórnarflokkar fengu í síðustu kosningum, hefði maður getað haldið, að flokkarnir myndu líta inn á við og hugleiða hver ástæðan fyrir fylgistapinu væri.
Það á ekki að gera það, heldur hjakka áfram í sama farinu, án stefnu og með hugmyndafátækt að leiðarljósi.
Flokkurinn tapaði miklu fylgi og það gerðu fyrrverandi stjórnarflokkarnir allir.
Vinstri grænir þurrkuðust (blessunarlega?) út af þingi, Framsóknarflokkurinn næstum því líka og Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð og eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir, var helsta baráttumálið að ríghalda í herbergi sem flokkurinn hafði notað til skrafs og ráðagerða í Alþingishúsinu.
En það þarf engu að breyta, segir nýr formaður flokksins og því er spurt: Er þetta það sem flokksmenn vilja?
Voru þeir orðnir leiðir á að vera í pólitík og er ætlunin að fara að gera ,,eitthvað annað"?
Við finnum ekki svör við þessu en eftir þá útreið sem flokkurinn fékk, ásamt fylgitunglunum, hefði maður getað haldið að líta þyrfti inn á við; byggja upp í stað þess að sætta sig við, að svona sé það og svona eigi það að vera.
,,Fullt var út að dyrum þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður flokksins, kynnti Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann flokksins, upp á svið sem gagnrýndi bæði ríkisstjórnina og meirihluta borgarstjórnar og boðaði stórsókn í komandi borgarstjórnarkosningum.", segir í frásögn Vísis.
Sagan segir okkur að flokkar hafa komið og farið vegna þess að þeir hafa misst erindið, tapað sambandinu við þjóðina og trosnað upp.
Hvort það verður saga Sjálfstæðisflokksins mun tíminn leiða í ljós, en niðurstaða kosninganna var, að enginn er ómissandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli