Framtíð eða fortíð ... það er efinn

 

Framtíð þjóðar og/eða fortíð

Þjóð sem stækkar ört þarf að hafa í huga að nýta þær auðlindir sem hún býr yfir en þau eru til, sem vilja það ekki af hugsjónaástæðum.

Við voru svo heppin að efnt var til kosninga – sem vitanlega hefði átt að gera mun fyrr – og niðurstaðan varð, að flokkur sem flæktur var í óraunhæfu hugsjónabrölti féll út af þingi.

Því miður gerðist ekki það sama með flokk sem heitir því öfugnefni ,,Framsóknarflokkur“, en allt gæti það staðið til bóta á góðum kosningadegi.

Á Alþingi er einnig annað flokksapparat sem kallar sig Miðflokk, svo furðulegt sem það er, því flokkurinn sem hann er klofinn út úr, kallar sig ,,framsóknar“ nafninu og hefur einnig haldið því fram, að hann sé í miðju stjórnmálanna.

Báðir þessir flokkar eru augljósir afturhaldsflokkar, sem eru á móti flestu sem til framfara horfir og því er það, að reikna mátti með því að þeir séu á móti olíuvinnslu við land okkar, þó ekki væri nema vegna þess að um nýjung yrði að ræða, ef af yrði sem alls ekki er víst.

Svo ólíklegt sem það er, að í grennd við Ísland finnist vinnanleg olía, þá eru þeir á ,,á móti“, sama hvað!

Olía jarmar ekki, fer ekki á beit og þaðan af síður upp á fjöll, nema hún sé flutt þangað og því er vinna við vinnslu hennar ekki af hinu góða, heldur þveröfugt í hugum framsóknarflokkanna tveggja.

Fé er sauðfé í þeirra hugum og það er jafnvel svooo gott að það getur verið eftirsóknarvert að éta það hrátt!

Við hin sem sjóðum, steikjum og snæðum síðan, bíðum og sjáum hvað setur og ef einhvern langar til að kanna hvort olía finnist í vinnanlegu magni í grennd við landið, látum við áhyggjurnar bíða, þangað til að ástæða er til að taka þær þaðan sem þær eru geymdar.

Fyrir fram áhyggjurnar féllu út af þingi með flokknum Vinstri grænum, sem stofnaður var til ræktunar þeirra, en smitið virðist hafa setið eftir.

,,Ætli ekki sé hægt að fá pillur við þessu“, spurði stundum maður sem ritar þekkti og sem horfinn er yfir á annað tilverusvið.

Hver veit og finnist slíkar pillur gætu viðkomandi skellt í sig eins og einni og farið að sjá til sólar.

Er ekki kominn tími til að hætta?

 Russya Today segir frá því að viðræðurnar muni fara fram næstkomandi miðvikudag og vísar í tilkynningu frá forseta Úkraínu (Zelensky).

Með fylgir mynd af Zelensky sem hér sést.

Friðarviðræðurnar sem haldnar voru síðast gengu ekki vel, þar sem deilt var aðallega um keisarans skegg og m.a. það hvort Putin myndi mæta til fundarins og að lokum hvers vegna hann hefði ekki komið!

Putin lýsti því yfir að hann kæmi ekki að sinni því ólíkt væri komið með þeim Zelensky og honum, þar sem Putin væri kjörinn forseti en Zelensky ekki.

Vonandi snúast væntanlegar friðarviðræður, sem halda á eftir nokkra daga, um eitthvað meira og uppbyggilegra en hver hittir hvern og hvenær.

Kröfur Rússa sem tíundaðar eru í frásögn RT eru fljótt á litið frekar eðlilegar en hvernig ganga mun að kveða niður nýnasismann sem þar er tilgreindur, er óljóst nema ef vera kynni að hægt yrði að finna honum nýtt nafn!

Annars er það einna nýjast í fréttum af þessu uppáhaldslandi íslenskra utanríkisráðherra að mótmælt hefur verið af krafti í Úkraínu og það svo að Zelensky hefur þurft að láta sem hann hafi endurskoðað hug sinn varðandi spillingarmál.

Klippurnar eru úr frétt Morgunblaðsins

Hvernig það mun ganga er ekki gott að segja en við vitum að leikarar geta brugðið sér í ýmis hlutverk og leikið einn í dag og annan á morgun.

Í þýska miðlinum DW er umfjöllun um málefni Úkraínu út frá öðru sjónarhorni en þar er verið að segja m.a. frá því hvernig smalað er í herinn, en svo virðist sem farið sé að sneiðast um í röðum þeirra sem eru á lausu og svo er komið að jafnvel flogaveikir svo dæmi sé tekið, eru kallaðir inn til herþjónustu.

En setið er við samningaborð í Tyrklandi og vonandi er svo komið að menn fari að sjá til sólar og nái því að semja um lok þessa hörmulega stríðs sem ekkert skilur eftir sig nema hörmungar líkt og önnur.

Hvenær mannskepnan með sinn stóra heila nær því að ræða sig til lausnar á deilumálum í stað þess að berjast um það sem um greinir, með tilheyrandi manndrápum og eyðileggingu, vitum við því miður ekki.

Íslenskt máltæki segir að ,,sjaldan valdi einn þegar tveir deila“ og er það mála sannast, en að þau gömlu sannindi verði höfð að leiðarljósi einhverntíma í framtíðinni er óvíst.

Flokkurinn og tíminn sem stóð í stað

 Það munu vera a.m.k. tvær hliðar á Framsókn og því er spurning hvort verandi er í flokknum fyrir þau sem ekki eru tvöföld í roðinu. Flokki sem þekktur er fyrir að fylgjast frekar lítið með tímanum. Og er þá ekki átt við dagblaðið sem flokkurinn hélt úti áður fyrr.

Við sjáum að konan sem vildi verða forseti er að hugsa sinn gang en formaður Framsóknarflokksins er í framsóknarfýlu, samkvæmt því sem lesa má út úr teikningu Ívars, sem teiknar fyrir Morgunblaðið.

Flokkurinn tók þátt í málþófi sem haldið var úti af stjórnarandstöðunni á Alþingi.

Flokkunum sem þátt tóku til vandræða og flestum öðrum til leiðinda.

Þófinu lauk með beitingu ,,kjarnorkuákvæðis" fundarskapa þingsins og vegna þess að það var gert, eru sumir komnir fýlu og verða þar væntanlega um langan tíma, hafi þeir ekki verið það fyrir.

Hríðin er gengin yfir og raddböndin eru í hvíld, en ólundin fer ekki strax!

Flokkurinn sem í nafni sínu segist sækja fram stendur ekki undir nafni, því hann stendur í stað og/eða leitar til fortíðar.

Þjóðin hefur fylgst með ,,þófinu" sem var en er gengið yfir eftir að tekið var í taumana og þannig er það, að ef klárinn tekur upp á því að hlaupa stjórnlaust, þá þarf knapinn að taka í taumana með viðeigandi gætni og þá róast hann með tímanum.

Það er að segja, ef hann þá hendir knapanum ekki af baki.

Blæs mæðinni, vindurinn fer úr og með tímanum verða hann og knapinn vinir.

Hvernig fer fyrir Framsókn vitum við ekki en líklegast er að hún jafni sig, ... með tímanum.

Horft til framtíðar

 Í Morgunblaði dagsins rekst ritari á frásögn af því að fyrrverandi forsetaframbjóðandi hafi tjáð sig á samfélagsmiðli og að verið geti, að hann sé á leið út úr Framsóknarflokknum.

Myndin er úr frétt Morgunblaðsins

Í forsetakosningunum var Halla Hrund Logadóttir í framboði og kom fram á framboðsfundum og sá sem þetta ritar var á einum slíkum.

Þar talaði hún af yfirvegun til fundargesta, kom vel fyrir og mörgum þótti hún álitlegur kostur til embættisins.

Hún starfaði starfaði áður á sviði orkumála og eins og við vitum þarf til þess rökhugsun og því var það, að við vorum mörg sem vorum tilbúin til að styðja hana til forsetaembættisins.

Þannig fór að önnur kona var kosin til embættisins og er fátt við því að segja, því þannig er lýðræðið að sá nær kjöri sem mest fylgi fær.

Á fundinum hafði ritari ekki gert sér grein fyrir að um framsóknarkonu væri að ræða og því fór svo, að honum leyst einna best á nota rétt sinn með því að kjósa Höllu.

Þarna skaust mér heldur betur hugsaði hann síðar, þegar í ljós kom að Halla var ekki hætt í framboði og bauð sig fram til alþingis á vegum Framsóknarflokksins!

Öllum getur víst yfirsést og nú er komið í ljós að Halla finnur sig ekki í stjórnarandstöðunni og skyldi engan undra, sé haft í huga hve illa hún hefur farið út af sporinu að undanförnu.

Öll eigum við leiðréttingu orða okkar og styrkur felst í því að skipta um skoðun ef komist er að þeirri niðurstöðu, að maður hafi haft rangt fyrir sér og þrátt fyrir að í Framsóknarflokknum sé margt ágætisfólk, þá má efast um að framtíð íslenskrar þjóðar sé þar.

Þar með er ekki sagt að fortíðin ein ráði í þeim flokki en að gott pláss sé þar fyrir framtíðina er frekar hæpið, svo vægt sé orðað.

Því er það eðlilegt að sá sem leitað hefur sér fjöru í þeim flokki, snúi sér annað og gott til þess að hugsa að rökhugsandi fólk finni sér annan stað til að vera á.

Við breytum því yfirskrift fréttarinnar og höfum hana svona:
Stigið í væng við framtíðina!

Flutningar á sjó og landi

 

Í Bændablaðinu rekst ritari á grein um flutninga, annarsvegar á landi og hins vegar á sjó.

Myndin hér að ofan fylgir greininni og sýnir flutningaskip fá Eimskip.

Það hefur lengi verið áhugamál ritara að siglingum umhverfis landið verði haldið áfram og að þar með yrði haldið áfram að flytja vörur til og frá landsbyggðinni með skipum eins og gert var og er enn.

Man hann þá tíð af eigin reynslu, að strandsiglingar voru stundaðar af tveimur skipafélögum. Skipafélögum sem hann starfaði hjá báðum, á sínum tíma.

Flutningunum var hagað þannig, að siglt var með vörur frá Reykjavík vestur um og allt til Þórshafnar, með viðkomum í hafnir eftir því sem þörf krafði.

Á leiðinni til Reykjavíkur eftir að snúið hafði verið við eftir t.d. viðkomu í Þórshöfn voru síðan teknar vörur í höfnum á heimleiðinni, sem koma þurfti til Reykjavíkur í veg fyrir millilandaskipin.

Gámar voru notaðir bæði fyrir t.d. frosnar fiskafurðir og kældar en einnig fyrir aðrar vörur, sem ekki þörfnuðust kælingar og/eða frystingar.

Félögin sem um ræðir voru annarsvegar Eimskip og hins vegar Samskip og bæði voru þau með skip í siglinum annarsvegar vestur og norður um og hins vegar suður og austur um, frá og til Reykjavíkur.

Vörur voru fluttar til landsbyggðarinnar og framleiðslan sem oftast var frysti eða kælivara var flutt frá landsbyggðinni til Reykjavíkur í veg fyrir skipin sem voru í millilandasiglingunum, skipin sem skiluðu þeim síðan til erlendra hafna.

Það segir sig sjálft að þessar siglingar léttu miklu álagi af vegakerfi landsins og því er ekki gott til þess að vita, að til standi að draga úr strandsiglingunum.

Getur verið að ástæðan sé, að framleiðendur á landsbyggðinni kjósi heldur landflutninga?

Gera má ráð fyrir að flestum sé ljóst að sjórinn sem víkur undan skipinu er fljótur að falla aftur í sama far!

Það gera vegirnir hins vegar ekki og þeim þarf að halda við, með ærnum kostnaði í stóru landi og strjálbýlu.

Þegar þungur og lestaður flutningabíll fer um vegi lætur slitlagið sem oftast er ,,klæðning" undan með tímanum og að lokum fer svo, að vegurinn og vegstæðið gefur sig sé það ekki því betra.

Af þessu dregur ritari þá ályktun að það sé nauðsynlegt að strandsiglingarnar haldi áfram og að það sé öllum til hagsbóta.

Það breytir ekki því, að vinna þarf stöðugt að því að endurbæta á vegakerfi landsins.

Meirihluti og minnihluti

 

MEIRIHLUTI / minnihluti

Minnihlutinn sem reyndi að taka sér meirihlutavald með málæði situr eftir sár og svekktur og skrifar aðsendar greinar í Morgunblaðið – ,,blað allra landsmanna“?

Og Gunnar teiknar ,,grátkórinn“ á mynd sem birtist í Heimildinni, þar sem hann heldur á textabókinni, sem gera má ráð fyrir að ekki þurfi að horfa á, eftir að sami söngurinn hefur verið sunginn vikum saman.

Tvær fyrirsagnir úr Morgunblaðinu sem hér eru tengdar saman segja sína sögu, því það gæti munað um Sjálfstæðisflokkinn – … en það er farið úr honum loftið!

Það er dapurlegt að sjá og fylgjast með hvernig burðugur stjórnmálaflokkur sem gæti ,,munað um“ hefur hagað störfum sínum á Alþingi að undanförnu.

Talað og talað og talað og notið til þess stuðnings minni spámannanna úr Framsóknar(?) og Miðflokknum, flokknum sem enginn veit fyrir hvað stendur og síst af öllu þeir sjálfir.

Vera kann að Framsóknarflokkurinn hafi einhvertíma sótt fram, fyrir suma en hann hefur ekki gert það að undanförnu, enda margar fjaðrir foknar og tilverugrundvöllur flokksins lítill sem enginn í nútímaþjóðfélagi.

Kjöthakksnagarar og uppákomumeistarar Miðflokksins hafa notið sín undanfarna daga í ræðuhöldum á Alþingi og sannað það, að þeir eru bestir í því að tala um eitthvað fyrir einhverja en án markmiðs eða röksemda, en séu þær síðastnefndu hafðar með, þá halda þær ekki vatni.

Flokkurinn er andvanafætt viðrini sem klofnaði út úr Framsóknarflokknum, sem er hugsanlega stjórnmálaflokkur en að hann sæki fram er vafi, en er sem sagt stjórnmálaflokkur að hluta og á góðum degi.

Slíkur dagur hefur ekki komið lengi og við eigum ekki von á að það verði í bráð, enda nafnið ekki lýsandi fyrir annað en að um ,,flokk“ sé að ræða, því fyrrihluti nafnsins er öfugmæli.

Nú eru flokkarnir þrír búnir að blása út í bili, ,,blaðran er sprungin og úr henni allt“ og ekki gott að sjá hvað tekur við í þeim kotum.

Gæti samt verið að Sjálfstæðisflokkurinn næði að jafna sig, ná að tengja og finna fasta landið og að sætta sig við stöðuna eins og hún er og ef menn eru ekki sáttir við hana má þó alltaf reyna aftur, stilla falska strengi og spila síðan lagið upp á nýtt.

Ef til vill, fá þeir þá herbergið sitt og finna kjölfestuna í myndum sem hanga á veggjum þess kæra rýmis en ef ekki, þá verður bara að taka niðurstöðunni og vinna úr henni eins og hún er, en ekki eins og þeim finnst að hún ætti að vera.

Lífið er erfitt eftir kosningatap

 ,,„Það var gerð sú krafa undir lokin á samningum af hálfu minnihlutans að það væri ekki hægt að afgreiða nein önnur mál fyrir þinglok fyrr en það yrði samið um veiðigjaldið á forsendum sem við gátum ekki gengið að,“ segir Kristrún.“

Textinn hér fyrir ofan er tekinn úr umfjöllun Ríkisútvarpsins og myndin er þaðan líka.

Það þarf ekki að orðlengja það, að ástandið í þinghúsinu við Austurvöll hefur verið meira en sérstakt að undanförnu og þjóðin hefur getað fylgst með og undrast.

Ekki virðist fara milli mála að núverandi stjórnarandstaða er í erfiðleikum og erfiðleikarnir felast í því að þurfa að sætta sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga.

Og til þess að ,,sanna“ sig völdu þau ,,veiðigjaldafrumvarp“ ríkisstjórnarinnar; frumvarp sem gengur út á að handhafar nýtingarréttar á auðlindinni, sem þjóðin lifir að stórum hluta á, verði nýtt í auknum mæli í þágu þjóðarinnar allrar.

Við erum rík þjóð og búum að auðlindum sem við getum nýtt þjóðinni til heilla og framfara en ágreiningur er um hvernig með arðinn af, í þessu tilfelli fiskveiðiauðlindinni, sé ráðstafað.

Sjálfstæðisflokknum finnst að best sé að veiðiréttarhafar ráðstafi arðinum eftir sínu höfði í trausti þess, að það skili sér best þannig til þjóðarinnar allrar og Framsóknarflokkurinn er á svipuðum slóðum.

Og Framsóknar-íhaldsflokkurinn sem kallar sig Miðflokk dinglar með, líklega vegna þess að þeir eru í stjórnarandstöðu og geta ekki verið annað; eiga sáralitla von um að komast í stjórnarmeirihluta, trúlega vegna þess að enginn virðist vita fyrir hvað þeir standa og síst af öllu þau sem í flokknum eru.

Þau eru einna best í því að standa fyrir allskonar uppákomum, sem birtast okkur í hráhakksáti og öðrum skrípalátum sem ekki verður reynt að telja upp, enda varla þess virði.

Þjóðin á þetta ekki skilið eftir að hafa gengið til vetrarkosninga, sem skiluðu þeim árangri að út af þingi hreinsaðist hinn alhreini vinstrigræningjaflokkur sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði borið á höndum sér árum saman og kannski var Framsóknarflokkurinn þar einhverstaðar en fáir tóku eftir né muna eftir honum.

Nú er hann að minna á sig með dæmalausu forneskjuþusi á þingi, tuði sem fáir nenna að hlusta á og þaðan af að taka sér til leiðsagnar.

Hvað sem öllu þessu líður er ríkisstjórnin sem nú situr búin að sanna sig hvað það varðar, að hún hefur bæði sýnt þolinmæði og þolgæði gagnvart málæðingum alþingis og síðan að höggva á hnútinn þegar komið var nóg af bulli ergelsi og firru.

Við treystum því að fárið sé gengið yfir í bili og að við taki aðrir tímar; að stjórnarandstaðan sem er vönust því að sitja í ráðherrastólum og stjórna málum þannig að allt fari vel fyrir vildarvini og stuðningsfólk nái áttum.

Sætti sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, sem þau sjálf efndu til að haldnar yrðu.

Því má síðan við þetta bæta, að umræður um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu þar sem annar aðilinn (stjórnarandstaðan) talar út í eitt, aftur og aftur, segjandi hið sama dag eftir dag og viku eftir viku, er ekki umræða og nær væri að kalla hana innihaldslítið þus, því þau eru löngu búin að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Að lokum er rétt að benda á pistil eftir Indriða Þorláksson sem birtist í Heimildinni um málið. Indriði fer yfir það og vitnar í aðrar greinar fyrir áhugasama til að kynna sér ef þeir vilja.

Þau sem töpuðu kosningunum til Alþingis hafa ekki haft vilja eða getu til að una niðurstöðunni og átta sig á að svo uppsker sá sem sáir.

Og nú hefur bæst við ys og þys og mas og þras af þeirri gráðu, að efast má um að fólkið sem í því tók þátt, eigi nokkurt erindi í Alþingishúsið, nema kannski á áheyrendapallana.

Framtíð eða fortíð ... það er efinn

  Framtíð þjóðar og/eða fortíð Júl 29, 2025 Óflokkað Þjóð sem stækkar ört þarf að hafa í huga að nýta þær auðlindir sem hún býr yfir en þau ...