Hnípin þjóð sem er í vanda?

 

Það er hluti af mannlífinu að huga að leiðum til að komast um. Það er ekkert nýtt að svo sé gert en það sem er nýtt í þessu, er að komnar eru fram hugmyndir um að breyta lélegum malarslóða í almennilegan þjóðveg. Verði það úr munu samgöngur milli norður- og suðurhluta landsins gerbreytast til batnaðar, auk þess sem álagi mun létta á því vegakerfi sem nú er notast við til að komast landleiðina milli þessara landshluta.

Í framtíðinni má sjá fyrir sér, að vegir verði líka lagðir eftir hálendinu milli austur og vesturlands sem myndi létta verulega á hringveginum. Eins og flestir vita er mikið álag á honum, allt frá Reykjavík og austur og norður um, svo það gæti orðið mikil samgöngubót að fá góða hálendisvegi milli landshlutanna og ætti þess vegna að skoða þessa möguleika með jákvæðu hugarfari.

Evrópskir bændur búa við mikið skrifræði, sem varla telst til tíðinda.

Skrifræði hefur almennt aukist mikið og svo er komið, að blekpésar stjórna nánast öllu í samfélögunum á bakvið tjöldin. Því miður er það ekki svo að pésar þessir séu almennt vitrari en gengur og gerist og sumum finnst jafnvel að það sé síður en svo. Víst er, að oft skortir þekkingu og yfirsýn hjá þessum ágætu pésum, sem lært hafa á náttúruna, að mestu við skólaborð.

Því er það svo, að það skerst stundum í odda á milli fólksins sem er úti á örkinni og er að vinna hin raunverulegu störf og pésanna fyrrnefndu.

Við höfum séð nokkur dæmi um þetta í samfélaginu okkar, t.d. varðandi virkjanaáform, sem flest stranda og jafnvel verða að engu vegna afstöðu blekpésa sem vissulega telja sig ,,græna“ og reynast vera það þegar upp er staðið, en í öðrum skilningi þess orðs. Samkvæmt skoðanakönnun er flokkurinn sem telur sig vera til vinstri og jafnframt grænan á leið út af sviðinu. Málin gætu því staðið til bóta, en hafa verður í huga í því sambandi, að smitið hefur stungið sér niður víðar!

Hér að ofan sést ágætt dæmi um hvað við er að eiga.

Menn á Vestfjörðum hafa hug á að virkja lítil vatnsföll með rennslisvirkjun, til að treysta orkuinnviði. Sé farið yfir textann, sést að umhverfisfræðingar hafa komist að því, að virkjunin sé háð umhverfismati því áhrifin á umhverfið séu umtalsverð o.s.frv.

Nánast allt, sem hægt er að láta sér detta í hug að gæti gerst vegna virkjunarinnar er síðan tínt til í þeim tilgangi greinilega, að sýna fram á, að sem flest sé neikvætt við fyrirhugaða virkjun.

Líklegast er að framkvæmdin verði ekki að veruleika, því þess er vandlega gætt, að geta þess í engu, að stundum þurfi að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Helst gæti manni dottið í hug, að best sé fyrir Vestfirðinga og náttúrulega alla aðra, að framleiða orkuna sem mest með olíuknúnum rafstöðvum, því þá verði áhrifin á náttúruna sem minnst eða jafnvel engin.

Nema náttúrulega erlenda náttúru, en frekar auðveldlega má loka augunum fyrir því. það er svo langt í burtu að við sjáum það ekki, heyrum það ekki og finnum það ekki!

Til að knýja slíkar rafstöðvar þarf olíu, en það er vafalaust líka hægt að loka augunum fyrir því á þeim forsendum, að hana þurfi hvort sem er að flytja inn vegna ýmislegs annars!

Eftir situr hnípin þjóð í vanda, sem veit ekki hvernig hún á að kenna vitringunum sínum, hvernig greina skuli kjarnann frá hisminu, að fórna minni hagsmunum fyrir meiri og almennt, að horfa fram á veginn í stað hins gagnstæða.

Vatnið rennur, hvort sem það fer í gegnum hverfla eða ekki og sama má segja um vindinn, hann blæs hvað sem við segjum eða gerum og þannig mætti áfram telja.

Hinn málglaði Macron

 Það hefur verið í fréttum, að forseti Frakklands útilokaði ekki að senda 

2024-02-28 (17)franska hermenn til Úkraínu.

Umfjöllun um málið finnst á ýmsum miðlum svo sem The GuardianRussya today og Morgunblaðinu.

Sjálfsagt mun umfjöllun finnast víðar og fram kemur að ,,sjálfboðaliðar" af ýmsu þjóðerni eru þegar til staðar í Úkraínu.

Sé það rétt eftir haft, að forseti Frakklands hafi haft orð á því að senda franska hermenn á ófriðarsvæðið, þá eru það nokkuð mikil tíðindi og aðgerð sem gæti haft alvarlegar afleiðingar.

Frakkar hafa um aldir látið sig dreyma um, að leggja Rússland undir sig, ýmist í heild sinni, en líka að hluta og sjálfsagt er það glámskyggni að reikna með, að þeir draumar séu úr sögunni.

Flestir munu kannast við innrás Napóleons inn í Rússland, sem endaði þannig að herjum hans tókst að komast til Moskvu og brenna hana nánast til grunna, en fundu þar lítið af fólki.

Að því loknu hundskuðust hann og liðsaflinn, heim á leið og komust til síns heima, það er að segja sumir, og óhætt er að segja að það voru ekki nema leifar af her sem komst að lokum til heim til sín.

Þannig hefur þetta gengið, að reynt hefur verið en ekki tekist, að sigrast á víðáttunni austur þar, af alls konar lýð og skemmst er að minnast innrásar Hitlershersins á síðustu öld.

Í þeim her var alls kyns mannskapur, frá ýmsum evrópskum löndum og þar á meðal Úkraínu.

Nú langar hinn makalausa Macron til að feta í fótspor forveranna, en hætt er við að endirinn yrði líkur fyrri slíkum leiðöngrum.

Rússland er eitt af kjarnorkuveldunum og gera má ráð fyrir að það myndi svara fyrir sig með hverju sem þyrfti, ef að því yrði sótt, af Atlantshafsbandalaginu (NATO) og að heimsbyggðin gæti orðið lengi að ná sér eftir hildarleik af því tagi.

Við skulum því vona að Macron og aðrir vestrænir leiðtogar nái áttum áður en þeir steypa tortímingarstyrjöld yfir heimsbyggðina.

Það er alls ekki víst að þeir sem hæst gaspra nú um stundir og hyggja á mikil stórræði, ríði feitasta hestinum heim frá slíkri viðureign.

Það er að segja, ef það þá fyndist handa þeim hross til að níðast á.

Lifum í nútíð, ekki fortíð

 Hjá Bændasamtökunum er ýmislegt að gerast eins og svo oft áður og félagar í samtökunum þurfa að kjósa sér formann.

Sitjandi formaður gefur kost á sér til endurkjörs, hefur verið farsæll í starfi og náð að sameina samtök bænda.

Bændur í landinu eru alla vega, þeir fást við margvíslegan búskap, en það er kjötframleiðslan sem tekur mest pláss í umræðunni og um hana er þarft að ræða.

Kjötframleiðslugreinarnar eru nokkrar: S.s. alifuglarækt - til framleiðslu á kjöti og eggjum -, svínarækt, nautgriparækt - til mjólkur og kjötframleiðslu, þá má nefna geitfjárrækt og sauðfjár, auk þess sem talsvert fellur til af hrossakjöti, þó þau séu nú orðið ekki beinlínis ræktuð í þeim tilgangi svo teljandi sé.

Bændasamtökin hafa breyst og ætli ekki megi segja að svo sé nú komið, að flestir bændur finni sig í samtökunum, hvaða búgrein sem þeir annars stunda.

Við erum enn nokkur á fótum, sem munum hvernig samtökin voru, þ.e. þegar þau voru bundin við hefðina sem var, þegar landbúnaðurinn var sauðkindur, kýr og hestar og þá í þeirri röð.

Undirritaður tók, svo dæmi sé tekið, þátt í því að sigla með heilu skipsfarmana af nýslátruðu lambakjöti í heilum skrokkum, til útlanda í sláturtíðinni. Kjöt sem selt var þangað svo nýslátrað og ferskt, að það var ekki einu sinni komið almennilegt frost í það! Frystikerfi skipsins þurfti að keyra á fullum afköstum allan lestunartímann og á siglingunni yfir hafið, til að ná upp frosti í vörunni, til að við henni yrði tekið í erlendri höfn.

Allt er þetta liðin tíð sem betur fer, þó finna megi sögur af frystigámum með lambakjöri, sem flækst hafa landa á milli, þar til þeir döguðu að lokum uppi, t.d. í Færeyjum; voru þá búnir að flækjast allt til sólarlanda og enginn vissi til hvers!

Það voru stigin gæfuskref þegar Bændasamtökin breyttust í nútímahorf; breyttust frá því að vera fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda og yfir í það að vera samtök allra bænda.

Vissulega var fyrirferð sauðfjárræktarinnar mikil á fyrri tímum þegar kindakjöt var KJÖTIÐ og kom þar á móti fiskinum sem var ÝSAN, hin eina og sanna.

En nú eru breyttir tímar og við lifum í nútíðinni.

Meira er nú neytt í landinu af kjúklingakjöti en kindakjöti og það svo miklu munar, ef hlutfallið bein á móti kjöti, væri tekið með og því er það, að samkvæmt hinu forna viðmiði, ætti formaður Bændasamtakanna að koma úr röðum kjúklingabænda!

Svo er ekki og það er ágætt, hefur gefist vel og núverandi formaður hefur haft gott vald á hlutverki sínu.

Þó er komið á móti honum framboð!

Sauðfjárbændur harma sinn hlut og sakna fyrri tíðar sem rekja þarf nokkur ár aftur, eða aftur til þess sem var, áður en núverandi formaður kom til sögunnar, en hann hefur leitast við að gera öllum búgreinum jafnt undir höfði, ef svo má segja.

En af hverju harma sauðfjárbændur sinn hlut? Er það vegna þess að ekki hafi verið haldið vel á því sem að þeim snýr? Svarið er nei.

Núverandi formaður kemur úr röðum garðyrkjubænda og það hefur gefist vel og ekki annað að sjá en hann hugi að hag bændastéttarinnar sem heildar, og hvers vegna ætli það sé?

Algengasta meðlæti sem notað er með kjöti, er einhver afurð garðyrkjunnar.

Það eru afurðir garðyrkjunnar sem sameina okkur í kjötátinu!

Það skyldi nú ekki vera að þar sé fundin ástæðan fyrir því að núverandi formaður sameinar en sundrar ekki, að hann sjái vítt yfir og vilji hag allra jafnt?

Hugsi ekki um sérhagsmuni, heldur heildarhagsmuni.

Geti menn ekki fundið sér farveg og verið sáttir við sinn hlut undir slíkum kringumstæðum, ættu þeir að kanna hvort ekki sé rétt að stofna sérstök samtök um að koma sínum málum á framfæri.

Þess þarf reyndar ekki, þegar betur er að gáð, því slík samtök sauðfjárbænda eru þegar til staðar og eru innan heildarsamtaka bænda!

Gallinn er bara sá, að hér hefur verið dottið niður í gamalt uppþornað hjólfar, eftir þau sem ekki töldu menn og konur til bændastéttarinnar, nema þeir byggju með sauðkindur.

Við getum horft til fortíðarinnar og lært af henni, en ekki lifað í henni!

Ekki gefast upp!

 

Sumir gefst aldrei upp og svo er um þá sem hyggja á vetnisframleiðslu við hlið Reykjanesvirkjunar og kvikuhlaup og jarðhræringar breyta þar engu.

Sama er um Landsvirkjun sem gefst ekki upp á að leita leiða til að uppfylla orkuþörf þjóðarinnar, þrátt fyrir að stemningin sé sú, að hún, eða að minnsta kosti fjalltraustir og sjálfskipaðir alvitringar hennar, leggist gegn flestum hugmyndum sem fram koma varðandi virkjanakosti.

Raforkan skal verða til úr engu og ekkert skal verða að miklu, mun vera kjörorð þeirra sem hvergi vilja virkja, en vilja samt eiga óheftan aðgang að raforku, hvað sem raular eða tautar.

Möguleikarnir eru sannarlega til staðar og þeir eru með ýmsu móti: það er hægt að virkja fallvötnin, jarðhitann, vindinn o.s.frv. en það er ekki hægt samt.

Kertaljós og klæðin rauð var sungið á jólunum og er líklegast gert enn og þó virkjanaandstæðingar nefni ekki þann möguleika til lýsingar, þá má gera ráð fyrir að þá dreymi blauta drauma um fyrri tíma þjóðar, sem kúldraðist í vistvænum torfkofum og sló gras með orfi og ljá og sópaði heyinu síðan saman veð hrífu.

Sótti sér björg í bú með því að róa út á sjó þegar færi gafst og lifa í voninni um að allir sem til sjós fóru kæmu til baka, en ef svo fór að þeir skiluðu sér ekki, þá var bara að taka því.

Súrt slátur og súrsaðir hrútspungar, finnst sumum vera gott fóður inn í daginn og við étum það á þorrablótum og sumir skola því niður með brennivíni, íslenska viskíinu, sem enginn vill drekka nema sumir í harðindum, eða þegar löngunin í vímuna verður óbærileg.

Stemningin er afturhvarf til fortíðar og því meira sem menn læra, því sannfærðari verða þeir um að allt geti orðið til af engu og orðið að miklu, ef ekki öllu eða bara hverju sem er.

Eigum við að reyna að trúa hinni nýju lífsspeki?

Innflutningur, forsetakjör, náttúruvá og orkuviðskipti

 

Það er margt sem við fáum frá Kína, svo sem við sjáum við að lesa þó ekki sé nema fyrirsögnina á skjáskotinu og því er gott að halda góðum tengslum við það ógnarstóra og fjölmenna þjóðfélag.

Sumir telja að núverandi forsætisráðherra geti verið vænlegur kostur fyrir þjóðina í komandi forsetakosningum.

Og svo eru það orkumálin sem þarf að koma í lag eftir að hafa verið látin reka á reiðanum um ára, ef ekki áratuga bil.

Kínverja getum við afgreitt þannig að þeir sjá um sig sjálfir og við getum engin áhrif haft á það sem þar gerist; getum einungis fylgst með og reynt að halda góðu sambandi, en þaðan kaupum við allt mögulegt, eða allt frá flutningaskipum til leikfanga og allt þar á milli.

Því er það að okkur stendur ekki á sama, þegar siglingar truflast um Súesskurð og Rauðahaf og skipin þurfa að fara að sigla suður fyrir Afríku til að koma varningnum til okkar.

Það er ófriður í Miðausturlöndum, ófriður sem ekki sér fyrir endan á nema síður sé, því svo virðist sem sífellt fleiri blandi sér í þann ljóta leik.

Blaðran sprakk þegar Hamaz gerði árás á fólk, á tónleikum í Ísrael og drápu af handahófi talsvert á annað þúsundir manna. Á þá árás má lita sem örvæntingarviðbrögð þjóðar sem búið er að þjarma að um langan tíma, eða allt frá lokum síðari heimstyrjaldar.

Flestir þekkja þá sögu og hún verður ekki rifjuð upp hér, en afleiðingarnar eru skelfilegar og yfirgangurinn gagnvart palestínsku þjóðinni mikill.

Nú keyrir um þverbak og svo er að sjá sem markmiðið sé að útrýma þjóðinni sem er og hefur verið um aldir og þeir sem að verkinu standa njóta ómælds stuðnings vina sinna vestan Atlantshafsins.

Við á litla Íslandi getum fátt gert í málinu; getum í raun ekki gert annað en vonað að menn nái áttum og hætti manndrápum og eyðingu byggðar – ef þá eitthvað er eftir til að eyða – setjist að samningaborði og ræði sig niður að ásættanlegri niðurstöðu sem yrði farsæl fyrir alla.

Svona getum við hugsað og vonað, en líkurnar til að raunhæfur friður komist á eru afar litlar a.m.k. sem stendur; leikurinn er ójafn og því geta þeir sem yfirgangi beita farið sínu fram.

Vandamálin okkar eru smámunir í samanburði við það sem er að gerast í Miðausturlöndum.

Við þurfum samt að koma okkur saman um hver verður forseti þjóðarinnar, hvernig við ætlum að koma raforku á milli landshluta o.s.frv.

Það getur stundum verið ágætt að vera lítil þjóð á eyju í Atlantshafinu, þrátt fyrir eldvirkni og jarðskjálfta og leitar þá hugurinn út á Reykjanes, til fólksins sem flýja þurfti úr bænum sínum vegna jarðskjálfta og eldgosahættu.

Til mannsins sem fórst við vinnu við að fylla upp í sprungu sem myndast hafði í Grindavík, aðstandenda hans og björgunarsveitarfólksins sem gerði það sem það gat og varð að lokum að gefast upp við að finna félaga sinn.

Hugurinn er hjá þessu fólki núna, með ósk um að allar góðar vættir muni styrkja þau í þeim raunum sem þau eru að takast á við.

Aðstandendur mannsins sem fórst, þarfnast stuðnings og hlýju og þeim óskar ritari alls hins besta og að þau fái styrk til að standast þessa raun.

Maðurinn með borinn kemur og?

 Fyrir skömmu brá sér til landsins maður sem bauðst til að leysa borvanda þjóðarinnar og niðurstaðan varð, að undir var skrifað og miklar væntingar urðu til.

2023-11-29Innviðaráðherra mundaði pennann og svo er að sjá sem framtíðin sé björt varðandi gangnagerð vítt um landið.

Hið frelsandi apparat sem nota á til verkanna gengur fyrir ,,hreinni" orku þ.e.a.s. rafmagni og eins og við vitum þá eigum við nóg af því, eða er það ekki?

Við vitum ekki hve mikla orku tólið tekur en einhver hlýtur hún að vera, en það er fleira sem ekki er alveg á hreinu fyrir okkur sem ekki vorum viðstödd kynninguna á búnaðinum, en vitum þó að Tom Swift hefði örugglega lyfst allur upp ef hann hefði frétt af þessu.

2023-11-27 (6)Kyndilborun mun það heita og við Íslendingar erum þau fyrstu sem fáum að njóta þess að nota tólið til þarfra hluta, því það vantar göng vítt um fjöllótt land, svo ekki sé nú talað um til Vestmannaeyja, sem eins og flestir vita eru dálítið afskeggt samgöngulega séð, ef svo má taka til orða.

Þar á líka að byrja borunina, sem ekki er borun, heldur einhverskonar bruni ef marka má myndina sem fréttinni fylgir, en hvað verður um bergið sem brennt er, fylgir ekki sögunni.

Við vonum að það hverfi eitthvað út í astralplanið, eða hvað sem það nú heitir, svo allt gangi þetta nú fljótt og vel og Vestmanneyingar fái göng fyrir rafkapla og vatnslögn, lagnir sem senn verða neðanjarðar og þar með óhultar fyrir skemmdum sem geta orðið vegna trassaskapar þeirra sem yfir þær sigla.

Það er reyndar eitt ljón í veginum, eða réttara sagt berginu, því okkur grunar að til að þetta takist vel muni þurfa rafmagn, en það er orðið af skornum skammti í landi orkulindanna.

Við höfum nefnilega verið svo gæfusöm að búið er að innræta vinstrigrænt smit inn í hina fjölbreyttu stjórnmálaflokkaflóru landsins og nú stefnir í vistvænan orkuskort af þeim sökum.

Hvað sem þessu líður, þá sjáum við dýralækni og lögfræðing, að við höldum, en báðir eru auk þess ráðherrar, skrifa undir plagg varðandi hina fyrirhuguðu ormagangagerð.

Hvort hús kólna, ljós dofna og rafbílar sofna, þegar græjunni verður stungið í samband, verður spennandi að fylgjast með, en við vonum hið besta og að senn verði hægt að aka óhindrað í gegnum hin fögru fjöll landsins.

Það mun stytta leiðir ef vel tekst til og hugsanlega getur þjóðin lagst í dvala á meðan framkvæmdirnar standa yfir og þannig lagt sitt að mörkum til orkuöflunar; vaknað svo upp og farið að njóta hinna nýju samgönguleiða.

Það verður víst eitthvað að gera, fyrst flugvélarnar fást ekki að ganga fyrir rafmagni svo vel sé. 

Vinir(?) takast í hendur

 

Bandaríkin komin í stríð við Rússa?

Að Bandaríkin séu komin í stríð við Rússland með enn beinni hætti en verið hefur teljast nokkrar fréttir.

Á vef Ríkisútvarpsins er greint frá því að Úkraínumenn hafi fengið langdrægari flaugar frá Bandaríkjunum en þær sem þeir höfðu fyrir og fram kemur að þær dragi um 165 kílómetra vegalengd og af þessu má ráða að Úkraínumenn séu verktakinn í þessu stríði.

Annars er það að segja af stríðsumsvifum Bandaríkjanna að þau eru í miklum önnum fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og reikna má með að flestir hafi tekið eftir. Þar er það Ísrael sem er verktakinn fyrir félaga sinn vestan Atlantshafs og það nýjsta er að gerð var eldflaugaárás á sjúkrahús í Hamaz sem olli ómældum hörmungum.

Staðan í Palestínu er annars sú sem lesa má út úr myndinni hér að ofan og svo sem sjá má er staðan ekki góð.

Drengurinn á myndinni er dapur og spyrjandi á svipinn og enginn veit hverjar afleiðingar þess sem er að gerast umhverfis hann, munu hafa á ungu sálina sem inni fyrir býr.

Svipurinn á þeim bandaríska sem handsalar samninginn við Zelensky er þungur og ekki gott að lesa í hvað þar býr en að læðist, hvort honum lítist ekki mátulega vel á það sem verið er að handsala og það er sem hann horfi alvörugefinn í augu þess sem varlegt er að treysta, fyrir því sem verið er að afhenda honum.

Hvort rétt er í það ráðið af þeim sem þetta ritar mun því miður koma í ljós, en sé tekið mið af því sem á undan hefur gengið liggur svarið fyrir.

Hnípin þjóð sem er í vanda?

  Það er hluti af mannlífinu að huga að leiðum til að komast um. Það er ekkert nýtt að svo sé gert en það sem er nýtt í þessu, er að komnar ...