Að breyta flokki
Nafn góðrar bókar sem ég hlustaði eitt sinn á í streymisveitu var ,,Að breyta fjalli".
Sérkennilegur titill og ekki gott að ráða í hvað höfundi er í huga lengi vel, en að lokum kemur í ljós hvað titlinum ræður.
Í morgun las ég aðsenda grein í Morgunblaði dagsins og sannfærðist um að lestri loknum að það er líka hægt að breyta flokki og ef það skyldi nú vera einhverjum vafa undirorpið, þá er að minnsta kosti hægt að láta sig dreyma um að gera það.
Ritari greinarinnar er hugumstór líkt og riddarinn gamalkunni og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, því það er hinn gamalgróni Sjálfstæðisflokkur sem til stendur að breyta og það er landbúnaðarstefna flokksins sem til stendur að höggva í, breyta og laga til, þar til allt verður orðið eins og það á að vera að mati höfundar.
Hann byrjar á að setja fram eftirfarandi fullyrðingu: ,,Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið forystuafl í íslensku þjóðlífi og um leið tryggt pólitískan stöðugleika sem hryggjarstykkið í innlendum stjórnmálum."
Og með þetta leggjum við af stað inn í daginn, vitandi að hverjum mun finnast sinn fugl fagur og allt það og af því að við viljum vera jákvæð, þá rifjum við upp Sjálfstæðisflokkinn sem einu sinni var, flokkinn sem Bjarni heitinn Benediktsson, Geir Hallgrímsson og fleiri góðir heiðursmenn veittu forystu.
En hver er hann, þessi stjórnmálaflokkur sem maðurinn er að vitna til? Er það flokkurinn sem á talsmenn sem skrifa texta sem er ,,ekkert annað en orð" svo vitnað sé í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær? Er hann flokkurinn sem til var fyrir Viðreisn? Líklega. Því varla er það flokkurinn sem er í dag, sitjandi í ríkissstjórn undir forystu Vinstri grænna og með Framsóknarflokkinn á sína vinstri hönd og fyrrnefnda Viðreisn á þá hægri.
Tillögurnar
Höfundur lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna, enda landsþekktur frumkvöðull og áhugamaður um sölu íslenska lambakjötsins undir vörumerkinu ,,Icelandic Lamb" og við vitum að sótt hefur verið í þeirri baráttu um veröld víða s.s. til Indlands og Kína, en af einhverjum ástæðum rekur okkur ekki minni til að sótt hafi verið á varðandi markaðssetningu á hinni einstöku afurð til Nýja Sjálands.
Hinu hefur verið tekið eftir að vinnan hefur orðið að ,,hringrás", því fyrir nokkrum vikum bárust fréttir af því að hið íslenska lambakjöt hefði hringsólað um Evrópu og endað í Færeyjum eftir viðkomu m.a. á Spáni. Var þá orðið tveggja ára, en yngt upp með nýrri merkingu og sést að markmiðinu var þar með náð, þrátt fyrir að í eftirfarandi texta sé því stillt upp sem markmiði sem eigi eftir að ná:
,,Þessum markmiðum má öllum ná með því að tvinna saman tvo málaflokka, þ.e.a.s. landbúnaðar- og umhverfismál, með miklu beinni hætti en nú er. Úr verði hringrásarlandbúnaður. Þannig megi greiða fyrir aukinni verðmætasköpun á grundvelli sjálfbærni, sérstöðu og velferðar. Umhverfið, bændur og neytendur muni njóta."
Vissulega ekki verra að setja sér markmið sem þegar er orðið, en eðlilegra hefði trúlega verið að setja sér markmið sem er trúverðugt og raunsætt að stefna á. Fótboltamenn svo dæmi sé tekið, setja sér ekki sem markmið að skora sama markið aftur!
Lausnin
Stefnuna, markmiðið, þarf að útskýra fyrir flokksmönnum og það er gert m.a. með eftirfarandi hætti:
,,Kjarni hennar er í stuttu máli sá að opinber stuðningur við bændur verður bundinn við sjálfbærni- og umhverfismælikvarða. Með öðrum orðum, þeir bændur og aðrir
matvælaframleiðendur sem uppfylla tiltekin umhverfisskilyrði fá opinberan fjárhagslegan stuðning, aðrir ekki."
Og við veltum því fyrir okkur hvernig muni fara fyrir þeim ,,bændum" sem greitt fá fyrir að framleiða kindakjöt í sig og sína og einnig hina sem kallaðir eru ,,frístundabændur" og framleiða kindakjötið rúmlega ,,í sig og sína", stunda ,,gæðastýrða sauðfjárrækt" t.d. með því að láta það fé sem ekki skilar sér til rétta að hausti eftir slaklega smölun, sjá um sig sjálft. Láta á það reyna hvort það lifir veturinn af eða ekki, nú eða ef heppnin er með, að einhverjir rekist á það fyrir tilviljun og komi því að húsi.
Allar eiga þessar hugmyndir hins hugumstóra fyrrverandi forstjóra vafalítið erindi inn á væntanlegan Landsfund Sjálfstæðisflokksins og þar á bæ verða þær eflaust teknar, metnar og einhvernveginn fundnar.
Vandi sauðfjárbænda er ekki minni nú en þegar lagt var af stað með hjálp höfundar þeirrar greinar sem hér er vitnað til og hann mun ekki minnka fyrr en framleiðslan lagar sig að markaðnum og bændurnir losna að einhverju undan þeim verktökuklafa sem þeir eru á hjá ríkisvaldinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli