Fullt hús fjár?
Af þessu sést að staðan er ekki góð og framleiðslugetan er afar lítil (8000 kíló af kjöti) og það sem verra er: að um helmingur teknanna koma sem greiðslur úr ríkissjóði.
Það má öllum vera ljóst að þessi búgrein er í miklum vanda. Sé hún borið saman við hverja aðra kjötframleiðslugrein sem er, kemur í ljós gríðarlegr munur.
Bú sem er með nautakjötsframleiðslu sem aðalbúgrein væri í mjög erfiðri stöðu með framleiðslu sem ekki væri nema 8000 kíló á ársgrundvelli, svo ekki sé nú farið út í samanburð við alifugla og svínarækt.
Sauðkindin er mjög afkastalítið kjötframleiðsludýr og samkvæmt tölunum sem Sara tínir til gefur hver kind um 20 kg af kjöti á ári og er það ríflega metið, því ef rétt er munað er venjulega talað um 18,2 kíló.
Þá má ekki gleyma því að beinahlutfallið er mun meira en hjá flestum öðrum búfjártegundum sem notuð eru til kjötframleiðslu. Það þekkjum við vel sem kunnum að meta kindakjötið; við vitum hvert hlutfallið af afskurðinum er og við vitum líka hvert hlutfall beinanna er.
Þetta er samt sú landbúnaðararafurð sem íslensk stjórnvöld hafa veðjað á um marga áratugi og greiða úr almannasjóðum um helming framleiðslukostnaðarins sem styrki til framleiðendanna, halda úti starfsemi til markaðssetningar til annarra landa, landa þar sem enginn kannast við að skortur sé á þessari kjöttegund, enda flestir vanir öðru kjöti og betra að þeirra mati.
Við erum fátt annað en vaninn og þannig er með kjötneyslu sem aðrar venjur, okkur þykir best það sem við erum vön og trúlega er það ekki síst bundið við matvæli. Undirritaður hefur smakkað kindakjöt nokkurra annarra landa og ekki fundið afgerandi bragðmun þar á milli. Af því dreg ég þá ályktun að hin meinta ,,sérstaða" íslenska kindakjötsins, sem að sögn framleiðenda þess byggist á kryddjurtaáti skepnanna á hálendi landsins, sé stórlega ofmetin svo vægt sé til orða tekið.
Að byggja tekjur sínar á verktöku hjá ríkissjóði vegna framleiðslu á einhverju sem engin vöntun er á og er haldið úti vegna hugsanatregðu gamalla stjórnmálaafla sem byggja fylgi sitt á dreifbýlisatkvæðum er ekki traustur grunnur til að byggja á svo sem dæmin sanna.
Þessi búgrein er í miklum vanda og það eru ekki síst stjórnmálamenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem á því bera ábyrgð og þá ábyrgð verða þeir að axla svo lengi sem þeir njóta fylgis, annað hvort með því að kafa æ dýpra í vasa skattborgaranna eða, að finna aðrar leiðir til að tryggja atvinnu á landsbyggðinni en að halda uppi framleiðslu á kjöti sem engin þörf er fyrir. Ríkissjóður getur vandræðalaust fundið farveg fyrir ráðstöfun aura sinna án tilgangsleysis af þessum toga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli