Myndin hér að ofan er af frétt Morgunblaðsins þar sem fjallað er um þá möguleika sem menn telja að geti falist í að sameina afurðastöðvar í kjötiðnaði. Viðmælandi blaðsins telur að hægt sé að lækka verulega kostnað við slátrun og vinnslu verði veitt undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga líkt og gert hefur verið varðandi mjólkuriðnaðinn. Miklir erfiðleikar eru í kjötiðnaðinum vegna aukins innflutnings á kjöti og hafa komið fram tillögur um sameiningu kjötvinnslna í þeim tilgangi til að gera reksturinn hagstæðari. Hugmyndirnar ganga út á, að annað hvort sameina, eða koma á verkaskiptingu og samvinnu afurðastöðvanna.
Samkeppniseftirlitið hefur lagst gegn því eftir því sem segir í fréttinni sem er hér fyrir ofan í mynd. Sá sem rætt er við telur andstöðu Samkeppniseftirlitsins vanhugsaða, því með sameiningu megi lækka kostnað við vinnslu á kjöti talsvert og telur að dæmin úr mjólkuriðnaðnum sýni að hægt sé að gera betur í kjötiðnaðnum með fyrrnefndum sameiningum og hagræðingu sem af sameiningum hljótist.
Hann bendir á, að miklu meiri heimildir til sameiningar og samvinnu séu í Evrópusambandinu og hafi verið þar frá upphafi og telur það skjóta skökku við að Samkeppniseftirlitið berjist gegn þessum hagræðingarhugmyndum hér á landi.
Viðmælandi blaðsins bendir á, að það ætti að vera hlutverk Samkeppniseftirlitsins að jafna stöðu aðila á markaði en ekki að auka ójöfnuðinn.
Við lestur þessa kemur upp í hugann að fyrir nokkru síðan voru tvö fyrirtæki í samskonar iðnrekstri sem ekki er annan að finna í landinu. Annað er norður í landi en hitt er á Faxaflóasvæðinu og sem eru nú í eigu sama aðila. Sameinuð á þann hátt, að það norðlenska keypti það sem er á Faxaflóasvæðinu og síðan mun verð á þjónustu þess fyrirtækis hafa hækkað.
Eins og sjá má af meðfylgjandi skjáskotum af umfjöllunum Morgunblaðsins um þessi mál að undanförnu er umræðan þung, enda erfiðleikarnir umtalsverðir.
Það mun vera unnið að útfærslum á tillögum um hvernig hægt sé að auka hagkvæmnina í kjötiðnaðinum, menn eru sammála um að vandi steðji að afurðastöðvunum og að leita þurfi leiða til að jafna aðstöðuna, en greinir á um hve langt skuli ganga.
Blaðið ræðir við fimm menn um málið, þá Ágúst Torfa Hauksson formann landssamtaka sláturleyfishafa, Gunnar Þorgeirsson formann Bændasamtaka Íslands, Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins, Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda og Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna.
Ágúst Torfi segir að samtökin sem hann stendur fyrir hafi þá afstöðu að breyta skuli búvörulögum og heimila samstarf og verkaskiptingu í kjötiðnaðinum. Hann vill að horft verði til ákvæða sem gilda um hagræðingu í mjólkuriðnaði, þar hafi ávinningur neytenda og bænda orðið mikill og telur að þannig muni það að líkindum verða í kjötiðnaðinum og lýsir eftir að bændum og þeim sem úr afurðum þeirra vinna verði gefinn möguleiki í samkeppninni.
Formaður Bændasamtakanna er sama sinnis og vill hagræðingu í greininni til að auka möguleika hennar til að takast á við samkeppnina.
Ólafur Stephensen er ekki á sama máli og telur að það væri misráðið að breyta rekstrarumhverfi norðlenskra afurðastöðva áður en rannsókn Samkeppnisstofnunar sé lokið og að ljúka þurfi rannsóknarvinnu á afleiðingum slíkra aðgerða. Telur hann að skoða þurfi m.a. afleiðingar þess, að breyta lögum til að hægt sé að sameina þrjár afurðastöðvar á Norðurlandi. Hann telur að tryggja þurfi að bændur og neytendur þurfi að njóta ábata af slíkum gerðum og segir orðrétt: ,,Talsmenn þess að sameina afurðastöðvar án atbeina Samkeppniseftirlitsins virðast ekki treysta sér til að rökstyðja [...] að slíkur samruni sé í þágu neytenda".
Breki Karlsson er á sömu slóðum og Ólafur og óttast um hag neytenda ef af sameiningum verði.
Í máli Páls Gunnars forstjóra Samkeppniseftirlitsins, kemur fram að núverandi samkeppnisreglur komi ekki í veg fyrir samvinnu og samruna fyrirtækja í kjötvinnslu en bendir á að skoða verði hvort það skaði hag bænda og neytenda. Þá nefnir hann að komið hafi fram að bændur telji sig enga samningsstöðu hafa gagnvart afurðastöðvunum og bendir á að tryggja verði að bændur geti veitt stöðvunum aðhald. Páll er opinn fyrir því að rýmka íslenskt regluverk til samræmis því sem gerist í Evrópusambandinu og Noregi. Rétt er að benda á, að það sama hefur komið fram í greinaskrifum hans, er þau skiptust á skoðunum um þessi mál í fjölmiðli Páll og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur.
Páll segir síðan: „Samkeppniseftirlitið hefur ekki sett sig á móti þeim en varað við þeirri leið sem farin var á Íslandi vegna mjólkuriðnaðarins. Með því er tekið úr sambandi það eftirlit sem fyrst og fremst snýst um að tryggja að hagsmunir bænda og neytenda séu ekki fyrir borð bornir.“
Pósturinn ohf.
Í aðsendri
grein í Morgunblaðið 27/2 síðastliðinn skrifar Ólafur Stephensen um einokunarrekstur Póstsins, sem rekur pakkadreifingu um landið á verði sem er undir kostnaðarverði og bakkað upp með fjárgjöf úr ríkissjóði.
Flestir sjá að slíkur rekstur er ekki samkeppnisrekstur á heilbrigðum grunni, ekki frekar en ríkisrekin sauðfjárbúskapur er gagnvart öðrum kjötframleiðendum.
Það verður þó að taka það fram, að sá rekstur mun seint geta borið sig í samkeppnisrekstri og ríkisstuðningur er víðar en hér látinn standa undir þeirri ósk okkrar margra, að eiga kost á þessari kjöttegund.
Hvort aðrar þjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að til að halda kindabúskap gangandi þurfi að framleiða allt að tvöfallt það sem þjóðin torgar og flytja mismuninn út með meðgjöf úr ríkissjóði til ríkra landa er ritara ekki kunnugt um.
Jákvæðu fréttirnar
Rétt þykir að enda þessi skrif á jákvæðum nótum og benda á grein þá sem myndin hér fyrir neðan sýnir og er með fyrirsögninni ,,Aukin framleiðni skilar milljörðum" þar sem segir í inngangi:
,,Framleiðni hefur aukist mjög í mjólkuriðnaði eftir að afurðastöðvar fengu heimild til sameiningar og verkaskiptingar. Framleiðnin hefur vaxið tvöfalt hraðar frá árinu 2000 en algengt er í atvinnuvegum hér á landi. Árlegur ávinningur er nú tveir til þrír milljarðar og núvirði hans er 50 til 70 milljarðar króna. Þetta er meðal niðurstaðna athugunar Ragnars Árnasonar, hagfræðings og prófessors, á þróun framleiðni í mjólkuriðnaði."
Það er sem sagt hægt að finna dæmi um að hagræðing hafi skilað góðri niðurstöðu og ætti það engan að undra, en rétt er að taka undir orð forstjóra Samkeppniseftirlitins um að búa þurfi vel um alla hnúta þegar farið er út í slíka aðgerð og þá bæði með hag bænda og neytenda í huga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli