Ný heildarsamtök bænda?

 


Að undanförnu hefur verið unnið að endurskipulagningu Bændasamtaka Íslands og í Bændablaðinu, því sem út kom þann 17. desember 2020, er heilsíðuumfjöllun til kynningar á niðurstöðu sem virðist vera komin í málið undir yfirskriftinni:

,,Nýtt skipulag á félagskerfi landbúnaðarins“.

Þar segir að hið nýja skipulag:

,,…byggist á þeirri sýn að Bændasamtök Íslands [verði] öflugt félag bænda sem [verði] í virkum tengslum við neytendur og stjórnvöld á hverjum tíma. Til að ná þessu fram eru lögð fram nokkur atriði […].“

Í kynningunni kemur fram að til standi að sameina búgreinafélögin og Bændasamtökin í eitt félag og að fyrirtæki og aðrar eignir búgreinafélaganna eigi að renna inn í B.Í. og að félagar þeirra komi til með að verða ,,beinir“ aðilar að samtökunum.

Aðild og ráðstöfun eigna.

 Sá sem þetta ritar, gerir ekki athugasemd við að rekstrareiningar bænda og bændur sem reka bú sín í eigin nafni séu ,,beinir aðilar“ að samtökunum, en hefur afar takmarkaðan skilning á því að búgreinafélög sem slík verði það á þann hátt sem lagt er upp með.

Búgreinafélögin eru til orðin utan um sérverkefni, sérmál og sérhagsmuni viðkomandi búgreina og hafa sannað sig sem slík.

Tekið er fram í kynningu blaðsins að ráðstöfun eigna búgreinafélaganna verði eigi að síður háð samþykki viðkomandi búgreina og er gott að þessi varnagli er sleginn, varnagli sem er í mótsögn við það sem áður er fram komið!

Eyrnamerkingar.

Orðið ,,eyrnamerkt“ kemur nokkrum sinnum fyrir í textanum og við munum að lömbin eru eyrnamerkt og mörkuð á vorin af eigendum sínum!

Sagt er að hugsanlegar tekjur af þessum eignum (eignum búgreinafélaganna), komi til með að ,,renna til Bændasamtaka Íslands“, en eigi samt sem áður að skila sér með eyrnamerkingu til viðkomandi búgreinafélags, sem síðan ráðstafi þeim eftir því sem ,,nefnd viðkomandi búgreinar“ ákveður, þó þannig að sú ráðstöfun gangi ekki gegn markmiðum BÍ.

Minnir þetta dálítið á það sem gerist þegar foreldrar leyfa börnum sínum að eiga bankabók til að safna í aurum sínum, en ráðstöfunin er samt sem áður háð samþykki foreldranna.

Fáum sögum mun fara af því að búgreinafélögin hafi fram til þessa notað eignir sínar til að beita sér gegn Bændasamtökunum. Það er mun auðveldara að benda á dæmi um að búgreinafélögin hafi sinnt málefnum sem ekki hefur verið sinnt af heildarsamtökunum.

Sjálfstæðið.

 Að loknum fyrrnefndum skýringum kemur eftirfarandi texti og eyrnamerkingarnar halda áfram:

,,Þá verði þeir sjóðir sem hver og ein búgrein heldur á við sameiningu einnig eyrnamerktir viðkomandi búgrein með sama hætti. Aðildarfélög búgreinafélaga eru sjálfstæð og verður það hverrar búgreinadeildar að skipuleggja samstarf [Bændasamtakanna] við þau.“

Aðildarfélögin eru sem sé ,,sjálfstæð“, eftir því sem hér segir og því er vandséð til hvers þessi flækjuflétta er yfirleitt sett á svið.

Tekið skal fram, að í beinu framhaldi er vísað í skipurit (mynd) til frekari skýringar og í textanum segir: ,,… Allar þessar stoðir verða að tala saman til að hámarksárangur náist í kerfinu.“ Já það er gott að talað sé saman. Enn betra hefði verið að byrja á samtali. Samtal sem fer fram eftir þann gjörning sem hér er kynntur, er ekki víst að verði árangursríkt.

Aðalfundurinn (Búnaðarþing).

Útskýrt er svokallað ,,Búnaðarþing“, samkoma sem hefur verið einhverskonar aðalfundur Bændasamtakanna og þó ekki, því samkoman hefur verið svo hátimbruð að vandséð er að hún hafi fram til þessa verið til annars, en að vera skrautsýning með sjálfvirkri afgreiðslu á fyrir fram ákveðnum hugmyndum.

Í stað þess að breytt verði til batnaðar, er svo að sjá sem ætlunin sé að halda svo sem unnt er í það furðulega kerfi sem fram til þessa hefur verið varðandi ,,þing“ þetta og að í stað þess að fram fari aðalfundur samtakanna, svo sem vanalegt er hjá hagsmunagæslusamtökum, þá er ætlunin að halda í hið gamla fyrirkomulag svo sem unnt er.

Sést það m.a. af því að gert er ráð fyrir að aðalfundurinn (Búnaðarþing) verði skipaður 63 fulltrúum og þar af 9 fulltrúum sem ekki eru fulltrúar búgreinanna sem að Bændasamtökunum standa!

Ekki er tekið fram að þessir gestir aðalfundarins séu án atkvæðisréttar. Þannig að gera má ráð fyrir að um sé að ræða aðila sem komi til með að greiða atkvæði um málefni sem snerta muni hagsmuni búgreinanna sem ætlunin er að myndi samtökin.

Þrír þessara fulltrúa eru þegar með fulltrúa í gegnum búgreinafélög en hinir eru fulltrúar sex búnaðarsambanda!

Nær hefði verið að stilla dæminu þannig upp að aðalfundarfulltrúar yrðu mun færri. Til dæmis 3 til 5 frá hverju búgreinafélagi og að sjálfsögðu engir fulltrúar frá óviðkomandi félögum.

 Vægi búgreinanna.

Í Bændablaðinu segir:,,Hver búgreinadeild fær að lágmarki einn fulltrúa á þingið en eftir það skiptist fjöldi fulltrúa á milli búgreina þar sem velta greinarinnar hefur 50% vægi og fjöldi félagsmanna 50% vægi“

Búgreinarnar eru: Sauðfjárrækt, nautgriparækt, garðyrkjurækt, svínarækt, kjúklingarækt (þ.m.t. kalkúna), Félag eggjaframleiðenda, hrossarækt, geitfjárrækt, eða a.m.k. 8. Hver búgrein fær einn fulltrúa á aðalfund og sé þetta rétt upptalning (sem ekki er alveg víst, því verið getur að a.m.k eitt félag (búgrein) vanti, t.d. Félag kartöflubænda sem eitt sinn var til og er ef til vill enn starfandi), þá eru fyrirfram ákveðnir fulltrúar 3+6+8(?)= 17(?) og með þeim fyrirvara að að upptalningin sé rétt, eru eftir 46 fulltrúar sem verða kosnir á þingið eftir 50/50 reglunni sem lagt er til að verði notuð (,,þar sem velta greinarinnar hefur 50% vægi og fjöldi félagsmanna 50% vægi.“).

Eins og áður segir mætti fækka aðalfundarfulltrúunum meira en þetta og það hlýtur að vera krafa allra sem getu hafa til að rífa sig upp úr því einkennilega félagsformi sem Bændasamtök Íslands hafa verið í, að svo verði gert.

Hagsmunagslan og kynning Bændasamtakanna.

Markmiðið hlýtur að vera að koma á fót raunverulegum hagsmunagæslufélagsskap fyrir búgreinarnar í landinu. Sé ekki vilji til þess, þá er óþarfi að vera að þessu brölti öllu og bíða þess bara í rólegheitum að samtökin hverfi af sjálfu sér á vit sögunnar.

Í stað þess að gera svo sem gert hefur verið áður í landssamtökum, sem innibera margvísleg og misstór fyrirtæki sem þó byggja á sama eða svipuðum grunni, þá er hér búin til reikniregla (50/50) sem ekki er auðvelt að sjá, að nái að spegla búgreinarnar og skiptingu þeirra.

Á öðrum endanum er fjölmenn búgrein sauðfjárræktin, sem framleiðir afurðir samkvæmt búvörusamningum við ríkisvaldið og sem er með mikla veltu (í gegnum þá samninga) og síðan marga félagsmenn. Á hinum endanum eru búgreinar með mikla veltu á hverja framleiðslueiningu (bú) og fáa framleiðendur (m.v. sauðfjárræktina) og eru utan búvörusamninga s.s. alifuglaræktin og svínaræktin og eru oftar en ekki reknar í formi hlutafélaga (nautgriparæktin, alifuglaræktin, svínaræktin og garðyrkjan).

Hér er verið að búa til reglu sem stefnir að því að Bændasamtökin verða hér eftir sem hingað til fyrst og fremst hagsmunagæslusamtök sauðfjárbænda. Annars vegar vegna fjölda þeirra einstaklinga sem greinina stundar og hins vegar, vegna veltunnar sem kemur í gegnum búvörusamninga.

Vel getur verið að velta greinanna sem eru reknar á búvörusamningum verði metin með öðrum hætti, en komi það fram þá hefur undirrituðum sést yfir það.

Sé þetta eins og lesa má í fyrrnefndri útskýringu í Bændablaðinu, er vandséð hvert erindi búgreinar s.s. alifuglaræktin, svínaræktin, eggjaframleiðslan og jafnvel nautgriparæktin og garðyrkjan eiga inn í fyrirhuguð samtök.

Búnaðarþingsfulltrúar ættu að spegla búgreinarnar í landinu en ekki hvort menn eru ungir eða gamlir, lífrænir eða ólífrænir(!?), eða hvort þeir selja afurðir sínar beint frá býli eða gegnum afurðastöð og að sjálfsögðu á að að fækka fundarfulltrúunum þannig, að fulltrúar hverrar búgreinar verði ekki fleiri en tveir til fimm og fari það eftir því hve marga fulltrúa hver búgrein kýs að senda til fundarins. 

Í skeyti sem er fyrir neðan fyrrnefnda kynningu og sem er frá Bændasamtökum Íslands, er eftirfarandi niðurlag:

,,Veltutengt félagsgjald er [verður] innheimt árlega eftir ákvörðun Búnaðarþings. Við sameiningu falla niður bein félagsgjöld til núverandi búgreinafélaga og eitt félagsgjald verður greitt til BÍ. Ætlast er til að félagsmenn skrái veltu búa sinna með reglubundnum hætti og geri grein fyrir veltu eftir búgreinum. Með þessum aðgerðum er BÍ að bregðast við þeim breytingum sem starfsumhverfi samtakanna kallar eftir. Með þessu verði aukinn slagkraftur bæði einstakra félaga og heildarsamtakanna þannig að BÍ geti sem öflugt félag bænda, staðið vörð um hag þeirra og verið í virkum tengslum við neytendur og stjórnvöld.“

Af þessu sést að hugmyndin er að núverandi búgreinafélög hverfi með fullu og öllu inn í BÍ. Þá er gert ráð fyrir að að félagsmenn búgreinafélaganna ,,skrái veltu búa sinna með reglubundnum hætti og geri grein fyrir veltu eftir búgreinum“ eins og þar segir.

Hvernig þetta á að ganga upp er vandséð og hvernig búgreinafélög án allra tekjustofna eiga að starfa (og samt ekki starfa!) inn í Bændasamtökunum er torvelt að átta sig á.

Niðurstaðan.

Bændasamtök sem eru fyrst og fremst samtök sauðfjárræktarinnar, annars vegar vegna fjöldans sem greinina stundar og hins vegar veltu af framleiðslunni sem verður til með með búvörusamningum auk stuðnings ríkissjóðs við það sem flutt er úr landi, eru augljóslega ekki samtök sem eru fær um að gæta hagsmuna annarra búgreina. Og skiptir þá litlu máli hversu einlægur viljinn er til að standa sig í þeim efnum, því hætt er við að traustið verði lítið.

Málið þarf að vinna mikið betur, með það að markmiði að jafna hlutfallslega aðkomu búgreina að samtökunum.

Hugmyndirnar sem settar eru fram í Bændablaðinu eru að mati þess sem þetta ritar, lítið annað en plagg sem eftir er að taka til umræðu; hugmyndir sem þörf er að endurskoða og laga og geta ekki orðið eins og þær eru núna, grundvöllur að nýjum Bændasamtökum Íslands og geta jafnvel búið til meiri vanda, en þann sem þeim er ætlað að leysa.

Höfundur er fyrrverandi formaður Félags kjúklingabænda.

2 ummæli:

  1. “Í kynningunni kemur fram að til standi að sameina búgreinafélögin og Bændasamtökin í eitt félag og að fyrirtæki og aðrar eignir búgreinafélaganna eigi að renna inn í B.Í. og að félagar þeirra komi til með að verða ,,beinir“ aðilar að samtökunum.“
    Það verða engir bændur beinir aðilar ef það á að vera með x marga fulltrúa á aðalfundi, þá er það vara eins og það er í dag, kosnir fulltrúar kjósa um málefnin en geta kosið þvert á samþykktir úr heimahéraði/ búgrein
    Og af hverju ætli búgreinafélögin orðið til á sínum tíma? Vegna þess að BÍ hugsaði ekki jafnt um allar búgreinar❗️

    SvaraEyða
    Svör
    1. Sammála. BÍ hugsaði ekki jafnt um búgreinarnar; einbeitti sér að sauðfjárræktinni og nautgriparæktinni og í þeirri röð.
      Trúlega væri best að fyrirkomulagið væri þannig að greitt félagsgjald færi eftir veltu og atkvæðagreiðsla á aðalfundi færi einnig eftir veltu viðkomandi aðila, líkt og er hjá S.I.. Það sem truflar alla útreikninga í þessu er að sumar búgreinar eru innan búvörusamninga og fá tekjur sínar að hluta úr ríkissjóði, sem síðan sér (að hluta) um sölu og dreifingu afurðanna í sauðfjárrræktinni. Þar ætti að skilja á milli að mínu mati, þannig að sauðfjárbændur fengju eingöngu atkvæði út á veltu sem kemur af raunverulegri sölu á markaði.
      Það er snúið að leysa úr þessari flækju, en algalið að afhenda BÍ allar eigur búgreinafélaganna til ráðstöfunar og að aðalfundurinn eigi síðan að vera meira og minna mannaður af fólki sem engra beinna hagsmuna hefur þar að gæta s.s. fulltrúar Bínaðarþinga o.s.frv.

      Eyða

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...