Þar er svo undarlegt með þjóð



Eitt það fyrsta sem ritari man eftir úr þeim makalausa, farsa sem er í kringum konungsfjölskylduna í Lundúnum er frétt af bréfi frá einum af ,,prinsunum" í hópnum sem stílað var á konu sem skýrð var í höfuðið á vinsælli dráttarvélategund; held að það hljóti að hafa verið svoleiðis, því kvennmaðurinn var augljóslega yngri en fyrsta eintakið sem ritari man eftir af því tóli. Bréfið komst í fjölmiðla, sem af nærgætni sinni skýrðu frá því að þar mætti lesa um draumfarir prinsins, draum sem snerist um það að hann vildi helst vera, þar til gerður tappi í óprenthæfum líkamshluta konunnar.

Sé rétt munað var umræddur prins í hjónabandi á þessum tíma og átti fallega og aðlaðandi konu sem hét einfaldlega Díana, sú hafði alið prinsinum vænlega arftaka og sem nú eru að gera gerðinn frægan. Díana lést í vofeiflegu bílslysi sem margir muna eftir og ef marka má fréttaflutning, var hún á þeim tíma orðin södd af lífsmáta þeim sem stundaður er í Buckingham höll og lái henni hver sem vill.

Þetta forneskjulega þjóðhöfðingja fyrirkomulag, sem stendur og fellur með háaldraðri og virðulegri konu sem flestum fellur vel við, virðist ekki eiga sér mikla framtíð, því að henni genginni er fátt eitt eftir. En Bretar hafa kosið að halda sig við þetta fyrirkomulag, arf aftan úr forneskju, og ekki er neitt á þessari stundu sem bendir til þess að þeir vilji breyta því.

Nú eru þeir orðnir aftur ,,stórveldið" Bretland, sem gengið er út úr Evrópusambandinu til að standa á eigin fótum, með skrautlegan forsætisráðherra í brúnni og flaðrandi upp um Bandaríkin, sem þeir eitt sinn áttu í stríði við eins og svo fjölmarga aðra, en helst þó ekki aðra en þá sem viðráðanlegir voru og eru heimstyrjaldirnar þá undanskyldar. Fjaðrirnar hafa tínst af ein af annarri og lítið orðið eftir af heimsveldinu sem einu sinni var, annað en lítilfjörleg eyríki út í ballarhafi hér og þar og ef einhverjir ,,innfæddir" eru enn eftir, þá eru þeir orðnir vel ,,viðráðanlegir".

Eitt sinn ,,herjuðu" þeir á örþjóð norður við heimskautsbaug og stóðu sig svo vel, að jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins sá þann kost vænstan að makka við ,,erkióvininn" í eldrauðu austri. Sá tók því vel og glotti eflaust við tönn, eða öllu heldur tennur og það margar, keypti fisk, málningu og kjöt(?) fyrir olíu, bíla og vélar og skemmti sér vel, gerum við ráð fyrir. Hefði ekki hermangið alræmda verið til staðar á þessum tíma er ekki gott að segja hvað hefði komið út úr því makki öllu.

En aftur að Bretum og því sem breskt er. 

Við sem vorum milli tektar og tvítugs á Bítlaárunum, sem vel getur verið að skrifa eigi með litlum staf en við ritum með stórum hvað sem hver segir, munum eftir mörgu góðu frá Bretlandi.

Fyrst skal þar fræga telja Enit Blyton, Robert Louis Stevenson, Alistair Maclean að ógleymdri Agötu Christie o.fl. slíkum, auk enn meiri andans manna sem of langt yrði upp að telja og breskar hljómsveitir hafa yljað sálum minnar kynslóðar allt fram til þessa og er þar ekkert lát á: The Beatels, The Rolling Stones, The Kinks og síðan fleiri og fleiri sem of langt yrði upp að telja. Í þessum ,glannapistli' verður hér staðar numið enda óðs manns æði að telja allt það upp sem þessi þjóð (eða þjóðir) hafa lagt fram til að gleðja og kæta og þó ýmsum þyki sem hér hafi verið tínd fram nokkur dæmi um lágmenningu, þá var það þó hámennig minnar kynslóðar.

Við bara njótum og furðum okkur á því að í fréttum skuli vera það helst, að furðufjölskyldan sem fyrst var nefnd til sögunnar í þessum pistli skuli ná því að leggja undir sig fréttatíma allra helstu miðla sem horft er á eða hlustað. 

Allt frá Ríkisútvarpinu íslenska og til og með New York Times, nú eða öfugt ef við kjósum frekar að líta á það þannig!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...