Menntamálin undir stjórn Lilju D. Alfreðsdóttur

 Inngangur


Í upphafi þessa pistils er rétt að taka fram að ritari er tengdur núverandi menntamálaráðherra nánum fjölskylduböndum, þekkir vel til hennar og metur hana mikils. Er bundin henni og móðurfólki hennar svo nánum böndum að hann leyfir sér stundum, reyndar oft, að hugsa um þau sem systkini sín, enda alinn upp meira og minna með þeim.


Rétt er líka að fram komi, að hann hefur aldrei verið Framsóknarmaður, en hefur um lífsleiðina þekkt og kunnað vel að meta marga sem talið hafa sig tilheyra þeim stjórnmálaflokki. Og rétt er að nefna að hann hefur unnið hjá því sem einu sinni var K.Á. og meira að segja Sambandi íslenskra samvinnufélaga, Skipadeild, og átti um árabil farsæl viðskipti við Afurðastöð Sambandsins og fleira mætti telja.


Að þessum játningum loknum vill sá er þetta ritar, lýsa því yfir að hann hefur afar takmarkaðan skilning á því hvernig það gat gerst að ráðherrann gekk framhjá konu við títtnefnda ráðningu til starfs í ráðuneyti sínu og réði í staðinn Framsóknarmann, sem ofan í kaupið er karlmaður! Af þessu er nú orðinn langdreginn hvellur og sér þar ekki fyrir endann á.


Konur hafa svo langt aftur sem ég man skipt mig afar miklu máli. Þær önnuðust mig þegar ég var barn, leiddu mig af stað út í lífið (þ.á.m. móðir menntamálaráðherrans) og í stuttu máli sagt hafa þær reynst mér allar sem ég man eftir, afar vel, allt frá ömmu minni sem tók að sér að ala mig upp, sem eflaust hefur ekki verið auðvelt hlutskipti, ömmu ráðherrans, móður minni, húsmæðurnar á bæjunum þar sem ég var í sveit og fleiri og fleiri sem of langt yrði upp að telja. En upptalningunni líkur við konuna sem ég var svo heppinn að eignast og fylgir mér enn og mun vonandi gera það áfram.


Það sem segja þarf


Þó mörg séu ráðuneytin sem mynduð eru hverri þjóð nauðsynleg og þörf, þá er vandséð að annað ráðuneyti sé vandmeðfarnara en ráðuneyti menntamála. Vegna þeirrar staðreyndar skiptir miklu máli hvernig það er skipað, það er að segja, að í stöðuna veljist manneskja sem hefur metnað og hugsjón til að leiða sig áfram. Sé ekki, sem svo oft hefur verið, að tekið sé við stöðunni einungis vegna þess að hún barst upp í hendur og síðan ekki söguna meir. Eða jafnvel af því að viðkomandi sé svo firrtur af frjálshyggju ástríðu að honum finnist flestu fórnandi til að koma í framkvæmd niðurbroti á því sem byggt var upp fyrir þjóðina á grundvelli samstarfs, samvinnu og metnaðar, til að sem flestir gætu aflað sér þeirrar þekkingar sem hugur þeirra stendur til. Sú stefna hefur of oft ráðið för fram til þessa, þó með a.m.k. einni undantekningu sem ritari man eftir. Metnaður til að sinna starfi menntamálaráðherra, hefur stundum verið óþarflega lítill, svo ekki sé meira sagt og jafnvel ráðist af þeirri glýju að menntun væri ekki menntun nema bóknám væri og að verknám skipti litlu máli, hvorki fyrir einstaklinga, né þjóðina sem heild.   


Ráðherrar


Ráðherrar menntamála sem brunnið hafa fyrir þjóð sína hafa verið óþarflega fáir á þeim tíma sem ritari man eftir, en í hugann kemur þó Svavar heitinn Gestsson sem einn slíkur og þar næst sú  er nú vermir þann stól: Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Ég hef fylgst með störfum hennar af áhuga síðan hún tók við ráðuneyti utanríkismála og ekki síður eftir að hún tók við Menntamálaráðuneytinu. Það má flestum vera ljóst að þar fer manneskja sem ber ómælda virðingu fyrir því hlutverki sem hún hefur tekið að sér og sé einhver í vafa um að það sé rétt, ætti viðkomandi að kynna sér störf hennar á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar og er þá loks komið að því sem varð hvati þessara pistils.


Undirritaður þekkir dálítið til Vélskóla Íslands og það er óhætt að fullyrða að sá skóli hefur tórt þrátt fyrir flesta ráðherra menntamála en ekki vegna framlags þeirra til að halda honum gangandi. Steininn tók þó úr þegar frjálshyggju postular afhentu skólann samtökum í atvinnulífinu til eignar og þ.á.m. LÍÚ sem þá var, félagsskap sem það eitt virtist vilja varðandi menntun vélstjóra, að hún sé sem útlátaminnst  og takmörkuðust í tíma og magni. Vissulega eru þó til útgerðarmenn sem skilning hafa á nauðsyn vel menntaðra vélstjóra og vélfræðinga en því miður er fyrrnefnt viðhorf of útbreitt.


Grein menntamálaráðherra í Morgunblaðinu


Grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur.


Lilja ritar grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag (13.3.2021) um það sem verið hefur að gerast varðandi iðnnámið og það kveikti svo sannarlega hugrenningar ritara. Iðn-, verk-, og tækninám hefur verið vanrækt alla tíð eins og áður var á drepið, nema með þeim undantekningum sem þar voru nefndar.

Í grein sinni ,,Handverk þjóðanna” segir Lilja í upphafi ,,Ef hand­verk iðnmenntaðra væri fjar­lægt úr ís­lensku sam­fé­lagi væri tóm­legt um að lit­ast.”  Síðan rekur hún hvernig iðnnám hefur eflst eftir að farið var að vinna eftir nýjum hugmyndum sem hún hefur mótað í sinni tíð í ráðuneytinu. Iðnámið standi nú orðið vel í samanburði við erlent. Hún kemur víða við í grein sinni (sem hér fylgir með í mynd) og ræðir um að ,,önnur stór kerfisbreyting sé til meðferðar á Alþingi”. Breyting sem miðar að því að því að opna leiðir fyrir þau sem lokið hafa iðn- og tækninámi inn í háskólanám. Segja má að það hefði átt að vera búið að opna fyrir þann möguleika fyrir mannsaldri síðan, en um það þýðir ekki að ræða, þjóðin var ung þá. Og stolt var hún þegar hún var búin að afreka það að koma sér upp háskóla.

Annaði má nefna og sem er að verða að veruleika fyrir tilstuðlan núverandi menntamálaráðherra.

Það er að iðnnemar sitja ekki lengur uppi með þá kvöð að þurfa að ráða sig á ,,samning” hjá ,,meistara” til að geta lokið námi sínu, eða eins og segir í grein Lilju:

,,Nem­end­um verður að sjálf­sögðu áfram heim­ilt að leita sér að samn­ingi, í sam­ráði við sinn skóla, en skól­inn mun tryggja að all­ir nem­end­ur hljóti þjálf­un og leiðsögn við raunaðstæður, ým­ist á ein­um vinnustað eða mörg­um og í skól­an­um sjálf­um ef ekki tekst að bjóða hefðbundið vinnustaðanám. Sam­hliða hætt­ir skól­inn að meta nem­end­ur út frá samn­ings­tíma þeirra, og horf­ir fyrst og fremst til skil­greindra hæfniþátta við mat á færni þeirra og hand­bragði.”


Nú eru breyttir tímar og hugsjónir hafa endurnýjast og við erum svo heppin að hafa hugsjónamanneskju í forystu menntamálanna.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...