Hagfræðingur svarar hagfræðingi

 Erna Bjarnadóttir hagfræðingur ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu 19. mars 2021. 

Tilefnið er að Erna hefur rekist á gein sem Valur Þráinsson aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins ritaði í sérblað Fréttablaðsins sem kallast ,,Markaðurinn". Greinin mun hafa birst þann 17. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni „Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi“.

Samkvæmt því sem fram kemur hjá Ernu, mun hagfræðingur Samkeppniseftirlitsins hafa skriplað á skötunni er hann vitnaði í plagg eftir prófessor nokkurn við Exeter háskóla Steve McCorriston. Valur kallar plaggið skýrslu en eftir því sem Erna segir í grein sinni, er ekki um skýrslu að ræða heldur aðeins ,,technical note", rituð fyrir FAO Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og birtist í útgáfuröð sem mun kallast á enskunni ,,The State of Agricultural markets" (og sem er væntanlega hægt að lesa á þessum tengli ef ég hef ekki mistekið mig) eða það sem kalla mætti: Staða landbúnaðarmarkaðanna. 

Eftir því sem fram kemur í grein Ernu er ,,nóta" af þessu tagi ekki þess eðlis að hún sé ,,skoðun" FAO né neitt í þá veru og því ekki ástæða til að draga þá ályktun að það sem sett er fram í plaggi af þessu tagi sé skoðun stofnunarinnar. 

Af þessu virðist vera óhætt að telja, að hagfræðingur Samkeppnisstofnunar hafi annað hvort óviljandi eða viljandi vitnað í plaggið til að afvegaleiða umræðuna um þessi mál hér á landi.

Erna segir síðan í grein sinni: 

,,Eftir að hafa vísað með þessum vafasama hætti til þessarar tækninótu FAO grípur aðalhagfræðingurinn til þess ráðs að fjalla um nokkur dæmi um brot mjólkurafurðastöðva í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi á samkeppnislögum. Nokkra furðu vekur að þessi dæmi eru nú öll frá Norður Evrópu, en ekki frá samkeppnisyfirvöldum í Malaví, Kenýa og Indlandi sem tækninótan fjallaði um. Þessi framsetning aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins er mjög sérstök svo ekki sé meira sagt."

Eins og flestir munu sjá er hér um vafasama tengingu að ræða hjá hagfræðingi Samkeppnisstofnunar.

Það ætti ekki að þurfa að segja það neinum að íslenskt samfélag er ósambærilegt í mörgu tilliti við milljóna og milljónatuga samfélög annarra landa. Erna leggur til að tekið sé mið af Noregi og ESB- löndum og víst er það hægt, en þó má hafa í huga að Noregur er um fimm milljón manna þjóð en Ísland hefur tosast upp í að vera 360.000 manna þjóðfélag.

Hvað sem um þann samanburð má segja, þá er fráleitt að amast við sameiningu smáfyrirtækja í úrvinnslu landbúnaðarafurða. 

Hinn kosturinn er að banna slíkum fyrirtækjum að fara á hausinn þegar tapreksturinn er endanlega búinn að leiða þau í gjaldþrot. Hvernig menn ætla að fylgja eftir banni á gjaldþrotum verður fróðlegt að sjá.

Styrking afurðastöðva með sameiningum rímar hins vegar illa við það verkefni sem landbúnaðarráherra hefur verið að ýta úr vör að undanförnu. Verkefni sem kynnt hefur verið sem heimaslátrunar og heimavinnsla sauðfjárafurða. 

Verði þær hugmyndir að veruleika munu þær augljóslega grafa undan vinnslustöðvunum en ekki styrkja þær.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...