Hún telur umræðuna um tollverndina oft á tíðum hafa verið tormelta og bendir á að:
,,tollar eru lagðir á fleiri vöruflokka en eingöngu innfluttar landbúnaðarvörur, því á meðan skipst er á skoðunum, með eða á móti tollvernd, tínir neytandinn ofan í innkaupakörfuna hjá sér snyrtivörur, hreinlætisvörur, lárperu, kjúkling og kartöflupylsubrauð, jafnvel parmaskinku, – hvaðeina, innlent sem og erlent."
Vigdís leggur að fólki að hugleiða málin og bendir á að tollar eru til þess að hækka verð á innfluttum vörum til að vernda innlenda framleiðslu eða eins og hún segir að tollur sé:
,,lagður á vegna þess að við sem samfélag höfum ákveðið að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði. Við búum við ysta haf og ræktunaraðstæður hér á landi eru gjörólíkar nágrannalöndum okkar í suðri. Þannig yrði samkeppnin aldrei jöfn ef engir væru tollarnir þó að á öllum öðrum sviðum stæðum við nokkuð jafnfætis."
Við að sjá Vigdísi benda á þessa augljósu staðreynd, verður manni enn og aftur hugsað til þess þegar opnað var fyrir tollfrjálsan innflutning á ýmsum landbúnaðarvörum í kjölfar samnings sem formaður ,,landbúnaðarflokksins" Framsóknarflokksins, gerði við Evrópusambandið fyrir sex árum síðan og ekki síður til tolls sem þáverandi landbúnaðarráðherra úr Sjálfstæðisflokknum lagði á kjarnfóður fyrir enn lengri tíma. Þar var gengið bratt fram og tollurinn ákveðinn 200% bara sísvona og af því þáverandi stjórnmálaséníum datt það í hug.
Og þá erum við komin á því hversvegna við eigum mörg erfitt með a treysta orðum íslenskra stjórnmálamanna, þeirra sem segja eitt í dag og annað á morgun; eitt við viðhlægjanda dagsins, en annað við þann sem kankast er á við daginn eftir.
Grein Vigdísar er góð og málefnaleg og gaman hefði verið ef hún hefði birst í nútímalegri miðli en Morgunblaðinu, þar sem einungis er hægt að vísa í tengil sem er aðgengilegur áskrifendum blaðsins, en ekki er nothæfur þeim sem eru það ekki.
Ef til vill geta áhugasamir nálgast efni greinarinnar með því að rýna í skjáskotsmyndina sem er efst í þessum pistli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli