Stefnan í baráttunni við loftslagsvána er tekin fyrir í grein sem birtist í vefritinu ,,Kjarninn" undir yfirskriftinni ,,Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?"
Stefnan hefur verið mótuð þannig af íslenskum stjórnvöldum, að því er líkast sem ætlunin sé að finna þjóðinni leið til að aka út úr vandanum á fölskyldubílnum og svo er að sjá sem litið hafi verið framhjá þeirri mengun sem stafar af flutningabílum sem aka um þjóðvegi landsins.
Í því efni er mönnum nokkur vorkunn, því ekki hefur enn komið fram lausn á því hvernig leysa megi af hólmi hefðbundnar díslilvélar í þeim ökutækjum. Til þess standa þó vonir að lausnin finnist og ef eitthvað er að marka fréttir sem eru að berast styttist í þá lausn.
Að ætla almenningi, að vinna á loftslagsvandanum með því að skipta yfir í rafmagnsbíla er alls ekki sú töfralausn sem af er látið. Rafgeymarnir eru þungir og léttast ekki þó af þeim eyðist raforkan og bílarnir valda auknu álagi á vegina vegna þess að þeir eru þyngri og að þeir léttast ekki við að eyða orkunni.
Rafbílarnir eru því ekki töfralausn í baráttunni við vandann og aðrar leiðir eru betri eins og bent er á í greininni sem hér var vísað til í upphafi.
Stefnan hefur verið að niðurgreiða rafknúna bíla og það hvort sem þeir eru rafknúnir að litlum hluta eða að öllu leyti. Tengiltvinn bílar komast ekki nema nokkra tugi kílómetra á rafgeymunum og eftir að þeir eru tæmdir tekur við hefðbundinn bensínhreyfill; duga einungis sem rafknúnir bílar í stutt snatt, þar sem farnar eru stuttar vegalengdir.
Bifreiðar sem eru búnar þessum búnaði eru samt niðurgreiddar svo sem um sé að ræða raunverulega rafbíla!
Þá er ónefndur annar flötur á þessu máli, en það er sú hliðin sem snýr að almenningi, þ.e. að skattar skuli vera lækkaðir á rafmagnsbílunum, sem veldur því að eftir sitja hinir tekjulágu með brunahreyflabílana. Slíkir bílar eru í endursölu orðnir minna eftirsóttir og seljast því á lægra verði en áður var.
Og ekki nóg með það, því til stendur - komist hugmyndir og draumar núverandi samgönguráðherra í framkvæmd - að innheimta vegtolla vítt og breitt um landið, en þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
Þar birtist reyndar afstaða Framsóknarflokksins til höfuðborgarsvæðisins líkt og svo oft áður hefur gerst. Þeir virðast aldrei hafa náð sátt við, að vinnufólkið, sem áður var í sveitunum, skuli hafa flutt sig ,,á mölina", úr bændaánauðinni fornu og eiga til dæmis erfitt með að skilja að til sé fólk sem kann því illa að flugvélar lendi og taki sig á loft í miðbænum í Reykjavík!
Það er augljóst að vegtollar koma þyngra niður á þeim sem minna hafa handa á milli, auk þess að þeir geta síður fjárfest í rafbílum sem þó eru seldir með skattafsláttum hinum efnameiri til hagræðis.
Raforkan til hleðslu rafbílanna er auk þess sumstaðar í boði án endurgjalds, það er að segja greidd af almenningi með opinberum gjöldum, meðan allt er gert sem unnt er til að halda uppi sem hæstu verði á díselolíu og bensíni.
Auk þess sem dísilolíunni er spillt með íblöndun jurtaolíu unninni úr plöntum, sem ræktaðar eru í Úkraínu og flutt landleiðina til landanna við botn Eystrasalts. Þaðan er jurtaolían síðan flutt sjóleiðina til Íslands til að sulla henni saman við dieselolíu á Íslandi, sem með því á að verða vistvænni!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli