Í Bændablaðinu er grein eftir Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur prófessors við Háskólann á Hólum.
Anna fer yfir og lýsir hvernig kolefni bindst í grasi og rótum þess og segir: ,,Það sem er sérstakt við grös og skyldar plöntur er að þær þróuðust samhliða sérhæfðum grasbítum, eins og jórturdýrunum, aðlöguð beitinni og þrífast betur með beitardýrum en án."
Hún útskýrir hvernig grös og skyldar plöntur þróuðust samhliða grasbítunum og segir að grösin þrífist ,,betur með beitardýrum en án". ástæðuna telur hún vera að rótarkerfi grasplantna sé þeirrar gerðar að þau hafi gott af beitinni.
Hvort að beita skuli hóflega eða ekki kemur ekki fram í greininni, en gera má ráð fyrir að það sé það sem Anna gengur út frá.
Almennt veit bændafólk að beit þarf að vera innan skynsamlegra marka og er fylgst með því að svo sé af Matvælastofnun.
Það nær samt ekki til hálendisbeitar svo séð verði og eins og flestir vita er víða pottur brotinn varðandi beitarálags sauðfjár á hálendi landsins.
Grein Önnu er fróðleg og gott innlegg inn í þá umræðu sem er um meðferð lands sem notað er til beitar.
Annar flötur á þessu máli er beitarstjórnun og ábyrgð búfjáreigenda hvað hana varðar.
Í því Bændablaði sem birtist okkur 22. júlí er nær heilsíðugrein eftir Kristínu Magnúsdóttur lögfræðing, þar sem segir frá því hvernig klásúlu var laumað inn í lög til að fría bændur ábyrgð á búfjárhaldi, einkum sauðkinda.
Frásögnin er ótrúleg en virðist vera sönn og greinir frá því að allir eigendur jarða eru skyldugir til að smala lönd sín og koma fénaði sem þeir finna til eigenda fénaðarins!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli