Farið út að borða



Ég fékk eitt sinn boðsmiða frá fyrirtæki sem hljóðaði upp á kjöt- kvöldmáltíð á veitingastað ekki mjög fjarri. Þar sem við hjónin, höfðum af vissu tilefni, farið út að borða nokkrum vikum áður og fengið okkur lambakjöt sem olli vonbrigðum, þá hugsuðum við okkur að reyna við nautakjöt þegar við nýttum okkur tilboðið frá fyrirtækinu.

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir við borð á veitingastaðnum kom í ljós að tilboðið reyndist vera í einhverskonar samtvinnun við markaðsstofuna Icelandic Lamb (sem var með áberandi auglýsingaskilti á staðnum) og gilti tilboðið eingöngu fyrir lambakjöt.

Við spurðum hvort ekki væri hægt að velja nautakjöt og svo reyndist vera, þó með því skilyrði að við borguðum 2000,- krónur til viðbótar fyrir máltíðina, sem við gerðum til að ekki yrði um bíltúrinn einan að ræða.

Niðurstaðan var ágætismáltíð með ljúfu kjöti, en ekki vonbrigðamáltíð eins og sú með lambakjötinu sem bæði var seigt og leitt; sem veitingamaðurinn hefur samt ekki getað neitt að gert, því það var hvorki ofsteikt né vansteikt.

Eftir situr reynslan og óbragðið af því hvernig hið opinbera beitir ótrúlegustu brögðum til að koma framleiðslu sinni í verð og skaða aðra bændur, því óhætt er að segja að þessi kjötframleiðsla sé að stórum hluta rekin af ríkinu og að sitjandi landbúnaðarráðherra hverju sínni, sé í raun umboðsmaður þjóðarinnar sem stærsti kjötframleiðandi landsins, sem auk þess situr í þeirri einstöku stöðu, að þurfa ekki að taka neina ábyrgð á því hvort markaður er til innanlands eða utanlands fyrir kjötið.

Ef markaður finnst ekki er einfaldlega borgað meira með framleiðslunni úr ríkissjóði og ekki nóg með það: rekin er sérstök stofnun til að koma framleiðslunni í verð innanlands sem utan og heitir sú stofnun ,,Icelandic Lamb". 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...