Vilhjálmur Bjarnason færir hugleiðingar sínar í letur í Morgunblaðinu 16/7/2021 og kemst m.a. svo að orði:
,,Birtingarmynd efnahagsvanda á Íslandi hefur ávallt verið sú sama. Aflabrestur og óábyrgar nafnlaunahækkanir með verðbólgu í kjölfarið leiddi til þess að greiðslujöfnuður við útlönd hrundi. Afleiðingin varð verulegur halli á utanríkisviðskiptum, innflutningur vöru og þjónustu fór langt fram úr útflutningi vöru og þjónustu. Gengisfall krónunnar fylgdi. Efnahagsvandi fyrri alda var fjárfellir, sem leiddi til mannfækkunar af hallærum. Nú skiptir sauðkindin ekki máli enda er sauðfjárbúskapur sem næst 0% af landsframleiðslu."
Ekki munum við eftir fyrri öldum en höfum kannski um þær lesið og ef að er gáð munu það frekar hafa verið manndrápspestir sem leiddu til fækkunar íbúa landsins, eða svo segir í ritinu ,,Af hverju strái". En ætli síðasta setningin í þessari tilvitnun láti ekki nærri, nema að hugsanlega er um mínustölu að ræða og þeir sem við greinina starfa nánast bótaþegar í iðju sinni, en ekki iðjuleysi. Og rifjast þá upp sagan af sauðfjárbóndanum sem reif sig uppúr og niðurúr í fermingarveislu yfir fjárútlátum ríkisins til öryrkja, en var svarað fullum hálsi af einum slíkum, sem var með tölurnar sem í búgreinina renna úr ríkissjóði handbærar og þuldi þær yfir búandkarli sem minnkaði í réttu hlutfalli við það sem upp var þulið og fram talið.
,,Af hverju er ekki allt komið fjandans til
og út fyrir siðmenningu?" heitir grein Vilhjálms og ekki vitum við svör við því en munum eftir að hafa heyrt af svokölluðu tregðulögmáli sem mun geta ráðið miklu. Eftir að hafa farið yfir greiðsluvanda, gengisfellingar og fleira í þeim dúr snýr höfundur sér að stöðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka og vandast nú málið fyrir okkur sem ekki erum viðskiptafróð. Hið helga vé í Svörtuloftum hefur okkur verið sem ónáttúrulegt ónáttúruvætti sem ýmist getur prentað peninga úr engu og á ekkert, eða látið þá gufa snarleg upp og hverfa ef stjórnendum sýnist svo. Á þessar sviftingar eru síðan reiknaðir vextir og vextir ofan á þá, einföldum almúganum til að greiða ef afgangur skyldi verða af launum eftir kaup á nauðþurftum og jafnvel þó ekkert sér til eftir þau kaup.
Spurningunni getum við sem sagt ekki svarað!
Vilhjálmur endar þennan þátt hugleiðinganna á eftirfarandi:
,,Eftir fall íslensku bankanna 2008
kom upp undarleg staða. Þrotabú
hinna erlendu banka áttu gífurlegar
eignir í samanburði við íslenska
landsframleiðslu.
Þessar eignir samanstóðu af:
- erlendum eignum utan íslenskrar lögsögu, sem höfðu engin
áhrif á íslenskan greiðslujöfnuð
- innlendum eignum, meðal annars kröfum á íslenska ríkið
- eignarhlutum í þeim bönkum,
sem tóku yfir innlenda starfsemi
hinna föllnu banka.
Hinar erlendu eignir voru í lítilli
ávöxtun á erlendum bankareikningum eða erlendum verðbréfasjóðum. Slíkt var kröfuhöfum lítt að
skapi.
Og nú snýst allt í hringi í höfði hins fáfróða lesanda!
Næsti millikafli ber yfirskriftina: ,,Óleysanlegur vandi" og miðað við það sem áður er fram komið skiljum við það og áttum ekki von á öðru!
Í lokin fer Vilhjálmur yfir ,,lausina" og klikkir síðan út með að ,,Íslendingar eru lögflóknir" og þá erum við með á nótunum, því lögflóknir erum við og höfum ætíð verið.
Því verður ekki mótmælt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli