Þórður Snær Júlíusson fjallar meðal annars um ,,pólitiskan ómöguleika" (Bjarna Benediktssonar) og ,,pólitískan möguleika" (flestra annarra pólitíkusa) í leiðara Kjarnans og þar segir meðal annars:
,,Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst, [sögðust ] 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana. Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, sagðist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent voru ánægð með hana. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls sögðust 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð."
Og við vitum að auk Sjálfstæðisflokksins er Framsóknarflokkurinn líka ánægður með kvótakerfi í sjávarútvegi, kvótakerfi í sauðfjárrækt, kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og frá þessum tveimur stjórnmálaflokkum, voru einnig sýndir alvarlegir tilburðir til að kvótasetja fleiri greinar landbúnaðarins á sínum tíma.
Það tókst að nokkru hluta og má þar til nefna kvótakerfi í eggjaframleiðslu, í framleiðslu á alifuglaköti og gott ef svínakjötið flaut ekki með í því pólitíska skolvatni, sem kallað var ,endurgreiðsluréttur á kjarnfóðurgjaldi' (eða eitthvað í þá veru) og sem í upphafi var sett í 200% aðeins - af ráðherra Sjálfstæðisflokksins!
Og neytendur áttu að geiða reikninginn þegar dæmið yrði gert upp, væru þeir svo óforskammaðir að vilja ekki sætta sig við neyslu annarra landbúnaðarafurða en þeirra sem skatturinn féll á, - það er einkum þeirra sem til verða við beit upp um fjöll og firnindi.
Kúabændur áttu líka að sitja uppi með fyrrnefnt gjald á kornfóður, væru þeir svo djarfir að nota slíkt fóður, en á þessum tíma trúðu þeir sem réðu ríkjum í landbúnaði og stjórnmálum því, að ef gras væri pressað saman með ógnar krafti í verksmiðjum, þá breyttist það í einhverskonar íslenska útgáfu af kjarnfóðri líku því sem notað er í ,,útlöndum".
Það tók síðan þó nokkurn tíma fyrir þessa menn að átta sig á því að gras væri og yrði gras, hve mikið sem því væri þjappað saman og nú mun þessum æfingum vera lokið, í bili að minnsta kosti.
Sem betur fer tókst að hnekkjar þeirri fléttu sem undin var af svartnættisöflum úr bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem fyrir þessu stóðu og því eru þessar greinar ,,frjálsar" orðnar og framleiðsla þeirra stýrist af því sem markaðurinn tekur við og því hvað neytendur vilja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli