Ole Anton Bieltvedt ritar grein í Morgunblaðið og spyr hvort einhver telji að Þorsteinn Pálsson sé haldinn ,,þrælslund"?
Tilefni spurningar Ole, er að 5. frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjödæmi Arnar Þór Jónsson, skrifaði grein sem hann kallar ,,Höfum það sem sannara reynist" í Morgunblaðið 10. júlí og ritaði þar m.a.:
,,[...] að Þorsteinn telji rétt að líkja lágmarkskröfum um þinglega meðferð, hagsmunagæslu og lýðræðislega rót laga við einhvers konar „uppákomur“ þá ber það vott um stjórnlyndi og valdboðsstefnu annars vegar og þrælslund hins vegar, en ekki það „frjálslyndi og lýðræði“ sem flokkur Þorsteins vill þó kenna sig við í orði kveðnu."
Málið snýst um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu og/eða hugsanlega frekari samvinnu við það.
Hver ástæða afstöðu andstæðinga nánari tengsla við ESB er, verður ekki fullyrt hér. En í hugann reikar minning um skopmynd sem teiknuð var af kunnum forystumönnum þeirrar andstöðu, þar sem þeir voru sýndir húkandi í helli á öræfum uppi og áttu lítið annað eftir, en að renna steini fyrir opið til að hindra hugsanlega strauma frá því vondslega bandalagi sem þeir telja Evrópusambandið vera!
Ole Anton fer vel yfir hvernig lýðræðisfyrirkomulagið er í Evrópusambandinu og það verður að segjast að ótrúlegt er, ef frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki upp á annað að bjóða, en að halda því fram að virtir og vandaðir pistlahöfundar á borð við Þorstein Pálsson séu haldnir stjórnlyndi, þrælslund og valdboðsstefnu.
Sé mark takandi á þessum málflutningi mótast afstaða Sjálfstæðisflokksins af einhverju öðru en málefnalegum rökum og jafnvel ekki af hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli