Efnahagslegur stöðugleiki valinna hópa

Í Fréttablaðinu (9.9.2021) er grein eftir Þorstein Pálsson þar sem farið er yfir stöðu Íslands eftir COVIT-19 samanborið við nágrannalönd.

Þar segir að ,,viðreisn efnahagslífsins gengur mun betur í öðrum Evrópuríkjum en hér á landi" og vitnar Þorsteinn þar í orð Más Guðmundssonar fyrrverandi bankastjóra Seðlabankans, sem byggir samanburð sinn á gögnum frá Hagstofu Íslands og OECD.

Þessu er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekki sammála eftir því sem segir í frétt blaðsins og telur hann ,,að umfjöllun Þorsteins gefi ranga mynd af þróun mála".

Samkvæmt Bjarna er um bókhaldslegar færslur að ræða þ.e. þjónustuútflutning ,,á vegum lyfjafyrirtækja" sem ,,skekki myndina og hafi lítið sem ekkert með innlend efnahagsumsvif að gera" og að ef miðað sé við t.d. árið í heild sé ,,þróunin sambærileg eða betri en í öðrum Evrópuríkjum".

 Og bætir því við að ,,viðsnúningur sé framundan í efnahagslífinu" og að ,,okkur hefur gengið einstaklega vel að takast á við efnahagsáfallið" og að innlend eftirspurn hafi dregist minna saman en ,,alls staðar í Evrópu" að undanskilinni Danmörku og að þetta sé hinn eini rétti mælikvarði til að miða við og skipti mestu máli fyrir heimilin í landinu.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um þessi mál segir að Þorsteinn byggi greiningu sína á erindi Más Guðmundssonar en þar segir:

 ,,Reynslan hér á landi sem og rannsóknir annars staðar, sýni að faraldurinn hafi áhrif á efnahagsumsvif óháð sóttvörnum. Reynslan sýni líka að vel útfærðar sóttvarnir hafi neikvæð skammtímaáhrif á efnahagsumsvif en geti haft jákvæð áhrif til lengri tíma."

 Þorsteinn bendir jafnframt á að:

 „Ísland væri ekki eftirbátur í viðspyrnu Evrópuþjóða ef innistæða væri fyrir staðhæfingum um efnahagslegan stöðugleika.“

_ _ _

 Við sem búum á Íslandi vitum að verulega skortir á hinn margumrædda efnahagslega stöðugleika. Það góða er að formaður Sjálfstæðisflokksins telur sig vera með stöðugleikann í sinni hendi og vel getur verið að svo sé: að hann sé í annarri hvorri hendi Bjarna. Sé það svo, væri gott ef hann varpaði honum inn í hagkerfið, þjóðinni allri til að njóta!

Annars staðar en sem hugarfóstur er hann ekki, það vitum við sem í landinu búum og sem um er rætt, það er Íslandi, sem þekkt er fyrir allt annað en efnahagslegan stöðugleika.

Efnahagslegur stöðugleiki fyrir heila þjóð verður aldrei til með því nöturlega hagkerfi sem komið hefur verið hér upp og notaðst við.

Hvort heldur um er að ræða aðganginn að fiskveiðiauðlindinni, eða hið sérstaka stýrikerfi að neytendum landbúnaðarvara sem komið hefur verið upp í landbúnaðinum, þar sem gefinn er út kvóti til aðgangs að pyngjum neytenda eins og þeir séu auðlind tveggja búgreina.

Sauðfjárræktarinnar sem rekin er sem i verktöku hjá ríkissjóði og að stórum hluta til útflutnings afurðanna á hrakvirði að teknu tilliti til þess kostnaðar sem að baki býr. 

Hin greinin er nautgriparæktin. Þar var búinn til auður einnar kynslóðar með kvótaúthlutun til þeirra sem stunduðu mjólkurframleiðslu. Afleiðingin varð hækkun á verðmæti jarða þeirra sem í framleiðslunni voru. Verðmæti sem þeir geta síðan leyst út er þeir hverfa úr rekstrinum vegna aldurs eða af öðrum ástæðum.

Ný kynslóð situr síðan uppi með baggann og þeir sem voru að koma sér fyrir, en ekki komnir með fullan rekstur þegar gjörningurinn var gerður, sátu á sínum tíma uppi með jarðir sem voru skyndilega orðnar lítils virði.

Ekki vegna lélegra landkosta, fjarlægðar frá mörkuðum né annars í þá veru, heldur vegna reglna sem komið var á af þeim sem um véluðu, sitjandi við borðið allt um kring og undir og ofaná.

,,Efnahagslegur stöðugleiki" í landinu okkar er allt of oft, stöðugleiki valinna og útvaldra og það þarf mikið til að einstaklingar nái því að rífa sig út úr hnappheldunni sem hinn efnahagslegi stöðugleiki forréttindahópsins er byggður á: baktjaldamakki og undirferli í bland við takmarkaðan heiðarleika.

Þó er það til og hefur gerst en það þarf mikið til.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...