Síðan segir að breytingarnar eigi að gera til að bæta
,,aðstöðu“ fyrir nautgripi og skýra orðalag. Þegar lesið er lengra læðist að
grunur um að orðalagið eins og það er núna geti verið óskýrt og verði jafnvel
enn óskýrara að breytingunum loknum.
Tekið er fram að það var ,,Matvælastofnun sem óskaði eftir
breytingunum á reglugerðinni“ og að hinar nýju tillögur séu ,,byggðar á reynslu
af framkvæmd eftirlits Matvælastofnunar og [þeirra] bænda sem starfa á
grundvelli reglugerðarinnar“.
Og að m.a. að sjö ára gamalli reglugerð verður breytt til að ná þessu fram: ,,Hins vegar leggur stofnunin til að að ekki sé þörf á að í […] fjósum sem ekki [eru] lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum, sé þess gætt að nægilegt rými sé fyrir þær.“
Hvernig það fer saman að rými sé lítið fyrir kýrnar til að
bera kálfum í básum og að básarnir séu samt nægjanlega rúmir fyrir kýrnar til
að vera á, kemur ekki fram. En til útskýringar man gamall kúabóndi ekki til þess
að kýrnar hafi gildnað svo um munaði rétt á meðan á burðinum stóð, vel getur samt verið að það hafi gerst án þess að eftir því hafi verið tekið!
Í greininni er svo að sjá sem eftirfarandi sé haft orðrétt
eftir Matvælastofnun, þ.e.a.s. það sem er skáletrað hér að neðan:
,,Matvælastofnun metur það sem svo að ekki sé þörf á að í
slíkum fjósum sem ekki séu lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á
básunum, sé þess gætt að nægilegt rými sé fyrir þær. Hins vegar leggur
stofnunin til að að ekki sé þörf á að í slíkum fjósum sem ekki séu
lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum, sé þess gætt að
nægilegt rými sé fyrir þær.“
(Til skýringar: Við höldum að ,,slík fjós“ séu gömlu
básafjósin, en vel getur verið að sá sem þetta ritar hafi ruglast í þessum
mögnuðu skýringum.)
Síðan segir:
„Það er lagt til í
því skyni að skýra nánar hvaða fjós eru undanskilin frá þeirri skyldu að hafa
burðarstíu. Í fyrri reglugerð frá árinu 2002 var krafa um burðarstíu í
lausagöngufjósum. Matvælastofnun mat það svo að ekki væri ásættanlegt að
lausagöngufjós byggð fyrir gildistöku þeirrar reglugerðar hafi ekki burðarstíu.
Því er lagt til að öll lausagöngufjós sem byggð eru fyrir gildistöku
reglugerðarinnar hafi frest til ársloka 2034 til að uppfylla skilyrði um
legubása. Þetta er hugsað sem aðlögunartími fyrir eldri lausagöngufjós,“
Að lestri loknum er
gott að leggjast fyrst í innhverfa íhugun og reyna síðan aftur.
Þá kemur fram, að frá
,,15. maí til 15. október ár hvert“ skuli nautgripir njóta þess
að slíta gras af rót, væntanlega vegna þess, að á Matvælastofnun hafi
menn komist að því að það veiti nautgripunum andlega fró sem muni endast þeim
fram að næstu útigöngu.
Ýmsar fleiri nauðsynlegar
ábendingar koma fram og t.d. er bent á að vistun nautgripa í gerði sé ekki sama
og beit á tún og haga og tekið er fram að tryggja skuli gripunum skjól fyrir
veðri og vindum. Öryggið er sem sagt haft í fyrirrúmi!
Útibeitin er samt ekki með öllu gallalaus í íslenskri náttúru og á stofnuninni hafa menn veitt
því athygli.
Bændasamtök Íslands
hafa að vonum ýmislegt að segja um þennan regluásetning og leggja m.a. til að
miðað sé við reglur sem gilda um útigang hrossa og benda á að líta þurfi til ,,rannsókna þegar
lágmarkskröfur eru skilgreindar í reglugerðum og að horfa þurfi til ,,fóðrunar,
kyns og aðstæðna frekar en tegundar skjóls eingöngu“.
Niðurstaðan er að
nautgripum þyki gras sem fast er í annan endann betra en það sem búið er að
verka fyrir þá.
Þá finnst þeim þ.e. nautgripunum, gott að vera úti svo fremi að veðrið sé gott og að hægt sé að komast í skjól
ef veðrið er ekki gott!
Og nú vitum við hvernig nautgripir hugsa, hvað þeim þykir gott og hvað vont, en verst er að enginn hefur kennt þeim að tala og skrifa.
Vel getur samt verið að einhver hafi komist inn í hugarheim nautgripa og hafi í framhaldinu sest niður og skrifað það sem hér er um ritað.
Hvort það sé líklegt er svo annað mál, en við erum mun
fróðari að lestri loknum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli