Bændablaðið kom út 12. ágúst og á forsíðunni sjáum við frétt af fólki sem rekur veitingastað í kúluhúsi og minnir að sama hús og sama fólk hafi verið sýnt og fjallað um í Sjónvarpi allra landsmanna fyrir nokkrum dögum.
Á forsíðunni er því líka slegið upp að verð á nautakjöti
hafi hækkað til neytenda en lækkað til framleiðenda. Ástæðan mun vera aukinn
innflutningur í kjölfar samninga við ESB sem sérlegur vinur íslensks
landbúnaðar formaður Framsóknarflokksins hafði forgöngu um að gerður var árið
2015 og sem tók að fullu gildi 2018.
Margrét Gísladóttir tengiliður kúabænda hjá Bændasamtökunum ,,minnir
á að forsvarsmenn bænda hafi ítrekað bent á alvarleg áhrif tollasamningsins við
ESB á íslenska nautakjöts- og landbúnaðarframleiðslu, enda fól samningurinn í
sér tæplega sjöföldun á tollkvótum fyrir innflutt nautakjöt.“
Það er gott að eiga góða að er sagt, en augljóslega er ekki
gott að eiga að landbúnaðarráðherra frá Framsóknarflokknum, séu hagsmunir bænda
hafðir i huga. Þetta hefur verið lengi vitað en kemur sífellt betur í ljós.
En það er sótt að bændum á fleiri vígstöðvum, því á blaðsíðu
tvö er greint frá því að Pósturinn hafi hækkað verðskrá á dreifingu út um land
á Bændablaðinu og væntanlega öðrum blöðum líka um 90% og styttist þá trúlega í
að póstþjónusta landsins verði rekin með ásættanlegum hagnaði, en um þetta er
þrasað og ekki gott að segja hvernig fer.
Á sömu baðsíðu er einnig rakin sagan endalausa um Hótel Sögu,
sem orðin er að langri framhaldssögu, en hús það var í upphafi byggt m.a. fyrir
peninga sem kreistir voru undan nöglum vinnulúins bændafólks, sem sumt hvert
vissi varla hvað hótel var. Það var gert með lögum frá Alþingi sem þáverandi
velútsprungnir bændaforingjar þess tíma fengu samþykkt undir því yfirskini að þáverandi
Stéttarsamband bænda vantaði húsnæði. Þetta tveggja hektara húsferlíki er nú
sem þungur gjaldþrota klafi á núverandi Bændasamtökum.
Í blaðinu er frétt um að nautgripum skuli tryggður aðgangur
að sumarbeit á grasi gróið land en ekki kemur fram að nautin hafi verið spurð
að því hvort þeim líki betur við gras sem fast er í annan endann, eða gras sem
búið er að gera aðgengilegt með því að breyta því í hey. Við mennirnir viljum
fá matinn aðgengilegan á borðið og njóta hans í huggulegheitum, lausir við íslenskt
rok og rigningu, en á Matvælastofnun hafa til þess gerðir aðilar fundið það út
að nautum þyki meiri nautn í því að berjast fyrir mat sínum.
Greint er frá væntanlegri 5,9% hækkun á kindakjöti á því
hausti sem senn gengur í garð. Hversvegna hækkunin er ekki 6% vitum við ekki!
Spurt er í leiðara hvort ,,allt þurfi að koma frá Brussel“?,
en þaðan komi í sífellu kröfur um tollfrjálsan innflutning á ,,færibandi“ og að
kröfurnar ,,eigi það flestar sameiginlegt að auka framleiðslukostnað“.
Matvælastofnun er ekki í Brussel heldur á Selfossi og Selfoss er ekki heldur í
Brussel, svo við höfum tekið eftir, en kröfur um aukinn framleiðslukostnað á
nautakjöti koma þaðan.
Spurt er í leiðaranum ,,hvort frambjóðendur muni standa með
landbúnaði?“. Spurningunni er fljótsvarað, því það munu þeir gera fram að kosningum,
en eftir þær breytast viðhorfin vegna ófyrirséðra hluta, mála og kringumstæðna
sem ekki sáust fyrir og allir virða síðan þau sjónarmið, þó að teknu tilliti
til þess að þau komi frá flokknum sem studdur var og síðan mun lífið ganga sinn
gang.
Smalahundafélagið mun halda sína árlegu keppni. Smalað
verður kindum í gerði að við teljum, en að hausti verður kjósendum smalað á
kjörstað. Verðlaun verða veitt fyrir góða smalahunda en ekki er vitað til að
verðlaun séu veitt kosningasmölum fyrir smölun, en þó er það ekki ólíklegt.
Í blaðinu er sagt frá því að von sé á borgfirskum bjór og
fjölgar í sífellu tegundum þessa áður forboðna drykkjar. Við höfum leitað með
logandi ljósi að óáfengum drykkjarhæfum bjór að undanförnu en ekki fundið.
Leitinni er ekki hætt og tírir enn á voninni!
Grátgrein mikil er í blaðinu um hag sauðfjárbænda frá
framkvæmdastjóra landssamtaka þeirra. Hann færir fram ,,rök“ fyrir því að hækka
þurfi verð á kindakjöti verulega til að tryggja afkomu þeirra. Búgreinin er
rekin í verktöku hjá ríkissjóði og við hann er að eiga og gera má ráð fyrir að
auðsótt verði að fá úrlausn mála hvað þetta varðar sem endranær. Þar hefur
verið losað um opið á pyngjunni nánast samkvæmt pöntun þegar hinir einu sönnu
bændur landsins telja við þurfa og er skemmst að minnast milljarðsins sem
veittur var vegna COVIT-19. Sannaðist þar hver sér um sína þegar á þarf að
halda og víst er að ekki verður lát á, enda búgreinin þörf og nauðsynleg til að
halda niðri óþörfum gróðri í landinu, bæði grasi og trjáplöntum samkvæmt
vísindalegum rannsóknum sem greint hefur verið frá. Þá má ekki gleyma öllum
þeim útlendingum sem illa þrífast ef þeir fá ekki sitt íslenska lambakjöt við
vægu verði.
Á blaðsíðu 41 í blaðinu er í aðsendri grein stungið upp á að
ríkið greiði sauðfjárbændum peninga fyrir að rækta skóg í stað kinda. (Greinin
kemur á eftir nokkrum öðrum sem ritaðar eru, aðsendar og birtar, til að sannfæra saklaust fólk um að Miðflokkurinn
muni bjarga, ekki bara Sigmundi og félögum, heldur landinu öllu, en þær nenntum
við illa að lesa.) Ýmis ljón eru í vegi þessarar hugmyndar, svo sem að tré láta
ekki elta sig út um fjöll og firnindi og vonlaust er að smala þeim að hausti,
auk þess sem ekki er hægt að hafa af þeim tryggingatekjur hlaupi þau í veg
fyrir bíla. En hugmyndin er samt góð!
Við förum nú hratt yfir sögu í lestri blaðsins en hnjótum þó
um auglýsingu þar sem óskað er eftir konu til að sjá um lítið heimili í sveit.
Tekið er fram að konan eigi að vera a.m.k. 60 ára gömul og mun nú vaxa hagur
eldri kvenna og er það vel!
Líkur hér þessari yfirferð um merkilegt rit í íslenskri
blaðaflóru með þökk fyrir fróðleikinn og skemmtunina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli