,,Ný" ríkisstjórn og umhverfismálin

 

,,Ný" ríkisstjórn og umhverfismálin

2021-11-30 (3)Í Morgunblaðinu (30.11.2021) eru tvær greinar sem vekja athygli. Önnur heitir ,,Kolsvart fótspor rafbílsins" og geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast hana á slóðinni en aðrir á meðfylgjandi mynd.

Í greininni sem Sigurbjörn Svavarsson ritar, koma fram margar ábendingar varðandi svokallaða rafbílavæðingu, sem látið er í veðri vaka að muni eyða kolefnisspori ökutækja.

Greinarhöfundur kemur fram með áhugaverðar ábendingar og víst er að ekki er allt sem sýnist, því til smíði rafbíls þarf umtalsvert magn af fágætum málmum.

Það þarf nikkel, mangan og kóbalt svo dæmi sé tekið, auk umtalsverðs magns af kopar og eftirsóknin er slík að fyrirhugað er að sækja í málmgrýti á 4500 metra dýpi í Kyrrahafinu eftir því sem fram kemur í greininni.

Hvernig vinstrigræningjar allra flokka og heimsbyggðarinnar ætla að svara fyrir þessa taumlausu sóun á auðlindum Jarðarinnar er ekki gott að segja, en trúlega er treyst á að fólk framtíðarinnar finni lausn á vandamálinu þegar þar að kemur.

Koma tímar koma ráð er stundum sagt, þegar menn vilja ekki skemma fögnuð nútíðarinnar með vandamálaumræðu eða raunsæi og mun vera sótt til þess þegar t.d. danir vilja vera léttir á því og fresta því að taka á vandamálum líðandi stundar.

Það er viðhorfið, en það jákvæða er að til eru þeir sem hugsa lengra og hvernig hægt sé að framleiða farartæki sem minna menga með tilveru sinni, þ.e.a.s. ef þau eru notuð. Torveldara mun verða að tryggja mengunarlaust framleiðsluferli í efni og smíði!

Þeir sem hafa fyrir því að lesa grein Sigurbjörns og ýmsar aðrar staðreyndir sem fyrir liggja varðandi þessi mál hljóta að sjá að lausnirnar á loftlagsmengun og annarri mengun sem af athafnasemi okkar mannanna leiðir eru alls ekki auðveldar né auðfundnar.

Það er freistandi að gera bara eitthvað frekar en ekkert, en enn meira freistandi er að stíga yfirveguð skref og gera það sem rétt er.

Við munum kosningaslagorð Framsóknarflokksins í alþingiskosningunum síðastliðnum. Þar var farið fram með það að best væri bara að kjósa Framsókn; setja x-ið við B og vera ekkert að eyða tímanum í að hugsa.

Það er dálítið þannig sem gengið er fram varðandi aðgerðir í loftslagsmálunum: Bara gera eitthvað!

Rafmagnsbíla, rafmagnsskip og rafmagnsflugvélar, svo vitnað sé til nokkurra ára gamals viðtals við formann þess sama flokks fyrir nokkrum árum. Og þar talaði hann meira að segja um að Ísland yrði í fararbroddi í þróun slíkra tóla!

Eitt sinn lýstum við upp með grút. Seinna komu olíulampar og að lokum ljóstvistar (led- díóður) og alls ekki er útilokað að orkumálin eigi eftir að þróast á þann hátt sem við sjáum ekki fyrir og vel getur verið að íslenskt tæknifólk eigi eftir að koma að þróun farartækja framtíðarinnar.

Við ættum samt að hreykja okkur ekki of hátt, því líklegast er að grunnþekkingin komi að utan eins og áður.

2021-11-30 (2)En aftur að rafbílavæðingunni.

Á öðrum stað í Morgunblaðinu ritar Þórunn Sveinbjarnardóttir grein, ,,Ylvolgur og óljós sáttmáli" sem ekki er útilokað að áskrifendur Morgunblaðsins geti nálgast á tenglinum hér að ofan.

Þórunn er athugul og greinin er augljóslega skrifuð í tilefni af endurreistu stjórnarsamstarfi þriggja flokka, þeirra sömu og áður sátu.

Við vitum að alþingi það sem nú situr, er með umdeilt umboð og þar af leiðir að svo er einnig um ríkisstjórnina. Meirihlutinn sem situr á þingi og sem styður ríkisstjórnina er rúmur, en er hann réttur, þ.e. rétt kosinn? Það er vafinn eins og alkunnugt er og kemur rafbílavæðingu ekki við!

Þórunn hefur áhyggjur af því að sjálfstæðismenn séu komnir í Umhverfisráðuneytið og segir sem svo, að sjálfstæðismenn sjái aðeins leið eina færa ,,...í baráttunni við hamfarahlýnun, að stuðla að orkuskiptum í samgöngum." og segir síðan að vissulega þurfi [þau orkuskipt] að eiga sér stað, en tekur jafnframt fram að fleira þurfi að koma til varðandi lausn á svo flóknu vandamáli sem um sé að ræða, t.d. ,,hágæða almenningssamgöngur" og bendir í því sambandi á það sem dags daglega er kallað ,,Borgarlína", varðandi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Lausn orkuvandans er ekki einföld, en hún mun finnast og fyrir litla ríkið Ísland er málið ekki stórt. Þegar er farið að grilla í tækni til að knýja ökutæki á vistvænni orku og þó það sé fyrst og fremst ætlað fyrir stærri ökutæki, er fátt því til fyrirstöðu að sú tækni geti dugað fyrir fjölskyldubílana. Sama tækni er í reynslu í skipum og svo langt aftur sem á dögum gömlu Sovétríkjanna voru þar gerðar tilraunir með flugvélar sem nýttu sér þá tækni.

Við ættum því ekki að gefa upp vonina að óhugsuðu máli!  

Landbúnaðarmál og sannleiksmeðferð

Sum mál sem afgreidd hafa verið af meirihluta á Alþingi eru þess eðlis að á mörkum er, hvort hægt er að fjalla um þær á vitrænan hátt og ef til vill tekst það ekki hér!

Eitt þeirra mála sem svo er um er svokallaður Búvörusamningur sem gerður var við ríkisvaldið af Bændasamtökunum og síðan samþykktur á alþingi, en ef lesnar eru 12. og 13. grein þess samnings verður ljóst að sauðfjárræktin er stunduð sem afbrigði af verktöku og að það er íslenska ríkið sem er verktakinn!

Reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er eitt atriði samningsins. Kunnara en frá þurfi að segja er, að reglugerðin er innantómt plagg og minnisstætt er undirrituðum, þegar hann spurði sauðfjárbónda um hvað í svokallaðri ,,gæðastýringu" fælist, þá svaraði hann því til að það væri: ,,að haka við í reit á þar til gerðu plaggi".

Tilefni umræðunnar sem komin er af stað er að á Vísindavefnum er samantekt og kostnaðarmat á afleiðingum fyrrnefnds búvörusamnings, þess sem lítil samstaða var um á Alþingi og sem margir þingmenn komu sér hjá að ræða, þegar hann var þar til umfjöllunar og síðan samþykktur af þeim sem viðstaddir voru.

Á Vísindavefnum er lagt mat á kostnað samfélagsins af samningsgjörðinni og niðurstaðan er að kostnaður ríkissjóðs sé nálægt því að vera 30 milljarðar króna á ári hverju og fram kemur að samningurinn gildi til tíu ára og sé rétt metið er kostnaður samfélagsins því á samningstímanum 300 milljarðar.

Formaður Bændasamtakanna ritar andsvar í Kjarnann við því sem fram kemur í samantekt Vísindavefsins og nIðurstaða hans er að ,,samhengi skorti í svari háskólaprófessors" þess sem tók saman afleiðingar samningsins á pyngju ríkissjóðs. Í andsvari formanns Bændasamtakanna kemur í inngangi fram að:

,,Ýmis­legt er hægt að gagn­rýna við hvernig höf­undur svars­ins, Þórólfur Matth­í­as­son, túlk­aði útreikn­inga og for­sendur Efna­hags og fram­fara­stofn­unar á stuðn­ingi við land­bún­að. Út í þá sálma verður þó ekki farið hér. Heldur verður farið yfir sam­hengi þessa stuðn­ings." 

Formaðurinn bendir á: ,,að það eru tvær stoðir opin­bers stuðn­ings við land­búnað á Íslandi. Ann­ars vegar eru það búvöru­samn­ing­arn­ir, sem segja til um hvernig beinum útgjöldum rík­is­ins er varið og svo er það toll­vernd­in."

Grein sinni lýkur formaður Bændasamtakanna svo:

,,En til þess að upp­lýst umræða geti átt sér stað þarf að setja hlut­ina í sam­hengi."
Og virðist sem honum finnst á það skorta í samantekt þess sem vann verkið fyrir Vísindavefinn.

Formaður Bændasamtakanna fjallar um málið sem íslenskur landbúnaður sé eitthvað eitt.
Hann veit þó mæta vel að svo er ekki. Íslenskur landbúnaður er fjölbreyttur og atvinnuvegurinn snýst svo sannarlega um margt fleira en sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðrækt og þó greina megi þess vott að menn hafi áttað sig á þessari staðreynd er örlitlu ákvæði var komið inn í búvörusamningana varðandi svínarækt, þá tekur samningurinn alls ekki yfir allt það sem flokka má sem landbúnað.
Auk þessara svokölluðu búvörusamninga var gerður sérstakur tollasamningur við Evrópusambandið árið 2015 sem öðlaðist gildi árið 2018 og gekk að mestu út á viðskipti með sauðfjárafurðir til ESB- landanna í skiptum fyrir heimildir til að flytja inn til Íslands alifuglakjöt, nautakjöt, svínakjöti og osta inn til Íslands frá Evrópusambandslöndunum. 

Þar sem farið er yfir forsendur og aðdraganda tollasamningsins er því haldið fram að: ,,Í júní 2011 óskaði Svínaræktarfélag Íslands eftir því við ráðuneytið að greininni  yrði tryggður útflutningskvóti til ESB eins og fram kemur í tillögu félagsins til Búnaðarþings 2011."

Hér mun vera farið frjálslega með, því hið rétta er að þáverandi formaður þess félags lét orð falla á þá vegu að ef verið væri að semja um viðskipti af þessu tagi, þá væri lágmarkið að samið væri um svínakjöt á móti svínakjöti en ekki svínakjöt frá ESB inn til Íslands fyrir lambakjöt frá Íslandi til ESB.

Hið sama gildir þar sem því er haldið fram að: ,,Í júní 2013 lýstu einstakir alifuglaframleiðendur því yfir á fundi með ráðherra að ef samið yrði um stækkun á kvótum fyrir kjúkling væri nauðsynlegt að Ísland fengi gagnkvæmni."

Það er óhætt að halda því fram að þeir sem snúa út úr orðum manna eins og þarna er gert séu illa traustsins verðir og þó hægt sé á góðum degi að sýna því skilning að íslenska Ríkið sé í vandræðum með sauðfjárframleiðslu sína, þá er ekki hægt að ætlast til að því sé sýndur skilningur þegar snúið er út úr og töluð orð sett í annan búning, líkt og hér er gert.

Sá sem þetta ritar var staddur úti á Spáni í hvíldar og skemmtiferð með fólki sínu þegar samningurinn fór að spyrjast út og mun seint gleyma þeim óróa sem greip um sig í röðum kjúklingabænda þegar það gerðist.
Menn áttuðu sig strax á því, að verið var að fórna hagsmunum þeirra fyrir hagsmuni sauðfjárræktarinnar. Sama kom síðan í ljós varðandi aðrar búgreinar svo sem nautgriparæktina, þegar mönnum varð ljóst að til stóð að skipta á heimildum fyrir kindakjöt frá Íslandi fyrir nautakjöt inn til Íslands.

Svör þáverandi landbúnaðarráðherra, núverandi formanns Framsóknarflokksins og samgönguráðherra voru á fundi um málið á Hótel Selfossi, að þeir (þ.e. nautgripabændur) yrðu bara að standa sig! (Eða orðrétt: ,,Þið verðið bara að standa ykkur!")

Hafi þeir og aðrir bændur sem fórnað var á altari sauðfjárræktarinnar við gildistöku þessa samnings staðið sig, þá var það þrátt fyrir samninginn, en ekki vegna hans og sú framistaða verður seint þökkuð landbúnaðarráðherra þeim sem sem var árið 2015 né meðreiðarsveinum hans við þessa samningsgerð.

 Um samninginn var engin samstaða meðal bænda heldur þvert á móti. Samningurinn var sem stunga í bak þeirra sem fórnað var og í ljós kom að hann þjónaði ekki heldur þeim tilgangi að leysa vanda sauðfjárbænda, enda enginn raunverulegur skortur á lambakjöti á mörkuðum Evrópusambandsins.

Augljóst var samt að tilgangur samningsins var að hygla ríkisreknu búgreininni, sauðfjárræktinni, á kostnað annarra búgreina og trúlega hafa þeir sem stóðu að baki samningamönnum íslenska Ríkisins, ekki haft skilning né yfirsýn til að átta sig á að ,,vandi" offramleiðslu á kindakjöti yrði ekki leystur með því að ,,selja" kindakjöt inn á markað sem ekki var til.

Orðin sem lesa má í fyrstu línum samningsins: 
,,Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar." eru hreint rugl, en lýsa því vel að skilningur og yfirsýn yfir landbúnaðarmál var (og er?) lítill sem enginn.

Hvort þar hefur orðið breyting á verður tíminn að leiða í ljós, en ekki er mikil ástæða til bjartsýni og réttast fyrir alla sem í landbúnaði starfa að vera á verði og standa fast í ístaðinu.


Möguleikar til orkuskipta


Guðmundur Pétursson skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið 9.11.2021, þar sem hann fjallar um möguleikana sem við eigum í orkumálunum og þeir eru svo sannarlega allnokkrir  og eftirspurnin verður trúlega mikil.
Guðmundur bendir á í upphafi greinar sinnar að metan sé innlent og ódýrt eldsneyti og kolefnishlutlaus orkugjafi og að bensín sé mun dýrari orkugjafi og bendir líka á að nú þegar séu um 400 farartæki knúin af metani. (CH4)
Grein Guðmundar verður ekki rakin frekar hér, en fyllsta ástæða er til að benda áhugafólki um orkuskipti á að lesa hana, hún er bæði fróðleg og upplýsandi.
Flest bendir til að framtíð okkar sé frekar björt varðandi orkumálin og orkuskipti og sérstaklega verður svo ef ráðamenn þjóðarinnar bera gæfu til að að snúa sér að þeim málum af alvöru en ekki sýndarmennsku eins og talsvert hefur borið á og er niðurgreiðsla á rafdrifnum lúxusbílum fyrir þá efnameiri ljóst dæmi þar um, auk þess að blandað hefur verið svokölluðum lífeldsneytisgumsi saman við eldsneytið í einhverju afbötunarskini.
Vonandi koma þeir tímar að horft verði til raunverulegra vísindamanna með þekkingu og menntun á málunum og að horfið verði frá þeirri glamurstefnu sem dýrkuð hefur verið og knúin áfram af Vinstri grænum og öðrum sem gagnrýnislítið eða laust fylgja sjónarmiðum þeirra. 




 

Efling?

Í Kjarnanum birtist frétt sem ber yfirskriftina ,,Tíu staðreyndir um hlutafjárútboð Icelandair" þann 16. september 2020, en þann dag hófst útboðið samkvæmt því sem þar segir.

Áður en til þessa kom var þjóðinni boðið upp á heilmikinn farsa varðandi viðbrögð við endurreisn félagsins: Illa gekk að ná samningum við flugfreyjur og nýframsprottnir ,,sósíalistar" töldu sig þurfa að hafa sitt um það að segja hvernig félagið yrði endurreist.

2021-11-06 (6)Það hafði af einhverjum ástæðum farið framhjá þeim að árið var 2020 en ekki 1918; þeir höfðu með öðrum orðum misst úr um það bil eina öld, en voru samt ekki staddir austur í Rússlandi, þó gera megi ráð fyrir að þar hefðu þeir helst viljað vera og alls ekki í nútíma.

Sólveig Anna Jónsdóttir varð formaður Eflingar í apríl 2018, ekki 1918, og á vef félagsins kemur fram að 16578 félagsmenn hafi verið á kjörskrá og að listi Sólveigar hafi fengið 2099 atkvæði af 2618.

Af þessu má sjá að þátttaka félagsmanna í kosningunum hefur verið afar lítil og hvort það var vegna þess að þeir voru staddir í nútíma en ekki fortíðinni verður ekki dæmt um hér.

....

 

 

2021-11-06 (3)Björn Bjarnason hefur tekið saman í texta hina sérkennilegu atburðarás sem við höfum orðið vitni að hjá verkalýðsfélaginu Eflingu síðustu daga. Greinin ber yfirskriftina ,,Sósíalistar hrópaðir út úr Eflingu" og birtist hún í Morgunblaðinu 6.11.2021.

Mikið hefur samkvæmt því sem lesa má í fréttum þessa dagana gengið á í verkalýðsfélaginu, mörg spjót verið á lofti og svo fór að bæði formaður og framkvæmdastjóri hættu hjá félaginu.

Hvort það sé skaði fyrir verkalýðsbaráttuna á eftir að koma í ljós, en sé tekið mið af því að mörg önnur félög starfa hnökralítið, þá er alls ekki víst að svo sé.

Fréttirnar sem borist hafa benda til þess að starfsemi Eflingar sé umsvifamikil og nægir það að vitna til viðtals sem Kjarninn birtir við formanninn sem hætti í skyndingu.

Þar segir Sólveig að mistökin sem hún hafi gert séu þau að hún hefði þurft ,,[...] að verið meira kallinn, að vera ekki meiri stjóri stjóri"

Hjá Eflingu heyrast ,,hlátrasköll" og eftir því sem segir í viðtalinu eru ,,eiginlega allir starfsmenn með 700 þúsund krónur á mánuð, líka ósérhæft skrifstofufólk" og að það sé það sem almennt sé, að fólk á skrifstofunni hafi í laun, auk matar og kaffibrauðs.

Með því að telja saman starfsmenn á heimasíðu Eflingar er hægt að komast að því að starfólk félagsins sé tæplega 60 og launakostnað félagsins geta menn síðan reiknað út með því að margfalda saman fjölda starfsmanna og laun þau sem Sólveig segir að greidd séu, en þó gott betur vegna þess að samkvæmt Sólveigu eru ,,eiginlega allir starfsmenn með yfir" 700 þúsund. 

Ekki kemur fram hver meðallaun umbjóðenda verkalýðsfélagsins eru, en það væri satt að segja fróðlegt að fá það fram.

Verkalýðsfélagið Efling gætir hagsmuna fólks sem almennt er ekki talið til hátekjufólks, gætir hagsmuna verkalýðsins sem félaginu tilheyrir.  

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...