Þegar góðverkin skaða


Á myndinni hér að ofan sem er tekin úr Morgunblaðinu þann 16.12.2021 er umfjöllun um það sem getur orðið ef blandað er lífrænni olíu saman við gasolíu (dieselolíu).

Við þessu er varað af framleiðendum bifreiða svo sem sjá má á myndinni hér að neðan, sem tekin er af innanverðu hlífðarloki áfyllingarstúts fyrir gasolíu á bifreið þess, sem þetta ritar.


Á leiðbeiningum sem þessum taka íslensk stjórnvöld ekki mark og telja sig þurfa í nafni umhvefisverndar, að taka áhættu af að skemmdir verði á vélum ökutækja. Tækjum sem greiddir hafa verið af skattar og gjöld.

Það mun vera gert til að þóknast öflum innan Vinstri grænna, sem staðið er í því að spilla eldsneyti með þessum hætti fyrir almennum notendum og það er það stjórnmálaafl sem ræður för innan ríkisstjórnarinnar og fer með forystuhlutverk á þeirri skrautlegu og nú útvíkkuðu starfsstöð.

Þar með er ekki sagt að hinir stjórnarflokkarnir beri ekki jafna ábyrgð. Þeir eru það sem má kalla limirnir sem eftir höfðinu dansa í þessu tilfelli og skiptir þá engu máli hvort verið er að skaða þau sem kusu Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn sem aðra með íblöndun sullsins sem kallað er lífrænt.

 Tilgangurinn helgar meðalið og setið skal við völd hvað sem það kostar.

Það þarf að gæta hagsmuna og svo mikil skylda er það, að hagsmunanna skal gætt hvað sem viðvörunarraddir segja og hverjar sem afleiðingarnar verða. Og þessi eldsneytiskoktell hefur verið blandaður til fjölda ára í þágu ,,góða" fólksis sem vill Jörðinni vel í nútíð og framtíð. 

Þessar raddir hljóma víða og viljinn til að gera gott er til staðar, en líkt og þegar byggt er hús, þá er best að byrja á grunninum og vanda þar til verka og ef viðhald byggingarinnar í framtíðinni felst í því einu, að mála aðeins þakið reglulega, endar illa.

Við höfum ekki orðið vör við að viðvörunarraddir varðandi blöndun ,,lífræns" vökva heyrist frá Framsóknarflokknum hvernig sem á því stendur. Þar á bæ mættu menn leiða hugann að því, að dráttarvélar bænda, stéttarinnar sem þeir láta sem þeim sé svo umhugað um, eru knúnar dieselvélum rétt eins og fjöldi fólksbíla, bæði eins og tveggja drifa.

Það gæti sem sagt bætt hag bænda að hætta þessari skemmdarverkastarfsemi!

Til hvers er verið að þessu?

Skýringin mun vera, að vinstrigræningjar trúa því að um vistvænan gjörð sé að ræða og engu skiptir hvort ræktun jurtanna og vinnsla olíunnar fari fram í fjarlægu landi og sé flutt þaðan með lestum og skipum um langan veg og umskipunum og að lokum siglingu yfir úthaf áður en því er hellt saman við gasolíu sem flutt hefur verið til landsins.

Það skal samt gert!

Og svona mun það verða hvort sem mönnum líkar betur eða vel, því tilgangurinn helgar meðalið og það sem vex á jörðinni SKAL vera betra en það sem óx þar áður og er nú sótt djúpt í jörðu.

Engu skiptir heldur hvernig hið græna er fengið og þó jörðin sé plægð og unnin og sáningin og uppskeran sé framkvæmd með vélum sem brenna gasolíu, líkt og flutningatækin sem flytja hana til hafnar, og að skipin sem sigla með jurtaolíuna yfir hafið til Íslands brenni svartolíu. 

Allt þetta skiptir það ekki máli, því það er tilgangurinn sem helgar meðalið.

Og þó hin ,,lífræna" olía sé síðan flutt frá skipi með flutningabílum sem brenna gasolíu þá skiptir það heldur ekki máli, vegna þess:

Að við verðum að vera með hreinan ,,skjöld" gagnvart náttúrunni og það skiptir engu þó enginn sjái skjöldinn frekar en fötin keisarans í ævintýrinu forðum.

Það skal vera þannig að við séum með ,,allt á hreinu"!









 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...