Myndin er fengin úr Mirror eins og sjá má og mun sýna fljúgandi furðuhlut
Í þættinum ,,Heimskviður" á RÚV var tekið til umfjöllunar (11.12.2021) dularfullt mál, svo ekki sé kveðið fastar að orði og til upprifjunar, þá muna ef til vill einhverjir eftir frásögnum af því þegar leyniþjónusta Bandaríkjanna var og eflaust er enn, að eltast við fljúgandi furðuhluti, ekki alls ólíka þeim sem Mulder og Scully glímdu látlaust við á góðum stundum í Ríkissjónvarpinu á árum áður og sem eflaust margir muna eftir.
Skemmtilegir og spennandi þættir sem undirritaður horfði á sér til ómældrar ánægju og átti svo sannarlega seint von á, að fyrr en varði yrðu að fúlustu alvöru.
Vitanlega beinist grunurinn að Kínverjum og Rússum varðandi þessi hraðfleygu flygildi, því það virðast vera helstu blótsyrðin vestan Atlansála, að ógleymdri Kúpu og Havana, sem hefur hlotnast hefur sá heiður að vera í þeim hópi.
Þegar við íslenskir lubbar segjum helv., djöf., ands., segja þeir fyrir vestan samkvæmt þessu Hav., Mosk., Pek.
En að öðru:
Dularfull veikindi hafa herjað á opinbera embættismenn frá USA þegar þeir eru staddir í höfuðborgum þessara landa og skýring er ekki fundin en eftir henni er lýst og að henni er leitað, með logandi ljósi og tæknigræjum allskonar.
Og til að bæta gráu ofan á svart, hefur eitthvað smit borist yfir landamærin frá Bandaríkjunum og norður á bóginn þ.e. til Kanada.
Grunurinn beinist að lágtíðnihljóðum, því þau munu geta valdið skjögri og alls kyns veseni a.m.k. hjá diplómötum.
Hins vegar er allt enn óupplýst varðandi flygildin nema að líklegast er, að þau séu komin úr annarri vídd, því óhugsandi er að önnur eins fyrirmyndarþjóð á sviðum tækni og vísinda og bandaríkjamenn vissulega eru, sé ekki að minnsta kosti jafnokar rússa og kínverja.
Og reyndar allra annarra ef út í það er farið!
,,Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.
,,Havana heilkennið eru veikindi sem fyrst varð vart árið 2016. Ólikt flestum öðrum sjúkdómum virðast veikindin fara í manngreiningarálit. Um 200 tilkynningar um veikindin hafa borist bandarískum yfirvöldum. Um helmingur þess hóps eru starfsmenn leyniþjónustu Bandarikjanna og fjölskyldur þeirra, hinn helmingurinn dreifist jafnt á milli starfsmanna varnarmálaráðuneytis og utanríkisráðnuneytis Bandaríkjanna. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir hefur enn ekki tekist að rekja orsakir veikindanna, sem bandarískir diplómatar hafa fundið fyrir víða um heim."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli