Framleiðsla og sala - á kjöti

 


Myndirnar hér að ofan eru teknar úr jólablaði Bændablaðsins, þar sem sagt er frá kjötframleiðslunni í landinu. Á efri myndinni er borin saman sala kjöts á tólf mánaðar tímabili (innan bláu strikanna).
Á þeirri neðri er hins vegar borin saman kjötframleiðslan á tólf mánaða tímabili. 

Við samanburð á myndunum sést:

1) Að sala alifuglakjöts er nánast alveg sú sama og framleiðslan, um 9000 tonn. 

2) Um svínakjötið er það sama að segja. Þar er svo að sjá sem framleiðsla og sala sé nánast á jöfnu.

3) Aðra sögu er að segja þegar kemur að kindakjötinu. Þar er framleiðslan, samkvæmt því sem kemur fram í úttekt blaðsins, 9.373 tonn en salan er 6.538 tonn, eða m.ö.o.: 

Fyrir hver tvö kíló sem seljast innanlands eru framleidd þrjú!

Líklega hefur sá hluti framleiðslunnar sem ekki seldist innanlands verið ,,seldur" úr landi, eða samkvæmt þessu 2.835 tonn. Hvað fyrir það hefur fengist á hinum erlendu mörkuðum kemur ekki fram, en vonandi er það eitthvað upp í kostnaðinn sem ríkissjóður hefur af atvinnusköpuninni. 

Sama er að segja um hrossakjöt, það virðist vera framleitt í mun meira magni en það sem selst á íslenskum markaði, þ.e. framleidd eru um 873 tonn en salan er um 623 tonn. Framleiðsla umfram íslenskan markað er líklega seld úr landi á því verði sem þar fæst og á ábyrgð framleiðenda.

Sala á nautakjöti virðist vera nánast á pari við framleiðsluna samkvæmt blaðinu eða 4.875 tonn framleidd og 4.859 seld.

Fyrir kindakjötið er rekin söluskrifstofan ,,Icelandic Lamb" og líklegt er að hún hafi annast viðskiptin með kindakjötið, og trúlega hefur eitthvað fengist upp í kostnaðinn sem íslenska ríkið hefur af framleiðslunni. Söluskrifstofan mun heita ,,Markaðsstofan, Icelandic Lamb", en svo er að skilja sem á íslenskum markaði einkenni hún sig sem ,,Íslenskt lambakjöt" og er hin sýnilega starfsemi sölustofunnar aðallega heilsíðuauglýsingar í prentmiðlum - hvernig rekstur þessarar skrifstofu er fjármagnaður er undirrituðum ekki kunnugt um sem stendur.

Auk fyrrnefndrar sölustarfsemi virðist sem lögð hafi verið áhersla á að tryggja vörunni sýnileika á ýmsum veitingastöðum! Þar hefur verið reynt að gera vöruna aðgengilegri en aðra kjötvöru með uppsetningu skilta og fleiru sem verður eftirlátið lesendum að giska á hvað vera muni.

Einu dæmi um þetta kynntist undirritaður er hann fór á veitingastað á Suðurlandi til að nýta sér ,,vinning" frá bifreiðaumboði nokkru. Þegar komið var á staðinn kom í ljós að vinningurinn gilti eingöngu um lambasteik, en það kom hvergi fram á pappírsgagninu frá bifreiðaumboðinu! Vinningnum mátti hins vegar breyta með því að greiða ríflega viðbót við vinningsmiðann. Það var gert og lambi breytt í naut og reyndist sú steik vera hin ágætasta!

Úttekt Bændablaðsins er hin fróðlegasta og rétt er að taka fram, að hér var stuðst við þær tölur sem í blaðinu birtust, nánar tiltekið jólablaði blaðsins. 

Kílóum breytt í tonn til hægðarauka fyrir lesendur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...