Er ekki bara best að kjósa að gera ekkert?

 

2022-01-06 (2)Þorsteinn Pálsson ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag (6.1.2022) og fer yfir áramótaboðskap forsætisráðherra og formanna flokkanna sem eru í ríkisstjórn þeirri sem settist á valdastólana eftir að alþingi hafði samþykkt kosningaklúðrið í norðvesturkjördæmi.

Þorsteinn tekur saman eftirfarandi punkta:

,,a) Forsætisráðherra hafði ekkert að segja um samstarf Íslands við aðrar þjóðir.

b) Forsætisráðherra boðaði engar aðgerðir til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

c) Forsætisráðherra átti ekki efni í eina setningu til að lýsa í hverju kjara- og vinnumarkaðsstefna ríkisstjórnarinnar væri fólgin.

d) Forsætisráðherra nefndi enga tiltekna aðgerð í loftslagsmálum, sem hrint yrði í framkvæmd á þessu ári.

e) Forsætisráðherra greindi ekki frá neinum áformum um að ákvarðanir yrði teknar á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins um nýjar virkjanir til orkuskipta og nýsköpunar.

f) Forsætisráðherra lýsti engum hugmyndum um hvernig ná mætti sátt í sjávarútvegi á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins.

g) Forsætisráðherra nefndi ekki eina tiltekna aðgerð til lausnar á vanda Landspítalans á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins."

Allt mun þetta vera rétt hjá Þorsteini og eins og við höfum tekið eftir, og Þorsteinn kemur vel inn á í pistli sínum, þá var hinni nýju ríkisstjórn ofar í huga að stækka og auka umsvif yfirbyggingarinnar en að gera rekstur hennar hagkvæmari.

Ráðuneytum var fjölgað um 20% og ráðherrum um 10% segir Þorsteinn og við gerum ráð fyrir að hann fari nærri um þessa hluti.

Þegar hægt er að efast um að alþingi sé rétt skipað og við það bætist síðan, að svo er að sjá sem skipun ríkisstjórnarinnar snúist að góðum hluta um það helst að koma sem flestum á jötuna, er rétt að skoða málin.

Er raunveruleg þörf fyrir þessa aukningu? Er skilvirkni hjá hinu opinbera ásættanleg? Hvernig gengur að hrinda hlutum í framkvæmd eftir að búið er að ákveða hvað gera skuli? Er það ekki svo, að þegar búið er að ákveða eitthvað, eftir japl jaml og fuður, að þá tekur við vel úthugsað tafakerfi alls kyns stofnana sem um þurfa að fjalla?

Hvers vegna hefur engin raforkuvirkjun verið byggð í mörg ár, þrátt fyrir augljósa þörf af ýmsum ástæðum s.s. vegna orkuskipta auk margs annars?

Í ríkisstjórninni sem fór frá á dögunum (þó flestir ráðherrarnir sitji áfram en í ráðuneytum með nýjum nöfnum) var ekki að finna nokkurn áhuga á að vinna markvisst að draumaverkefni vinstrigræningjanna: orkuskiptunum. 

Orka verður ekki til úr engu né af engu, þó orka sé til staðar þá nýtist hún ekki nema vera beisluð. Það er staðreynd sem Vinstri grænum er ekki ljós. Þar á bæ virðast menn trúa því að nothæf orka sé einfaldlega til! Og ekki orð um það meir, hún bara skal vera til

Miðað við d og e lið hér að ofan stendur ekki til að gera eitt né neitt í málunum og enn eitt kjörtímabilið mun að líkindum líða án þess að byggðar verði nýjar virkjanir í þeim vatnsföllum sem þó er búið að kanna og meta.

Svo farið sé í för Þorsteins og undið uppá slagorð Framsóknarflokksins:

,,Er bara ekki best að skrifa skýrslu?"

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...