Staða raforkuöflunar þjóðarinnar hefur verið sýnd í nýju ljósi síðustu daga.
Í grein eftir Skúla Jóhannssonar verkfræðing, sem birtist í Morgunblaðinu þann 2/12 síðastliðinn var farið vel yfir stöðuna og hún er augljóslega döpur.
Það sem helst væri hægt að gera til að bæta úr, er að ganga enn frekar á forða Hálslóns með það að markmiði að minnka notkunina frá Þórisvatni. það er hins vegar ekki hægt að fara þá leið vegna þess: að flutningskerfið ræður ekki við að flytja orku svo sem neinu nemur frá Austurlandi og inn á kerfið fyrir vestan!
Eitt sinn var rætt um að byggja línu yfir Skeiðarársand en um það náðist ekki samstaða vegna ,,sjónmengunar" sem sumt fólk taldi sig myndu verða fyrir. Hvort þessi hópur er sá sami og sá sem staðið hefur í vegi fyrir lagningu línu á Reykjanesi er ekki gott að segja. En gera má ráð fyrir að um samskonar vandamál sé að ræða. Vandamál sem lýsir sér í því, að meintar sjónhindranir séu ekki búnar að vinna sér hefðarrétt á sjónsviðinu, en svo sé hins vegar um allt mögulegt annað sem hindrað getur víðsýnið s.s. fjöll og ýmislegt annað sem reyndar er ekki af manna völdum þar uppfrá, og því væntanlega utan sviðsins ef svo má segja.
Eins og fram kemur í grein Skúla, er engin virkjun í byggingu sem stendur og því ekki líklegt að meira framboð verði á raforku næstu fjögur árin og við vitum öll hverju það er að kenna, því það er vart hægt að hugsa sér að vinna að slíkum verkefnum sem virkjunum fallvatna vegna sjálfskipaðra einkavina umhverfisins.
Það má ekki virkja og það má ekki leggja línur til raforkuflutnings, nema grafa þær í jörðu, með öllu því gríðarlega jarðraski sem því fylgir og byggingu ,,vendistöðva" (nýyrði undirritaðs sem ekki er víst að sé nægjanlega gott!).
Málum er sem sagt svo komið að ekki er hægt að afla frekari orku inn á raforkukerfið og ef það fengist með einhverju móti samþykkt, þá væri engin leið að dreifa henni til notenda vegna afstöður vissra afla sem hafa grafið um sig innan sumra stjórnmálaflokka. Ýmist þannig að fylgi þeirra er bundið við þessa hópa, eða að flokkarnir gera beinlínis út á fylgi þeirra svo sem Vinstri græn eru gott dæmi um.
Og ekki bætir það stöðuna, að flokkarnir sem helst væru líklegir til að sína raunsæi í þessum málum hafa kosið að velja sér sem samstarfsaðila í ríkisstjórn vinstrigræningjana, en vel getur verið að annar kostur hafi í raun ekki verið í boði, sé tekið mið af niðurstöðu kosninganna. Niðurstöðu sem á endanum var kosið að búa við, en sem opinberaði miklar brotalamir við framkvæmd kosninga, meðferð atkvæða og ekki síst kosningakerfisins sjálfs, þar sem sumir eru réttari en aðrir, eða þá að kosið er að líta svo á að landið sjálft hafi atkvæðisrétt, en ekki fólkið sem í því býr.
Hvort það er svo að þúfnakollar og steinar eða ferkílómetrar haldi á atkvæðisréttinum verður ekki leitt í ljós svo að augljóst verði fyrr en að sú staða kemur upp að eitthvert kjördæmi verði með engan íbúa, en þar sem ólíklegt er að slíkt geti gerst, þá sitjum við uppi með kerfi sem gefur fólki í fámennum kjördæmum aukinn atkvæðisrétt frá því sem er í þéttbyggðum kjördæmum, sem eru að sama skapi með skertan atkvæðisrétt!
Staða raforkuöflunar birtist orðið svo skýrt að í hjáleiðara dagblaðs, svo sem sjá má á meðfylgjandi mynd, má lesa umfjöllun um málið.
Þessu til viðbótar má lesa um í fréttum ákall frá talsmönnum fiskiðnaðarins sem sjá fram á að geta ekki brætt loðnu á komandi vertíð nema nota til þess olíu vegna þess að þeim hefur verið tilkynnt að raforka sé ekki fyrir hendi og að þó hún væri, þá sé ekki hægt að flytja hana á milli landshluta vegna skorts á flutningslínum.
Eftirspurn eftir raforku hefur aukist og raforkukerfið er fulllestað.
Vatnsbúskapurinn á Þjórsársvæðinu er verri en verið hefur áður og því þarf að skerða afhendingu til fiskimjölsverksmiðja.
Rætt er við Tinnu Traustadóttur framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, sem segir allar greinar iðnaðarins ál, kísilver og gagnaver þarfnast meiri orku.
Fram kemur að þrýstingur sé á lágt kolefnisspor ,,í allri virðiskeðjunni" og því hafi raforkuverð aldrei verið hærra.
Fram kemur að 90% af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar sé ,,forgangsorka", þannig að fiskimjölsverksmiðjur, fiskþurrkanir og fjarvarmaveitur þurfi að vera viðbúnar skerðingu.
Gera má ráð fyrir að þeir aðilar séu undir það búnir líkt og komið hefur fram hjá talsmönnum þeirra. Þeir eru hins vegar ekki að rifna úr kæti með að geta ekki notað hreina íslenska raforku og þurfa þess í stað að nota olíu.
Álagið á raforkukerfið eykst. Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda hefur verið ákveðið að auka notkun raforku í samgöngum en ekki hefur verið að því er virðist, hugsað út í að sú orka þarf einhverstaðar að koma frá.
Það má ekki virkja, leggja línur né byggja upp aðra innviði fyrir þessa umbreytingu og því má spyrja hvernig menn hafi séð fyrir sér að dæmið geti gengið upp?
(Við vitum að sumt af rafbílavæðingunni er blöff, svo sem í tvíorkubílunum svokölluðu, sem í sumum tilfellum duga til að aka frá heimili í Mosfellsbæ og til vinnustaðar í Reykjavík en ekki til baka, svo dæmi sé tekið, en það gæti verið efni í annan pistil!)
Ef ekki má virkja og ekki má dreifa orku frá orkuverum, þá er tómt mál að tala um orkuskipti og það væri gott, að til þess færir aðilar, reiknuðu nú út: hve lengi þarf að keyra fiskimjölsverksmiðjur á olíu, til að vinna upp það sem sparast í mengun við að hlaða rafbílana, ef eitthvað er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli