Guðný Kristjánsdóttir, fædd 12. ágúst 1949, dáin 24. desember 2021.
Minning
Guðný Kristjánsdóttir var fædd 12 ágúst 1949, foreldrar
hennar voru Kristján Pálsson (fæddur 4. des. 1928, lést 3. mars 1965) og Helga
Sæmundsdóttir (fædd 5. okt. 1929, lést
2. sept. 1991). Systkin Guðnýjar eru: Sæmundur Páll Kristjánsson f. 1. mars
1951, Kristjana Kristjánsdóttir f. 3. okt. 1952, Bjarni Þór Kristjánsson f. 15.
okt. 1954, Gunnar Kristjánsson f. 23. mars 1958 og Anna Katrín Kristjánsdóttir
f. 22. júlí 1963.
Eiginmaður Guðnýjar var Alfreð Þór Þorsteinsson þau giftust
þann 18. júlí 1970. Alfreð fæddist 15. feb. 1944 og lést 27. maí 2020. Þau
Guðný og Alfreð eignuðust dæturnar Lilju
Dögg (f. 4. 10. 1973) og Lindu Rós (f. 31.5.1976).
Börn Lilju Daggar og eiginmanns hennar Magnúsar Óskars Hafsteinssonar
eru Eysteinn Alfreð f. 17. mars 2007 og Signý Steinþóra f. 25. sept. 2009.
Barn Lindu Rósar er Guðný Gerður Lindudóttir fædd 5.
sept. 2014.
Guðný lést að morgni 24. desember síðastliðinn eftir
baráttu við erfið veikindi.
Þann 18. desember síðastliðinn
var dálítill hópur gesta saman komin á veitingastað í Reykjavík til að fagna
afmæli dóttur okkar hjónanna og þar sátum við og Guðný og nutum þess að vera saman
í góðum félagsskap.
Um hádegi 24. desember hringdi Linda Rós dóttir Guðnýjar og
tilkynnti okkur að mamma hennar hafi verið að falla frá. Guðný sem bar sig svo
vel í veislunni nokkrum dögum áður var látin.
Það er stundum sem við erum minnt á það hve lítil við erum
og hve litlu við ráðum og þetta var eitt slíkt skipti, og minningarnar streyma
fram.
Sem börn áttum við Guðný og systkini hennar og foreldrar og
afi okkar og amma heima á Seltjarnarnesi. Fjölskylda Guðnýjar bjó á Miðbraut 26, en við í húsi á norðanverðu
nesinu sem hét Skuld.
Mikill samgangur var milli heimilanna og Kristján faðir
Guðnýjar kom stundum með bílinn sinn til lagfæringar að Skuld og var þá kátt á
hjalla þar í skúrnum hjá þeim tengdafeðgunum. Kristján var léttur og kátur
maður sem smitaði frá sér gleði til þeirra sem nærri honum voru, en féll frá
langt fyrir aldur fram af hjartasjúkdómi sem ekki varð við ráðið árið 1965 og
varð það mikið högg fyrir barnahópinn og eftirlifandi eiginkonu.
Ein fyrsta minningin sem ég á um frænku mína Guðnýju, er frá
fyrsta skóladeginum. Ég hafði verið í sveit um sumarið, en vegna þess að
skólinn var byrjaður nokkru áður en ég kom heim úr sveitinni bað amma mín,
Guðnýju jafnöldru mína og frænku, að fylgja mér í skólann fyrsta daginn og
auðvitað skilaði hún hlutverki sínu fullkomlega þá, sem ætíð síðar.
Við urðum samferða í skólagöngunni næstu árin, fermdumst
saman og fermingarveislan var sameiginleg.
Vináttu Guðnýjar lauk hins vegar aldrei og einlæg vinátta
þróaðist síðar milli hennar og stúlkunnar, sem síðar tók að sér að fylgja mér í
gegnum lífið.
Fyrsta orðið sem í hug kemur þegar hugsað er til Guðnýjar er
traust, og ætli næst komi ekki alúð samviskusemi og hlýja og til viðbótar
dugnaður og framtakssemi.
Eitt sinn átti ég símtal við manninn hennar Alfreð heitinn
Þorsteinsson og eftir stutt spjall spurði ég frétta af Guðnýju. Svarið var,
heyrirðu ekki lætin? Jú, það heyrðist einhver hávaði og ég spurði hvað væri um
að vera og svarið var: Hún er að breyta baðherberginu og m.a. að brjóta múr!
Fíngerð smávaxin kona var að brjóta upp múr með til þess
gerðu verkfæri; það var alveg á mörkunum að ég gæti séð það fyrir mér, en þar
sem ég þekkti Guðnýju afar vel, þá dróst myndin upp í huga mér.
Víst gat ég séð hana fyrir mér gera þetta sem annað sem
þyrfti að gera, hún var þannig og gerði það sem gera þurfti og þegar henni
fannst að þyrfti að gera það. Síðar þegar hún kom til okkar hjónanna og þetta
barst í tal, gerði hún lítið úr málinu og hló lítið eitt við.
Hún hafði staðið í stórræðum, múrbroti og fleiru og lét sig
ekki um það muna og gerði lítið úr sínum hlut. Það var sem henni fyndist óþarfi
að vera að hafa orð á þessu og þannig var hún þessi fíngerða dugnaðarkona sem
við munum eftir og komum til með að eiga í minningunni. Hún var ekki að gera
mikið úr hlutunum og átti reyndar alltaf auðvelt með að greina aðalatriði frá
aukaatriðum.
Þessi fáu orð sem hér eru sett niður eru ekki og geta aldrei
orðið tæmandi lýsing á Guðnýju vinkonu okkar hjóna.
Eins ákveðin og hún var strax 7 ára gömul að skila sínu
hlutverki vel á fyrsta skóladegi litla frænda síns, var hún ákveðin allt sitt
líf. Hún stóð alltaf fyrir sínu, dugleg, hjálpsöm og réttsýn og svo kær sem hún
var mér, þá var ánægjulegt hvernig
samband hennar og konu minnar þróaðist upp í
einlæga vináttu.
Til stóð að við Þórunn og Guðný færum saman í ferðalag
austur á land síðastliðið sumar, til þess m.a. að skoða saman æskustöðvar ömmu
okkar. Ömmunnar sem Guðný var skírð eftir. Því var frestað vegna veikinda
Guðnýjar og því er ekki að neita að, að mér læddist sú hugsun, að ef til vill
yrði ekkert af þessu ferðalagi, en lifði þó í voninni.
Blessuð sé minning Guðnýjar. Minningar um hana munu lifa með
okkur öllum sem hana þekktum, en söknuðurinn er mikill og skarðið er stórt.
Einlægar samúðarkveðjur sendum við hjónin dætrunum Lilju
Dögg og Lindu Rós, tengdasyninum Magnúsi, barnabörnum, systkinum Guðnýjar og öðrum
aðstandendum.
Ingimundur Bergmann og Þórunn Kristjánsdóttir.
(Myndin af Guðnýju er fengin af Facebook síðu Lilju Daggar Alfreðsdóttur)