Miklar verðhækkanir á lambakjöti eru framundan, samkvæmt því sem kemur fram í Bændablaðinu.
Þar er rætt við Birgir Arason formann Búnaðarsambands Eyjafjarðar og eftirfarandi eftir honum haft:
,,að 20% hækkun út á markaðinn væri nær lagi, en þörf bænda væri þó enn mun meiri eða um 60% hækkun frá því verði sem í boði er. Liggja þurfi fyrir hvað kostar að framleiða kjötið og hvort við viljum halda framleiðslunni áfram á því verði sem þarf. Bændur hafi ekki mikið svigrúm sjálfir til að hagræða í sínum rekstri, þeir standi frammi fyrir kröfum um aðbúnað dýra, skýrsluhald kringum búin sé mikið og þannig mætti lengi telja."
Ekki kemur fram hverjar kröfurnar ,,um aðbúnað dýra" eru, en greinilega er um mikla vinnu að ræða varðandi skýrsluhald.
Að auki kemur fram hjá Birgi ,,að [dæmi séu um að] sauðfjárbú, með 500 kindum greiði nú í ár um 6 milljónir króna fyrir áburð, ríflega helmingi meira en í fyrra".
Það mun gera um 12.000,- krónur á hverja kind ef rétt er reiknað!
Augljóst er samkvæmt þessu að lambakjöt verður ekki kaupandi í framtíðinni nema fyrir sterkefnað fólk og þá til hátíðarbrigða og réttast að fylla allar frystikistur sem fyrst áður en þessi mikla verðbylgja ríður yfir.
Eða snúa sér að einhverju öðru og láta hið kraftmikla ,,Icelandic Lamb" um að selja kjötið til annarra landa.
Hugsanlega verður hægt að fá lambakjöt á lægra verði frá Nýja Sjálandi svo sem reyndist þegar sviðsettur var skortur á þessari kjöttegund fyrir nokkrum árum.
Þegar erlenda kjötið var komið, brá svo við, að í birgðageymslum sláturleyfishafa reyndist vera til nóg af íslensku lambakjöti og málið leystist farsællega!
Þó undirritaður verði neyddur til að sætta sig við að nærast á einhverri annarri kjöttegund í framtíð þeirri sem við virðist blasa, þá verður stefnan samt sem áður sett á að komast yfir hangikjöt til að neyta á jólunum!
Dýrt verður það og gæti hugsanlega borgað sig að bregða sér út fyrir landsteinana til að smygla því síðan þaðan með sér heim í hina frónsku lambakjötsdýrtíð.
Eins og við vitum og löng reynsla sýnir, verður kjötið selt erlendis á því verði sem fæst á þeim mörkuðum og íslenska ríkið mun síðan greiða það sem uppá vantar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli