Um ökuferð frá Reykjavík austur í Flóa

 

Það hefur bæði fyrr og síðar verið vetur á landinu okkar og ætti ekki að teljast til tíðinda.

Þessa mynd fékk ég senda frá syni mínum og er hún af mér og dóttur minni er ég var nýkominn heim eftir um þriggja tíma langa ferð frá Reykjavík fyrir rúmum þrjátíu árum.

Á leiðinni var ég einu sinni dreginn upp eftir útafakstur.

Á Hótel Örk tók ég stutta áningu og fór síðan áleiðis á Selfoss, ók um tíma utan vegar öfugu meginn utan í vegöxlinni, en komst upp á veginn og hélt honum sæmilega eftir það á Selfoss.

Var ekki fyrr kominn austur fyrir Selfoss en það birti upp, sem hendi væri veifað og allt gekk vel eftir það.

Bíllinn sem var Oldsmobile (diesel) Delta Royale árgerð 1978, stóð sig ágætlega og festist ekki nema í þetta eins skipti sem áður var nefnt þegar ég fór út af veginum í Svínahrauni.

Annars er það um þessa bíltegund að segja að hún sannaði það fyrir mér að bandarískir bílar eru ekki þess virði að eiga, því við hönnun og smíði þessara bíla voru öll lögmál varðandi hönnun. þverbrotin og lögmál eðlisfræðinnar send út í hafsauga.

Vélin ómerkileg breyting á bensínvél í dieselvél án þess að tekið væri í nokkru tillit til þeirra innri krafta sem voru á ferðinni og hestöflin í besta falli folöld.

Skiptingin ómerkilegt forneskju drasl og hjólalegur entust ekki nema skamman tíma, því tæknirisunum hjá GM hafði sést yfir að taka tillit til þeirra krafta sem eru á ferðinni í dieselvélinni.

Rafkerfið meingallað en lufsaðist þó til að duga bílinn.

Furðulegt til þess að hugsa að þjóð, sem hefur svo sannarlega unnið ótal tækniafrek, skuli hafa sent á markað slíka hrákasmíði.

Svo það verði ekki misskilið, þá var dóttirin ekki með í ferðinni, en tók á móti mér er ég kom heim.

Það sama gerði bróðir hennar sem tók myndina, sem og aðrir á heimilinu!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...