Í grein í The Guardian sem birtist þann 14 maí sl. undir yfirskriftinni ,,Russia’s Black Sea blockade pushing millions towards famine, G7 says" er drepið á ýmislegt sem er ofarlega í huga vestrænna ráðamanna þessa dagana, auk þess sem vitnað er í úkraínskan svæðisstjóra (Oleg Sinegubov og eiginkonu (Natalia Zarytska) eins þeirra ,,hermanna" sem hýrast við lakan kost í alkunnu stáliðjuveri í Mariopol.
Í greininni er því haldið fram að milljónir manna muni svelta til dauða ef Rússar heimili ekki útflutning á korni frá hinum lokuðu höfnum Úkraínu og fyrir þessu er borinn ónefndur utanríkisráðherra úr G7 hópnum.
Við munum að eitt sinn hét sá hópur G8 hópurinn, en það var áður en menn fundu það út að best væri að vísa Rússum út úr klúbbnum. Nú heitir hópurinn sem sagt G7 en ekki G8 og innan hans er enginn Rússi til að tala við um málið og þá er brugðið á það ráð að að spjalla við blaðamann í þeirri von að forseti Rússlands muni lesa hið breska blað.
Hundar fara þessa leið stundum ef þeim liggur eitthvað á sínu hundslega hjarta og venjulega ber það þann árangur að þeim er sveiað til að þegja!
Þýskalandskanslari Olaf Scholz varar menn við því að Putin hafi verið óbilgjarn í samtali nokkurra ráðherra við hann síðastliðinn föstudag.
Hópurinn sem spjallaði við Putin var frá Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum og hann fordæmdi hinn rússneska forseta fyrir að loka flutningaleiðum frá Úkraínu um hafnirnar um Svartahaf.
Hinn virðulegi klúbbur hafði í hita leiksins gleymt því að Rússar eru í stríði við Úkraínu, stríði sem gengur út á að endurheimta tvö héruð landsins sem það síðarnefnda var búið að sölsa undir sig, en hinum vestrænu leiðtogum, sem búnir eru að fá óvæntan áhuga á sveltandi fátæku fólki finnst ekki gott ef kornverð hækkar á markaðnum; höfðu gleymt því í hita leiksins og ákafa sínum að þeir eru búnir að beita sér fyrir allskonar viðskiptaþvingunum gagnvart rússnesku þjóðinni, þvingunum sem snúa að olíu, gasi og fjölmörgu fleiru, auk þess sem eigur rússneskra auðmanna hafa verið kyrrsettar. Það síðasttalda hafa þeir eflaust mátt gera án þess að komið hafi beint við pyngju almennings í löndunum sem fígúrur hins fína G7 klúbbs bera svo mjög fyrir brjósti.
Í grein The Guardian er sagt frá því að hvorki meira né minna en 43 milljónir manna muni líða hungur verði ekki hafnir (Úkraínu) opnaðar og við gleðjumst innilega yfir þeirri samúð með smælingjum heimsins sem skyndilega hefur brotist fram í hugum þessa göfuga hóps.
Það mun samkvæmt greiningu þessara heiðursmanna skella hungursneyð á heiminn verði Rússar ekki góðu strákarnir við fínu strákana. Þau hefðu ef til vill mátt hugsa fyrst og gera svo; tefla skákina betur í stað þess að standa skyndilega og óvænt(!) frammi fyrir því að þurfa að knékrjúpa fyrir Putin og höfða til góðmennsku hans. Hún er trúlega einhvers staðar en hann er að tefla skák og er ekki spenntur fyrir því að verða heimaskítsmát.
Þetta ákall til Rússlandsforseta kemur fram þegar úkraínskir eru bornir fyrir því að vel gangi í stríðinu að þeirra mati og rússneski herin sé að draga sig til baka og sé núna ekki nema 50 km frá landamærum Rússlands. Fyrst svo er, er þá ekki eðlilegast að biðja Úkraína, sem standa sig svona vel í staðgengils stríðinu, um að opna umræddar hafnir. Biðja ,,hermennina" í stálverinu um að fara að afgreiða skip og fara að skipa út!
Seinna í frásögn hins breska blaðs er rætt við eiginkonuna sem bíður eftir manni sínum úr gildrunni í stálverinu. Sú er búin að ræða málið Xi Jinping hinn kínverska um björgun mannsins síns og félaga hans. Önnur kona segir frá því að allir séu mennirnir sem fastir eru í gildrunni bardagafúsir, þ.e.a.s. nema þeir sem misst hafa hendur og fætur og maður getur varla ímyndað sér hvernig það muni vera að vera lokaður þarna inni í því ástandi, en þeir kjósa að gefast ekki upp. Hvort mennirnir lúta stjórn yfirvalda í Úkraínu er óljóst, en ef svo er þá er virðing þeirra yfirvalda fyrir lífi og limum sinna manna eitthvað af skornum skammti. Því nánast er útilokað að mennirnir komist heilir á líkama og sál út úr þessari klípu.
Ólíklegt er að hinn kínverski spjallfélagi konunnar skipti sér af málinu, enda vandséð hvað hann ætti að segja rússneska hernum, úkraínska hernum og yfirvöldum þjóðanna tveggja að gera.
Zelensky forseti Úkraínu telur málið afar flókið og erfitt viðureignar og af því má ráða að úkraínsk yfirvöld hafi ekki beint boðvald yfir mannskapnum; geti ekki gefið þeim skipun um að leggja niður vopn og gefa sig á vald rússneska hersins. Sé svo, þá er komin fram sönnun þess að um sé að ræða harðskeitt berdagalið, trúlega af sama meiði sprottið og þau sem herjað hafa á Donesk og Lughansk héruð undanfarin ár. Þá sem bera óskoraða ábyrgð á þeim ófriði sem verið hefur á svæðinu og sem leitt hefur til ,,hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar" Rússlands.
Þessu til viðbótar má benda á það að í sama blaði og sem hér hefur verið vitnað í, er er sagt frá því í dag, að ekki standi til að aflétta viðskiptaþvingunum af Venesúela eins og einhverjum mun hafa komið til hugar, til að fá þaðan olíu til að dempa niður verðhækkanir á henni.
Það verður sem sé ekki gert og ástæðan er eflaust mikill áhugi manna á að græða á verðhækkunum sem orðnar eru á olíu og matvælum og hráefnum til framleiðslu þeirra, svo sem hér hefur verið drepið á.
Ekkert af þessu mun lagast í bráð. Ekki meðan stríðið geisar milli grannanna í austri og ekki meðan enginn vilji er til að bera klæði á vopnin af hálfu mannanna í fína klúbbnum sem hér var nefndur í upphafi og ekki meðan blásið er glæðum í þann eld sem svo líflega logar.
Það er svo að sjá sem skiptingin milli austurs og vesturs sé að aukast og styrkjast og að öfgarnir ráði för.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli