Kindur, minkar, hestar, kýr, (svín og alifuglar)

 


Skjáskot úr Bændablaðinu

Fjöldi búfjár í landinu okkar er Bændablaðinu hugleikinn og um hann er fjallað á forsíðu blaðsins sem kom út þann 12.maí síðastliðinn í grein undir yfirskriftinni ,,Talning á hrossum er enn í ólestri og möguleg skekkja 15.431 hross“ og í beinu framhaldi:

,, Heildarfjöldi búfjár í landinu um áramót 2021 var 1.236.267 dýr. Inni í þeirri tölu er nautgripa­stofninn, sem taldi 80.563 gripi, sauðfjárstofninn með 385.194 vetrarfóðrað fé og svínastofninn með 10.166 gyltur og gelti. Þá eru tvær tölur gefnar upp um hrossastofninn, annars vegar 54.069 og hins vegar áætluð tala upp á 69.500 hross.“

 Að því gefnu að þessar tölur séu réttar, þá er fjöldinn um 700.000 húsdýr, en eins og sjá má þá er fjöldi hrossa eitthvað á reiki og hér er tekið meðaltal af tölum blaðsins um fjölda hrossa.

Í yfirskrift umfjöllunarinnar segir að ,,heildarfjöldi búfjár í landinu árið 2021 taldist vera 1.236.267 fjórfætlingar og fiðurfé“, en eins og okkur flestum er kunnugt, þá ganga fuglar á tveimur fótum!

Í greinarkafla sem ber millifyrirsögnina ,,Skekkja upp á 15.431 hross!“ er farið yfir mismun sem virðist vera varðandi fjölda hrossa, en síðan snarast yfir í umfjöllun um alifuglarækt, þ.e.a.s. fénaðinn sem gengur á tveimur fótum eins og við munum! 

Hross gera það að öllum jafnaði ekki nema þegar þau prjóna, en það telst varla með, hefði maður haldið. Hvað sem því líður, þá hefst mikil talnaleikfimi í framhaldi af þessu sem ekki verður rakin hér, nema að því leiti til, að tölur sveiflast upp og niður, eða út og suður og ekki fyrir hvern sem er að rekja sig áfram í talnaflóðinu.

Það kúnstugasta í þessu öllu er samanburður á fjölda hænsna og sauðfjár allt frá 1985 og fram til 2020. Um það áhugaverða mál geta menn lesið á forsíðunni og síðan áfram á blaðsíðu tvö í blaðinu, hafi menn áhuga á. Þar er rúmlega helmingur síðunnar helgaður þessu áhugaverða efni með súluriti yfir fjölda sauðkinda allt frá 1703 til 2021. 

Fyrirsögn þeirrar umfjöllunar er: 

,,Stefnir í að sauðfjárstofninn á Íslandi verði sá minnsti í rúm 200 ár, og í upphafi greinarinnar sjáum við að í  landinu er um það bil ein kind á hvern íbúa, en kindafjöldinn var tæp hálf milljón árið 1855. Árið 1703 var íbúafjöldi landsins innan við 50.000".

                                                                       Skjáskot út Bændablaðinu

Í greininni segir síðan að mestur fjöldi sauðfjár hafi verið 1977 en þá hafi sauðkindur verið tæpar 870.000 í landinu. Höfundi greinarinnar finnst augljóslega þessi fækkun ekki góð og hafi fjöldi kinda verið hinn eini rétti 1977 þegar íbúar þjóðarinnar voru talsvert innan við 200.000 þá er augljóst að fjöldinn þyrfti að vera um tvær milljónir tæpar af kindum í dag til að ásættanlegt yrði!

Umfjöllun blaðsins um þetta áhugaverða mál lýkur síðan með því að opinberað er, að stýrð sauðfjárbeit sé feimnismál meðal sauðfjárbænda vegna ótta þeirra um að ímynd fjallalambsins muni við það skaðast!

Ímyndin felst sem sagt í því að hafa beitina stjórnlausa og lausráfandi kindur vítt og breitt um landið, á löndum í óþökk nágranna, í vegarköntum (þar sem margar þeirra glata lífinu vegna óvæntra kynna af bílum sem um vegina fara) og á hálendinu sem engan vegin þolir nema mjög takmarkaða sauðfjárbeit.

Síðasta setning þessarar umfjöllunar Bændablaðsins um þessi mál  er svohljóðandi:

,,Hvort slíkt ímyndarmál vegur þyngra en hugsanlegt hagræði af hólfastýrðri beit á láglendi, þarf trúlega að leiða í ljós með faglegri rannsókn“.

Já, ætli það gæti ekki verið gott, að í stað vaðals í framsóknaríhaldsstíl um ást manna á kindum (ást sem brýst út að hausti með því að éta það sem menn elska mest!) kæmi til sögunnar nýr hugsunarháttur laus við draumsýn Bjarts í Sumarhúsum og auglýsingavaðals ríkisrekstrarins sem birtist okkur sem auglýsingar Icelandic Lamb, á heilsíðum dagblaða og í sjónvarpi og víðar og að lokum í útgjöldum ríkisins.

Hér verður ekki lagt út í það fen Bændablaðsins, að ræða um talnasúpuna sem borin er fram varðandi alifuglaeldi (dýranna sem ganga á tveimur fótum eins og við munum), það verður gert síðar ef þurfa þykir.

Fyrir áhugasama er texti blaðsins um alifuglafjöldann hér fyrir neðan innan tilvitnunarmerkja og ætli það segi okkur ekki eitthvað að á tveimur stöðum er fjöldi hænsna borinn saman við fjölda sauðkinda, en hafa verður í huga að hver holdahæna skilar af sér margfalt meira kjötmagni en hver sauðkind.

_ _ _

,,Frá 1985 til 2001 fór alifuglarækt hrakandi þó með tveim uppsveiflum, þ.e. 1990 og 1999, en var samt langt undir sauðfjárfjöldanum. Neðst fór alifuglaræktin í 207.102 fugla á árinu 2001, en fór síðan hratt stígandi fram til 2007 þegar alifuglaræktin fór í fyrsta sinn fram úr sauðfjárræktinni. Þá töldust alifuglar í landinu vera 469.682, en sauðfé 456.007. Eftir þetta varð hökt á alifuglaræktinni fram til 2015 þegar stofninn taldist vera 249.044 fuglar. Á árinu 2016 varð gríðarlegt stökk og á einu ári stækkaði alifuglastofninn um 793.424 fugla og fór upp í 1.042.468. Þetta er aukning upp á rúm 318,5%. Það sama ár talist sauðfjárstofninn vera 476.647 skepnur. Um síðustu áramót taldist alifuglastofninn í heild vera 689.616. Það er veruleg fækkun frá árinu 2020, þegar alifuglastofninn var talinn vera 842.943 fuglar. Það eru varphænsni eldri en 5 mánaða, holdahænsni eldri en 5 mánaða, lífungar yngri en 5 mánaða, kjúklingar, endur, gæsir, kalkúnar og aðrir alifuglar. Erfitt er þó að henda nákvæmar reiður á fjöldann, sem er mjög breytilegur innan ársins og innan mánaða vegna hraðs vaxtar og örrar slátrunar. Varphænum fækkar um helming Athyglisvert er að varphænsnum hefur fækkað um rúmlega helming á milli ára, eða úr 203.643 í 100.565 fugla. Þær voru hins vegar 231.901 árið 2018. Holdahænsni töldust vera 44.813 um síðustu áramót og fjölgaði um 7.603 fugla milli ára. Vantar samt talsvert upp á að þær nái fjöldanum 2019 þegar þær voru 61.974.“

Bændablaðið fjallar einnig um dýr sem almennt eru ekki étin og hér fyrir neðan er skjáskot af þeirri umfjöllun. Loðdýraræktin er aðeins að ná sér á strik og það þrátt fyrir ömurlega umfjöllun á Alþingi og víðar. Vonandi heldur sú þróun áfram. 

Óvönduð umræða um búgreinar og ýmsa atvinnustarfsemi s.s. raforkuöflun,  er orðin allt að því landlæg plága og óskandi, að minnsta kosti alþingismenn, sjái sóma sinn í að vanda þá umræðu. Það fer illa saman að ræða í öðru orðinu hve nauðsynlegt það sé að allir hafi vinnu við sitt hæfi og síðan í hinu að naga niður nær allt sem gert er. 

Sárast er þó, þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi gera það, líkt og gerðist á því þingi sem sat fram að síðustu kosningum. 


Skjáskot úr Bændablaðinu

 

 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...