Landbúnaðurinn er ofarlega á blaði í Morgunblaði dagsins fjórða júní árið 2022.
Steingrímur Sigfússon er dreginn upp á svið til að leysa
vandann sem skapast hefur vegna hækkandi verðs á aðföngum til framleiðslu
landbúnaðarvara.
Stofnaður hefur verið ,,Spretthópur" sem hann á að
stýra í mark og sé textinn lesinn, þá er landbúnaður: sauðfjárrækt og
kúabúskapur.
Hækkanir á áburði, kornvöru, olíu og öðrum rekstrarvörum
koma samkvæmt þessu ekki við pyngju annarra en þeirra bænda sem þessar
búgreinar stunda, að mati ráðherrans sem skipaði spretthópinn.
Það væru mikil og góð tíðindi ef sönn væru. En það eru þau
vitanlega ekki.
Allar landbúnaðargreinarnar eru undir í þessu máli og
vonandi átta spretthlaupararnir sig á því, þó ekki sé rétt að reikna með að svo
sé, sé tekið mið af viðhorfum flokkanna þriggja sem ríkisstjórnina mynda til
málaflokksins.
Ekki reiknum við með því, að þau sem í ríkisstjórninni sprettast séu svo fjarri raunveruleikanum að þau
telji, að þegar áburður, olía, varahlutir og allt hvað heiti hefur hækkar í verði, að þá hækki ekki framleiðslukostnaður annarra landbúnaðarafurða en sauðfjár og kúa.
Er fólkið í ríkisstjórninni svo aftarlega á merinni að það
sé nær alveg öruggt: að nefndarfólkið í Spretthópnum renni aftur af gripnum þegar
slegið verður í og spretturinn tekinn?
Sé svo, er þá ekki réttast að athuga málið betur, áður en slegið verður í klárinn? Snúa við og fara frá rásmarkinu og byrja að nýju?
Við gerum ráð fyrir að ráðherrann hafi örlitla tengingu við landbúnað, en samt ekki næga og þurfi því leiðbeiningar.
Mðað við grein
sem birtist í Morgunblaðinu eftir framkvæmdastjóra Bændasamtakanna ætti
ráðherrann að geta fengið slíka leiðsögn.
Greinin er eftir Vigdísi
Häsler og í yfirskrift segir:
„Ísland verður að tryggja sig með því að auka
birgðahald af fóðurhráefnum í landinu með því að eiga stærri varalager
líkt og Norðmenn og Finnar.“
Á þetta hefur áður verið bent og er ritara þessara lína
minnistætt þegar mætur maður, ræddi málið við hann eftir fund í Bændahöllinni og
benti á þessa staðreynd, varðandi Finnland. Hér sjáum við að Vigdís nefnir
Noreg líka til sögunnar.
Vigdís segir í grein sinni:
,,Hinn 18. mars sl. skipaði forsætisráðherra starfshóp
um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðar á hættutímum.
Starfshópurinn sem er enn að störfum, m.a. vegna þess að beðið var niðurstöðunnar
frá LBHÍ, vinnur að gerð áætlunar um söfnun upplýsinga um birgðastöðu á
hverjum tíma, leiðir til að bregðast við óásættanlegri birgðastöðu, skömmtun
og stýringu á úthlutun mikilvægra birgða og tryggja þar með nauðsynlega
birgðastöðu með hliðsjón m.a. af samstarfi innflytjenda og framleiðenda á
vörum sem teljast nauðsynlegar. Starfshópnum er því ætlað að áhættugreina
fæðuöryggi þjóðarinnar út frá langtímaáhrifum en ekki bregðast við
stöðunni eins og hún er núna.“
Og síðan:
,,[…] erfitt að fá upplýsingar um magn áburðar eða fóðurs fyrir búfé hér á landi." Og spyr síðan: ,,Og eigum við nægar birgðir af olíu til lengri tíma en 90 daga?“
Hún nefnir líka að við höfum ekki upplýsingar um hvað til er
í landinu af áburði, korni og kjarnfóðri og eins og við mörg vitum eru þessar
vörur notaðar til landbúnaðarframleiðslu, auk margs annars og gleymum ekki olíunni.
...
Og svo stolið sé svolitlu meiru úr hinni ágætu grein Vigdísar Häsler, þá er það margt fleira en föstudagspitsan sem gæti verið gott að huga að.
Hér í lokin skal minnt á það, að betra er að klárinn sé vel
girtur þegar sprettur ,,Spretthóps“ ráðherranns verður tekinn og ekki verra að
skepnan sé a.m.k. bandvön og sæmilega járnuð.
Höfum í huga að þó hrossið geti verið fengið úr íslenskri
hjörð, þá þarf æði margt innflutt til að skepnan sé reiðfær, s.s. skeifur,
fjaðrir, leður, ístöð, beisli og mél og eflaust gleymist eitthvað í þessari
upptalningu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli