Titill þessarar færslu kemur úr grein eftir Bjørn Lomborg sem birtist í Morgunblaðinu þann 8.8.2022 undir titlinum ,,Að leika sér með líf annarra". Greinina er því miður ekki hægt að nálgast með tenglinum til fulls nema vera áskrifandi að Morgunblaðinu.
Björn er forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hooverstofnun Stanford háskóla, eftir því sem fram kemur neðanmáls við greinina í blaðinu.
Hér kemur greinin örlítið stytt svo sem sjá má:
,, Fátt hefur dregið [...] umræðu auðugri þjóða heimsins um jarðefnaeldsneyti gerlegar fram í dagsljósið en orkukreppan í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Bandaríkin og Evrópa grátbiðja arabaþjóðirnar um að herða á olíuframleiðslu sinni samtímis því sem G7-iðnríkin hvetja fátækari ríki til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa í því augnamiði að gæta að loftslagsmálum.
Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku. Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum [...], slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.
Einn einasti þegn meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku sem 23 Afríkubúum stendur til boða. Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega þremur fjórðungum þeirrar orku sem þær nota. Innan við þrjú prósent orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi.
Engu að síður skera peningaþjóðirnar við nögl sér styrki til vinnslu jarðefnaeldsneytis í þróunarríkjum. Fátækustu fjórir milljarðar mannkyns hafa engan aðgang að burðugum orkulindum en frá auðþjóðunum berast þeim þau boð að taka undir sig stökk frá orkuleysi til iðjagrænna allsnægta sólarorkuplatna og raforkuvindmylla.
Sólarorkuævintýrið í Dharnai
Er þar á ferð hrein tálsýn byggð á óskhyggju og grænni markaðssetningu auðþjóða sem sjálfar kæmu aldrei til með að gera sér slíkar lausnir í orkumálum að góðu. Það ættu fátækari þjóðirnar ekki heldur að gera. Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum þegar þeir lýstu því yfir að Dharnai neitaði að „falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins“. Daginn sem skipt var yfir í sólarorku tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum. [...]
Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni. Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur svo fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði sem olli [...] loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun sem að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja tvo pakka á dag.
Grænfriðungar buðu [...] forsætisráðherra Indlands til heimsóknar í þorpið þar sem við honum blöstu hópar fólks með kröfuskilti þar sem beðið var um „ósvikið rafmagn“ (í þeirri útfærslu sem leyfir notkun kæliskápa og eldavéla og gefur ljós sem dugir börnum til heimanáms) í stað „gervirafmagns“ (þar sem átt var við rafmagn frá sólarorku sem býður ekki upp á neitt af framangreindu).
Orkuverið er nautgripahús
Þegar Dharnai fékk svo loksins að tengjast raforkukerfi slökktu æ fleiri íbúanna á sólarrafhlöðum sínum. Samkvæmt rannsókn nokkurri var helsta ástæða þessa sú að kolaorkuframleidda rafmagnið sem þorpið fékk aðgengi að var þrefalt ódýrara en sólarorkuævintýrið. Í ofanálag stóð það undir notkun tækja sem fólk vildi nota, svo sem sjónvarps og eldunartækja. Þegar þetta er ritað er sólarorkubúnaðurinn hulinn þykku ryklagi og orkuverið er nautgripahús.Vitanlega má hlaða farsíma með sólarorkurafmagni og kveikja ljós, nokkuð sem getur komið sér vel, en er gjarnan rándýrt. Úttekt sem gerð var á sólarorkuvinnslu fjölmennustu fylkja Indlands leiddi í ljós að þrátt fyrir ríkulegar niðurgreiðslur eru sólknúnir lampar flestum notendum mun minna virði en nemur kostnaðinum við þá. Í auðugum ríkjum á borð við Þýskaland og Spán hefði minnst af sólarorkuframleiðslubúnaðinum verið sett upp ef ekki hefði verið fyrir niðurgreiðslur á honum.
Ekki til að treysta á
Rafmagn framleitt með sól og vindi getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar – allt það sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar. Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast eru þessir orkugjafar í grundvallaratriðum ekki til að treysta á. Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð. Rafhlöðutækni býður heldur engin svör. Þær rafhlöður sem til eru í heiminum í dag nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í eina mínútu og fimmtán sekúndur. Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn meiri en tæpar tólf mínútur. Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýskalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hve minnst. Á sama tíma koma minnst fimm daga samfleytt tímabil, rúmar 7.000 mínútur, þegar framleiðsla vindorku er við núllið.Hér eru komnar skýringarnar á því hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi. Alþjóðaorkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd muni jarðefnaeldsneyti enn vera uppspretta tveggja þriðju hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni og ef til vill hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osinbajo, varaforseti Nígeríu: „Engum í heiminum hefur auðnast að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.“
Auðþjóðir heimsins eiga að sjá sóma sinn í að fjárfesta í nýsmíði sem tryggir að kostnaður við græna orku verði minni en við jarðefnaeldsneytisleiðina í stað þess að vera siðlaus ljón í vegi þróunar annarra ríkja. Með því mætti tryggja að öll heimsbyggðin geti nýtt sér endurnýjanlega orkuvalkosti. Krafa um að fátæku ríki heimsins komist af án jarðefnaeldsneytis er ekkert annað en leikur að lífi annarra"
Hér lýkur greininni og svo sem þeir sem hafa lesið hana hafa séð, drepur Bjørn á marga áhugaverða punkta sem vert er að hugleiða varðandi þessi mál.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli