Stórhugur og framkvæmdasemi forsvarsmanna sveitarfélaga getur tekið á sig ýmsar myndir. Sumar reisa sér minnisvarða og varðveita það sem ber merki fyrri tíðar.
,,Franski spítalinn" v/Lindargötu í Reykjavík var um tíma Gagnfræðaskólinn v/Lindargötu og eins og sjá má er byggingin varðveitt og eins og geta má nærri eru margvíslegar minningar við það terngdar.
Flóaskóli - áður Villingaholtsskóli - sem molaður var niður fyrir nokkrum dögum, var byggður 1946.
Í höfuðborginni og víðar, eru reknir margir skólar og þar hefur það komi fyrir, að mygla hefur búið um sig í skólahúsnæði og að skólahús hafa verið rifin, en oftar hafa þau verið lagfærð.
Í Flóahreppi er rekinn Flóaskóli og að sögn kom upp mygla í kjallara hússins, en það var byggt 1946, þ. e. ári eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk.
Hér er búið að rífa klæðninguna af húsinu.
Húsið bar vitni um áræðni og dugnað fyrri kynslóða sem lítið áttu, að minnsta kosti á mælikvarða þeirra tíma sem nú eru.
Húsið var menningarverðmæti og sagði sögu frá liðinni tíð og bar vitni um hvernig búið var að menntun barna til sveita eftir að farskólatímabilinu lauk.
Hin stórhuga sveitarstjórn Flóahrepps komst að því - væntanlega eftir vandlega íhugun - að þar sem húsið væri ekki lengur í fullkomnu lagi eftir áratuga notkun, væri best að eyða því af yfirborði jarðar, í stað þess að laga það.
Í Flóahreppi var sem sagt, tekið til þess bragðs, að brjóta húsið niður með stórvirkum vélum og sem nú er endanlega horfið og mun enga sögu segja komandi kynslóðum.
Húsið verður ekki minnisvarði um hve stórhuga fyrri kynslóðir voru.
Verður ekki til vitnis um hve vel þær vildu búa að börnum sínum þegar möguleikar til þess sköpuðust.
Sköpuðust að loknum einum mestu hörmungum sem mannkynið hefur yfir sig kallað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli