Það er óhugnanleg tilhugsun, að barist sé um eða við, eitt stærsta kjarnorkuver í heimi.
The Guardian fjallar í grein um það mál.
Á einum stað, er þar haft eftir Zelensky að hann krefjist þess að Rússar hverfi frá verinu:
Staðan er sem sé ekki góð og sé haft í huga, að Zelensky hefur áður lýst því yfir að ekki verði hætt árásum [á verið] fyrr en Rússar yfirgefi það og að þeir hafa á hinn bóginn sagt að slíkt standi ekki til og að þeir séu þar til að verja það svo sem unnt er fyrir árásum, þá lítur ekki út fyrir að lausn finnist á næstunni.
Rússar eru búnir að hafa yfirráð yfir verinu síðan í lok febrúar, eða bráðum í hálft ár og ekkert bendir til að þeir séu tilbúnir til að afhenda það til Úkraínu.
Vonandi tekst að koma vitinu fyrir ráðamenn þar á bæ og koma þeim í skilning um að kjarnorkuveri verður ekki með góðu móti náð með hernaði.
Þó svo vilji til að Rússum hafi tekist það!
Ekki nóg með það, þeim tókst líka að halda úkraínskum starfsmönnum versins og þeir eru að vinna þar alla daga við að sinna búnaði og öðru sem þarf.
Sé tekið mið af því hvernig Zelensky hefur tjáð sig, er stefnan sú að gjörsigra Rússa.
Til að ná því markmiði hefur Úkraína fengið umtalsverða aðstoð í formi vopna o.fl., en samt er ekki líklegt að draumur hins úkraínska forseta rætist á næstunni.
Ísland hið herlausa og friðsama land, hefur meira að segja lagt sitt að mörkum með því að greiða leigu fyrir flugvélar til flutninganna!
Landið sem hefur í því einu barist að stækka landhelgina og njóta til þess stuðnings Rússa þ.e. Sovétríkjanna!
Hvort bandamenn Úkraínu eru tilbúnir til að fórna hverju sem er og þar með töldum heimsfriði og lífslíkum á plánetunni Jörð á eftir að koma í ljós.
Nöturlegt er það, ef ,,baráttan um keisarans skegg" á eftir að verða til þess að eyða því öllu og tortíma.
Það eru ýmsar hættur sem að lífinu á plánetunni okkar steðja og nær allar eru þær til orðnar fyrir tilverknað mannanna.
Getum við ekki sameinast um að forða frekara tjóni og taka til við að bæta fyrir það sem aflaga hefur farið?
Væri það ekki betra en að þjóðirnar stríði hver við aðrar og að gengið sé svo langt, að berjast um kjarnorkuver sem allir ættu að vita af fyrri reynslu, að geta valdið óbætanlegu tjóni ef stjórn á starfsemi þeirra fer úr böndunum?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli